Hreyfingin byrjaði á húsþökunum á Laugaveginum

Edda í badminton inni í TBR nýlega.

Edda Jónasdóttir var upphaflega íþróttakennari frá Laugarvatni og fór síðar í kennaraháskólann. Hún missti eiginmann sinn í fyrra, er nú hætt að vinna en hefur stefnt markvisst að því að  hversdagurinn sé alltaf skemmtilegur þótt tilveran sé nú öðruvísi en áður. Hún fer tvisvar í viku í líkamsræktarstöð þar sem hún gerir æfingar en segir hlæjandi að sér þyki það óskaplega leiðinlegt. “Ég fer í líkamsræktarstöðina eingöngu til þess að viðhalda líkamlegri getu svo að ég geti áfram stundað skemmtilegar  íþróttir,” segir Edda. Hún fer í badminton tvisvar í viku og stundar golf á sumrin og syndir af og til. Minna hefur verið um íþróttaæfingar á tímum covid en nú stendur það allt til bóta.

Edda tók íþróttakennarann á Laugarvatni og kenndi íþróttir í Víðistaðaskóla í Hafnarfirði lengst af, eða í 25 ár. Þá fór hún í launað leyfi og fór til Kaupmannahafnar í íþróttakennaraskólann þar. Þegar hún kom til baka fór hún í Kennaraháskólann hér heima og kláraði BED námið með kennslunni.

“Ég vildi þá breyta til og hefði sjálfsagt kulnað í starfi ef ég hefði ekki gart það því það er mjög mikið álag að kenna íþróttir. Ég tók þá að mér bekkjarkennslu frá 1. upp í 7. bekk og hafði gaman af allan tímann,” segir hún.

Bjó um tíma í Noregi

Edda fór með eiginmanni sínum, Þóri Yngvarssyni véltæknifræðingi, til Noregs þar sem hann var við nám en hann lést í fyrra. Hún kynntist gönguskíðamenningunni í Noregi sem er ein af íþróttunum sem hún er að taka aftur upp í dag. Þar prófaði hún líka dýfingar en segir brosandi að hún hafi ekki haldið því sporti við.

Byrjaði á húsþökunum á Laugaveginum

Edda með barnabarni í blaki.

Edda segir að auðvitað búi hún að því núna að hafa stundað íþróttir alla tíð. Það byrjaði allt við Laugaveginn þar sem hún ólst upp á númer 27. “Fallin spýtuhringurinn fólst í að klifra upp á Sæbjörgu, þaðan upp á Ljósafoss, þaðan upp á vegg sem nú er horfinn, þaðan upp á Brynju og svo upp á Fíladelfíuþakið  og yfir á Sindra. Þennan hring hlupum við í æðisgengnum eltingaleik aftur og aftur. Það voru auðvitað svo mikil lætin í okkur að við vorum beðin um að koma í messu í Fíladelfíu af því við trufluðum messuhaldið svo mikið. Presturinn bauð okkur reyndar bara einu sinni inn,” segir Edda og hlær. “En svo var ég í sveit eins og aðrir krakkar og þar var hlaupið á eftir rollunum um allt.” Að þessari hreyfingu allri býr Edda ríkulega nú á áttræðisaldri. Hún fór ekki í skipulagt íþróttastarf fyrr en á unglingsaldri þegar hún fór í handbolta í Fram.

Á margar yngri vinkonur

“Ég hef eignast margar yngri vinkonur í sportinu í gegnum tíðina af því jafnaldrar mínir hafa margir þurft að hægja á sér af því líkaminn hefur gefið sig. Ég hef verið í blaki og á stóran vinkonuhóp þar en hætti þar 62 ára gömul af því mér þótti ég vera orðin alger súkkulaðikleina,” segir Edda og brosir. “Hópurinn yngdist mikið og ég var allt í einu orðin langelst og þær nýju margar um þrítugt. Þá hætti ég og sneri mér að badminton inni í TBR  þar sem er hópur kvenna sem ég get vel keppt við. Í þeim hópi er reyndar einn karl en sá hefur stundað badminton alla ævi en hann er 91 árs. Paul kom hnugginn til Jóa þjálfara fyrir nokkrum árum og spurði hann hvað hann ætti nú að gera því spilafélagar hans væru ýmist dánir eða orðnir farlama. Jói sagði honum þá að koma bara í kvennatímann og í ljós kom að Paul hélt sko alveg í við okkur “ungu konurnar”,” segir Edda og brosir.

Besta lækningin að hreyfa sig

Badmintonið tekið af krafti.

“Badminton, golf og sund eru íþróttir sem hægt er að stunda fram eftir öllum aldri,” segir Edda. “Í mínum huga væri farsælast ef þessar þrjár íþróttir væru kynntar fyrr öllum strax í barnaskóla. Þá hefðu allir einhvern grunn þegar þeir eltust og gætu þá valið sér þá íþrótt sem hentaði best. Þegar við eldumst fer ekki hjá því að við finnum fyrir ýmiss konar verkjum í skrokknum hér og þar. Þá er það versta sem við getum gert, að leggjast fyrir. Besta lækningin er að hreyfa sig,” segir Edda sem leggur á sig að fara í líkamsræktarstöð tvisvar í viku til að geta stundað skemmtilega hreyfingu eins og badminton og golf. “Félagsskapurinn í íþróttunum er líka svo góður sem skiptir miklu máli,” segir Edda og lætur 74 ár ekki hægja á sér meira en nauðsynlegt er og svo spilar hún bridds líka til að halda heilastarfseminni við.

Sóveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

 

Ritstjórn febrúar 17, 2021 08:06