Hvað bjóða flokkarnir eftirlaunafólki?

Allir flokkar sem bjóða fram til Alþingiskosninganna á laugardag hafa sett fram stefnu í málefnum eldra fólks. Grái herinn fór á netið og tók saman hvað hver flokkur vill gera fyrir eftirlaunafólk.

A-listi Björt framtíð
Björt framtíð leggur ríka áherslu á að elli- og örorkulífeyrir dugi til framfærslu. Það er með öllu óásættanlegt að það öryggisnet sem almannatryggingakerfið á að tryggja, skuli ekki grípa þá sem verst standa, hvort sem það eru ellilífeyrisþegar eða öryrkjar og úr því þarf að bæta strax. Uppbygging heimaþjónustu er eitt af baráttumálum Bjartrar framtíðar og er einn lykilþátturinn í því að bæta lífsgæði aldraðra og draga úr þörf einstaklinganna fyrir dýrari og flóknari úrræði.

B-listi Framsóknarflokkur
Lágmarkslífeyrir aldraðra verði 300 þúsund krónur á mánuði og fylgi lágmarkslaunum á almennum vinnumarkaði.

C-listi Viðreisn
Einfaldari almannatryggingar með minni skerðingum. Lífeyriskerfi almannatrygginga verði einfaldað og dregið verulega úr skerðingum vegna annarra tekna. Enginn lífeyrisþegi almannatrygginga fái minni heildartekjur en sem nemur lágmarkslaunum. Umbætur verði gerðar á vinnumarkaði til að bregðast við hækkandi eftirlaunaaldri og opnað fyrir þann möguleika að hefja töku lífeyris almannatrygginga samhliða hlutastarfi.

D-listi Sjálfstæðisflokkur
Ellilífeyrir hækkaður, frítekjumark tekið upp og kerfið einfaldað. Sveigjanleg starfslok og lífeyrisaldur hækki í áföngum í 70 ár. Heimaþjónusta efld samhliða fjölgun hjúkrunarrýma

S-listi Samfylkingin
Það verður að hækka lágmarksgreiðslur í almannatryggingakerfinu í takt við það sem almennt gerist á vinnumarkaði.Höfuðáherslur: Lágmarksgreiðslur verði ekki lægri en 300.000kr á mánuði. Afturvirkar hækkanir frá 1. maí 2016. Sveigjanleg starfslok. Skiljanlegra almannatryggingakerfi

V-listi Vinstrihreyfingin grænt framboð
Til að koma til móts við fjölbreyttar þarfir þessa hóps þarf fjölbreyttar aðgerðir en þó eru fjórar mikilvægastar til að tryggja samfélagsþátttöku og að eldra fólk eigi þess kost að lifa með reisn. Bætum kjör eldra fólks. Bæta þarf kjör eldra fólks með því að hækka ellilífeyri, hann fylgi launaþróun, og tryggja að enginn sé lengur undir fátæktarmörkum. Hækka þarf skattleysismörk ellilífeyris og draga úr tekjutengingum með jöfnuð að leiðarljósi. Sveigjanleg starfslok. Samstarf þarf við vinnumarkaðinn í því skyni að gera gangskör að auknum möguleikum eldra fólks á hlutastörfum og sveigjanlegum starfslokum.

P-listi Píratar
Afnemum tekjuskerðingar. Afnemum öll skilyrði á borð við fyrirkomulag búsetuforms, hjúskaparstöðu, tekjuskerðingar, tekjutengingar og tímamörk lífeyrisbóta og innleiðum þess í stað viðmiðunarfjárhæð sem telst nægjanleg til framfærslu og mannsæmandi lífs. Heimila skal tekjur meðfram bótum án þess að bætur skerðist, þeir sem vilja og geta eiga rétt á því að taka þátt í atvinnulífinu án þess að vera refsað fyrir það. Allir hafa rétt á að bæta aðstæður sínar með eigin athafnasemi og örorka á ekki að vera sjálfkrafa dómur um líf á lágmarksframfærslu.

T-listi Dögun
Heildarendurskoðun á lífeyrssjóðskerfinu. Blönduð leið gegnumstreymis- og sjóðsöfnunarkerfis. Skapa sveigjanleika til að geta mætt breyttum aðstæðum. Einn lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn. Jafna lífeyrisréttindi. Aldrei verði greitt minna út úr sameinuðum lífeyriskerfum en lágmarksframfærsluviðmið. Séreignasjóðir að vild og getu

E-listi Íslenska þjóðfylkingin
Málefni öryrkja og aldraða eru ætíð í fyrirrúmi og stefnt skal að útrýmingu fátæktar á Íslandi.

F-listi Flokkur fólksins
Eldri borgurum verði tryggð mannsæmandi afkoma svo þau geti lifað með reisn. Grunngildi 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 verði virt í hvívetna. Flokkur fólksins vill afnema allar skerðingar greiðslna almannatrygginga og lífeyrissjóða til einstaklinga og að vinna eldri borgara og öryrkja verði aftengd skerðingum.

H-listi Húmanistaflokkurinn
Mannréttindi. Öllum verði tryggð skilyrðislaus grunnframfærsla sem dugar fyrir mannsæmandi lífi. Sett verði lög um að óheimilt sé að bera fólk út af heimilum sínum. Heilbrigðisþjónusta verði ókeypis fyrir alla, altæk og af bestu gæðum.

R-listi Alþýðufylkingin
Alþýðufylkingin beitir sér almennt fyrir auknu vægi hins félagslega í samfélaginu á kostnað markaðsvæðingar, sérstaklega á sviðum almannaþjónustu sem allir þurfa á að halda og umsjón með auðlindum, sem eiga að vera sameign þjóðarinnar. Nauðsynlegt er að losa samfélagið undan þeim vítahring kapítalismans sem gerir kröfu um sífellda stækkun hagkerfisins.

Ritstjórn október 27, 2016 11:17