Góður göngutúr með vini eða vinkonu er eitt af því sem getur stuðlað að góðu lífi á efri árum, segir í grein eftir Thomas Helsborg á Danmarks Radio. Greinin fer hér á eftir í lauslegri þýðingu.
Við lifum lengur og þess vegna beina menn í auknum mæli sjónum að því hvernig hægt er að eiga góð efri ár.
„Lífið á helst að vera gott og fullt af gleði alveg án tillits til aldurs. Þess vegna er mikilvægt að skoða hvernig við getum bætt fleiri góðum árum við stöðugt lengra líf,“ segir Astrid Pernille Jespersen, lektor við Miðstöð heilbrigðrar öldrunar við Kaupmannahafnarháskóla.
En hvernig er hægt að eiga góð efri ár? Astrid Pernille segir að í fyrsta lagi sé mikilvægt að hafa í huga að eldra fólk er jafnólíkt innbyrðis og þeir sem yngri eru. Margir hafi þá röngu hugmynd, að allir sem séu orðnir sjötugir séu eins. Þess vegna geti uppskriftin að góðum efri árum verið mjög einstaklingsbundin. Hún mælir með því að menn beini sjónum að þremur atriðum í þessu sambandi. Því hvernig við upplifum aldur, líkamlegri heilsu og andlegri og félagslegri vellíðan.
Gerðu þér í hugarlund að lífið á efri árum sé skemmtilegt
Astrid Pernille finnst að almennt hafi menn of neikvæða mynd af ellinni. „Það er tilhneiging til að líta á aldurinn eins og tröppu. Sígilda hugmyndin sem enn er ráðandi gengur út á að við byrjum á neðstu tröppunni þegar við fæðumst og förum síðan stöðugt uppá við, þar til við náum hápunktinum um fimmtugt. Eftir það liggi leiðin bara niður á við,“ segir hún og telur að þess í stað ættum við að líta á lífið eins og það gangi í bylgjum. Auðvitað er hægt að lenda í kreppu á efri árum, en það getur fólk líka gert þegar það er ungt eða á miðjum aldri. Þannig er líka hægt að eiga góð tímabil í lífinu á öllum aldri,“ segir Astrid.
Líkaminn þarf að duga til daglegra athafna
Við vitum að gott tengslanet eykur ekki bara lífsgæði fólks, heldur lengir það lífið. Annað sem er mikilvægt er að vera frískur, eiga auðvelt með að hreyfa sig og geta bjargað sér sjálfur. Það þarf vöðvastyrk og gott líkamlegt ástand, vilji menn halda áfram að ganga stiga, halda á innkaupapokunum og svo framvegis. „Það eru margir heilbrigðir einstaklingar sem fylgja fyrirmælum um að hætta reykingum, drekka minna, hreyfa sig meira og borða hollt. En á móti sjáum við líka vaxandi vandamál vegna offitu, streitu og svefnvandamála,“ segir hún. „Svo verðum við að viðurkenna að við getum ekki séð við öllu. Það er hægt að vera óheppinn, detta á gangstéttinni, brjóta mjöðmina og hætta þannig að geta hreyft sig. En því sterkari sem líkaminn er, þeim mun meiri líkur eru á að við eigum almennt góð efri ár.“
Vinir og innihaldsríkt líf eykur langlífi
En það er ekki nóg að vera í góðu líkamlegu formi. Til að eiga góð efri ár er mjög mikilvægt að maður upplifi ekki að maður sé einmana og einangraður. „Við vitum að gott tengslanet eykur ekki bara lífsgæðin, heldur lengir það lífið. Það geta bæði verið tengsl við vini og fjölskyldu eða tengsl í gegnum það að taka þátt í félagsstarfi af ýmsu tagi,“ segir Astrid Pernille. Menn þurfi líka að upplifa að þeir hafi eitthvað fram að færa. „Fyrir einhverja getur þetta snúist um að vera lengi á vinnumarkaði. Fyrir aðra getur það verið spurning um að aðstoða við að gæta barnabarnanna eða taka þátt í sjálfboðaliðastarfi,“ segir hún.