Hvað er best fyrir heilsuna og samviskuna

Af öllum þeim fjölmörgu tegundum súkkulaðis sem fyrirfinnast getur verið erfitt að fá botn í það hver þeirra er best fyrir heilsuna, bragðlaukana og samviskuna. Hér eru nokkur góð súkkulaðiráð. Meira um súkkulaði má finna á slóð danska ríkisútvarpsins dr.dk/tv

Hollt súkkulaði inniheldur mikið af kakói

Ef þú ert að hugsa um hollustuna þá kaupirðu súkkulaði sem heftur að minnsta kosti 70 prósent kakóinnihald. Hollu efnin eru í kakóinu og því hærra hlutfall af því, því betra. Úr kakóinu færðu meðal annars A og B vítamín, holl andoxunarefni og steinefni eins og sínk og selen.

Einn moli er alveg nóg

Borðaðu ekki alla plötuna í einu. Einn moli er nóg til að fá góðu efnin. Það eru margar kalóríur í súkkulaði, líka þessu dökka.

Varastu barnaþrælkun

Kauptu súkkulaði úr kakóbaunum frá Suður eða Mið Ameríku því barnaþrælkun er viðvarandi vandamál á kakóekrum Vestur Afríku. Þá má einnig reyna að finna afurðir merktar fairtrade í sama tilgangi.

Súkkulaði á ekki að vera ódýrt

Kauptu dýrt súkkulaði. Ef þú vilt gott súkkulaði sem er framleitt við mannsæmandi kjör og úr gæða baunum, þá þarftu að borga meira fyrir það.

Gæði ráðast ekki af hlutfalli kakósins

Tegund kakóbaunarinnar og upprunaland hefur mjög mikið að segja um gæði kakósins en ekki hversu hátt hlutfall kakósins er í súkkulaðinu. Kynntu þér hvar bestu baunirnar eru hverju sinni.  Ef þú vilt vita meira um súkkulaðið má reyna að lesa utan á pakkann eða spyrjast fyrir í búðinni um uppruna hráefnisins.

 

Ritstjórn maí 19, 2015 13:48