Geta hvorki borgað heyrnartæki né tannviðgerðir

Fréttablaðið vekur í dag athygli á því að heyrnartæki séu of dýr fyrir efnaminni eldri borgara og ekki nóg með það, heldur eigi þeir líka í erfiðleikum með að greiða fyrir tannlækningar. Fjöldi eldra fólks bíður líka eftir augasteinsaðgerðum. Þar standa þeir verr að vígi sem hafa minni auraráð, vegna þess að þeir sem eru betur stæðir geta keypt slíkar aðgerðir á einkastofum með því að borga þær algerlega úr eigin vasa. Þeir styrkir sem hægt er að fá hjá Tryggingastofnun ríkisins til kaupa á heyrnartæki og til tannlækninga duga einungis fyrir broti af kostnaðinum. Til að mynda er stykur til að kaupa heyrnartæki fyrir annað eyrað 30 þúsund krónur, en tækin kosta á bilinu 220 þúsund til 500 þúsund, segir Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður Félags eldri borgara í Reykjavík. Fréttablaðið ræðir við Þórunni og segir:

Þórunn segir þá upphæð sem Tryggingastofnun borgi í heyrnartækjum hafa haldist eins í mörg ár þrátt fyrir verðhækkanir. Sama gildi um tannlækningar. Þeir sem þurfi á tannaðgerðum, öðrum en að fá gervitennur, að halda þurfi að mestu leyti að borga fyrir það úr eigin vasa. Til dæmis ef þarf að draga tennur úr gómi eða fá svokallað tannplant, þar sem sett er króna upp og gervitönn fest við. Þórunn segist vita til þess að sumir eldri borgarahafi ekki efni á þessum aðgerðum eða að kaupa sér ný heyrnartæki“.

Fram kemur í greininni að Félag eldri borgara hafi farið á fund velferðarráðherra og heilbrigðisráðherra til að vekja athygli á þessum málum. Þar mættu forystumenn félagsins velvilja hjá ráðherrum en ekkert hefur gerst. Og haft er eftir Þórunni;

Þetta er mjög mikið félagslegt vandamál sem fólk hefur átt erfitt með að tala um. Ég held að þetta sé pínu feimnismál“

Málið er einnig tekið upp í leiðara Fréttablaðsins. Þar segir meðal annars að velviljinn einn og sér dugi skammt og eftirfarandi spurningu er velt upp;

Á það fólk sem búið er að skila sínu starfi og borga skatta og skyldur í fimmtíu ár ekki rétt á  því að samfélagið sem það byggði upp tryggi því lágmarksréttindi á ævikvöldinu?“

 

 

Ritstjórn október 21, 2014 10:48