Hvað kallar þú þann sem er orðinn 65 ára, en er ekki enn orðinn gamall? Það vantar heiti á þetta tímabil í lífinu, þ.e. árin milli þess að fólk hættir að vinna og þar til það fer að hrörna vegna elli. Þetta eru upphafsorð nýlegrar greinar í The Economist í Bretlandi, sem kallast Fleiri en 65 skuggar af gráu. Höfundurinn veltir fyrir sér ýmsum orðum sem hægt væri að nota yfir þennan hóp. Þetta er greinilega umhugsunarefni þar í landi eins og hér. Hér er rætt um eldra fólk á ýmsum aldri sem eldri borgara, eftirlaunafólk, ellismelli eða aldraða. Greinarhöfundur The Economist telur að enska orðið „Geriactives“ höfði of mikið til ellinnar til að ná utanum þennan yngri hóp. „Sunsetters“ eða „nightcappers“ gætu virkað niðrandi, segir hann. Kannski væri hægt að nota Nyppies (Not yet Past It) eða „Owls“ (Older, Working Less, Still earning). Það myndi að mati höfundarins ná þessu tímaskeiði ævinnar betur. Hér á eftir fer þessi grein í lauslegri þýðingu Lifðu núna.
Að finna heiti á aldurshóp getur virkað eins og skemmtileg dægradvöl. En tímabil í lífinu eru félagsleg fyrirbæri og sagan sýnir að þegar ný tímabil koma fram, getur það valdið straumhvörfum í viðhorfum. Það er þörf á slíkum straumhvörfum, til að hægt sé að svara spurningunum sem hrannast nú upp í kringum stöðugt meira langlífi fólks á jörðinni.
Árið 1800 voru lífslíkur manna hvergi í heiminum yfir 40 árum. Nú eru lífslíkur hins vegar meiri en 40 ár í hverju einasta landi í heiminum. Frá árinu 1900 hefur líf manna lengst um fleiri ár, en gerst hafði áður í samanlagðri sögu mannsins. Þetta gerðist í fyrstu þannig að barnadauði minnkaði og seinna með því að að líf manna lengdist. Langlífi er eitt af helstu afrekum mannkynsins.
Samt sem áður er litið á þetta sem eitt helsta þjóðfélasmeinið sem við er að glíma.Vandinn liggur í því að þeir sem eldri eru verða stöðugt háðari ungu kynslóðinni. Fram til ársins 2100 mun hlutfall fólks yfir 65 ára á móti hverjum vinnandi manni, þrefaldast. Þegar heimurinn gránar minnka hagvöxtur og skatttekjur. Vinnandi fólki fækkar, á meðan kostnaður eykst við eftirlaun og heilbrigðiskerfi. Þetta er að minnsta kosti það sem menn halda stöðugt fram í umræðunni.
Dómadagsspámönnum hættir hins vegar til að missa af mikilvægum punkti. Menn lifa ekki bara lengur, heldur lifa þeir líka að mestu við góða heilsu. Ef breskur drengur fæddur árið 2015 er borinn saman við annan breskan dreng sem er fæddur árið 1990, bætast sex ár við líf hans þess fyrrnefnda.Í fimm ár af þessum sex mun hann lifa við góða heilsu. Þetta segir Institute for Health Metrics and Evaluation við Háskólann í Washington. Það er of algengt að stjórnvöld og fyrirtæki átti sig ekki á þessu. Þau setja öll viðbótarárin undir sama hatt í hópnum 65 ára og eldri. Þessi hugsunarháttur, að líta á starfslok manna eins og klettabrún, sem starfsmenn og neytendur fara allt í einu fram af, er í litlum tengslum við raunveruleikann. Hann ýtir líka undir hugmyndasnauða pólitík sem felst í því einu að starfslokaaldurinn er hækkaður stöku sinnum, þegar lífslíkur aukast.
Það væri mun róttækari nálgun að byrja á því að viðurkenna, að í að minnsta kosti hinum ríka heimi, eru margir sem eru taldir gamlir, ennþá ungir. Þeir vilja vinna, en hafa sveigjanlegri vinnutíma. Þeir vilja líka eyða peningum. Ráðgjafafyrirtækið McKinsey segir, að 59% af neysluaukningu í borgarsamfélögum fram til ársins 2030, verði til komin vegna þeirra sem eru sextugir og eldri.
Það myndi hjálpa til að breyta viðhorfunum ef þetta nýja tímabil í lífinu yrði skilgreint sérstaklega. Það hefur gerst áður með æviskeið. Hugmyndir okkar um barnæskuna urðu til á 20 öld. Þær greiddu götu nýrra hugmynda um barnavernd og gullöld barnabókmenntanna rann upp. Bólugrafnir, skrítnir 15 ára krakkar fóru að vekja athygli á fimmta árarugnum. Það var farið að kalla þá táninga og það setti af stað skriðu ýmiss konar vöru og þjónustu við þennan hóp, allt frá fatnaði til tónlistar. Árið 1944 birtist grein í Life þar sem sagði að „Stjórnendur bandarískra fyrirtækja sem eiga margir táningsdætur, hafa einungis nýlega byrjað að gera sér grein fyrir því að táningar eru stór og alveg sérstakur markhópur“ Um miðjan sjötta áratuginn voru bæði Time og Newsveek búin að flenna fyrirsögnina„Táningar“ yfir forsíður sínar.
Að skilgreina yngri hóp hinna eldri sem sérstakt tímabil í lífinu, gæti haft svipuð áhrif og hvatt vinnuveitendur og stjórnmálamenn til að hugsa öðruvísi um leiðir til að halda þeim sem yngri eru í hópnum virkum. Þegar lífið lengist stöðugt, hefur orðið „retirement“ eða starfslok sem þýðir raunverulega á ensku að draga sig í hlé eða fara á lítt áberandi stað, fengið misvísandi merkingu. Þegar menn eru 65 ára, eru þeir ekki horfnir af sviðinu heldur „pre“tired eins og greinrhöfundur orðar það. Og hann hvetur fólk til að skála fyrir öllum þeim sem halda inná þetta nýja tímabil.