Hrotur geta verið bæði hvimleiðar og hættulegar

Kæfisvefn er ástand sem getur valdið miklum heilsufarslegum skaða sé hann ekki meðhöndlaður. Fólk með kæfisvefn nær sjaldan ef nokkurn tíma fullri hvíld þótt það sofi á næturnar og með tíð og tíma getur það beinlínis orðið hættulegt sjálfu sér og öðrum.

Manneskja með kæfisvefn verður eftir vissan tíma ófær um fulla athygli og einbeitingu við þau verk sem hún vinnur yfir daginn. Það fer að verða vart minnistruflana, viðbragðstíminn verður hægari og athyglin ekki eins skörp. Þetta hefur áhrif á hæfni manna til að keyra og dregur úr getu til að sinna ýmiss konar nákvæmnisvinnu.

Kæfisvefn er nafn á því ástand þegar hálsinn þrengist eða lokast í svefni og veldur öndunartruflunum. Einstaklingurinn veit sjaldnast af þessu en margir hrökkva upp verði öndurhléð langt. Þá getur verið erfitt að sofna aftur en kæfisvefn er mældur í stigum eftir því hve oft fólk hættir að anda og hve lengi öndunarhléin standa. Manneskja er greind með kæfisvefn þegar öndurarhlé eru fimm eða fleiri á klukkustund.

Eykur líkur á hættulegum sjúkdómum

Flestir tengja saman kæfisvefn og hrotur, enda er eitt af einkennum þessa ástands háværar hrotur, svefninn verður órólegur svefn og fólk hrekkur oft upp um miðjar nætur, sumir oft á nóttu. Ástandinu fylgir einnig tíð næturþvaglát, nætursviti auk öndunarhléanna í svefni.

Á daginn er manneskja með kæfisvefn þreytt og syfjuð. Sumir hafa standa sig að því dotta hvar sem þeir setjast niður og ef þeir fá tíma til slökunar. Þess vegna getur verið beinlínis hættulegt fyrir viðkomandi að setjast undir stýri. Einbeiting og minni sljóvgast, höfuðverkir eru tíðir og erfiðir og sumir finna fyrir munnþurrki og særindum í hálsi. Sívaxandi örmögnun veldur einnig skapsveiflum, aukinni gremju og óþolinmæði og í sumum tilfellum þunglyndi. Fólk með kæfisvefn er einnig í meiri hættu á að fá háþrýsting, hjartaáfall, hjartabilun, heilablóðfall og sykursýki.

Eru bara feitir með kæfisvefn?

Offita er vissulega algeng ástæða kæfisvefns en grannt fólk getur líka þjáðst af kæfisvefni. En rannsóknir hafa sýnt að á milli 60% og 70% þeirra sem eru með kæfisvefn eru of þungir. Kæfisvefn er einnig algengari meðal karla en kvenna og tíðni hans er hærri meðal eldra fólks en yngra. Ýmsar líffræðilegar ástæður geta þó verið fyrir því hvers vegna fólk fær kæfisvefn meðal annars: Skekkja á miðnesi, kvef, ofnæmi, stór tunga, stór úfur og lítil haka.

Ef fólk með kæfisvefn neytir áfengis eða róandi lyfja leiðir það oft til þess að öndunarhléum fjölgar og þau verða lengri.

Svefnrannsókn

Til að greina kæfisvefn er gerð svefnrannsókn. Fólk fer til læknis og fær tæki með rafskautum sem það lærir að tengja við brjóstkassann. Það fer síðan heim og sefur með búnaðinn yfir nótt. Læknir fer síðan yfir þau gögn sem tækið safnaði eftir að viðkomandi skilar honum daginn eftir.

Ráð til úrbóta

Sú meðferð sem skilað hefur mestum árangri er notkun svefnöndunartækis. Tækið tryggir að öndunarvegurinn haldist opinn yfir nóttina og kemur þannig í veg fyrir öndunarhlé með tilheyrandi súrefnisskorti og truflun á svefni. Hins vegar er nú margra mánaða bið eftir slíku tæki hjá sjúkratryggingum Íslands og fólk með kæfisvefn getur búist við að þurfa að bíða í um það bil fjóra mánuði eftir þessu nauðsynlega og langþráða meðferðartæki.

Bitgómur hefur sömuleiðis reynst vel í sumum tilvikum. Tannlæknar taka mót af tönnum manna og útbúa góminn. Gómarnir eru áhrifaríkastir hjá þeim sem hafa vægan kæfisvefn.

Góð ráð

Fólk getur gert ýmislegt sjálft til að bæta svefn sinn. Alger undirstaða undir góða hvíld hjá öllum er að hafa góða svefnrútínu, sofna helst alltaf á sama tíma á kvöldin og vakna á sama tíma á morgnana. Fleira er hægt að gera, meðal annars að hreyfa sig meira yfir daginn, reyna að létta sig, borða ekki á kvöldin, venja sig á að sofa á hliðinni fremur en á bakinu, hafa góða loftræstingu í svefnherberginu, fara hvorki með tölvu né síma inn í svefnherbergið, hætta að drekka kaffi á daginn og forðast áfengisdrykkju. Ef fólk hefur grun um að það sé með kæfisvefn ætti það að leita til heimilislæknis síns sem fyrst og óska eftir svefnrannsókn.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn febrúar 22, 2025 07:00