Hvað skiptir máli við ákvörðun um bílakaup?

Margt þarf að hafa í huga þegar taka á ákvörðun um kaup á (nýjum) bíl. Nú um stundir er ein mikilvægasta ákvörðunin sú hvort tími sé kominn til að leggja sitt af mörkum til orkuskipta í samgöngum – og þar með markmiðum Íslands í loftslagsmálum – með því að kaupa rafbíl.

Atriðin sem verða talin upp hér snúa þó ekki að því sérstaklega hvort rafbílakaup séu skynsamleg eða tímabær, heldur að almennum þáttum sem sérstaklega eldra fólk þarf að hafa í huga við bílakaup. Markmiðið með ferlinu sem leiðir að ákvörðuninni er að kaupandinn endi í þægilegu, öruggu umhverfi svo að hann geti einbeitt sér að því sem skiptir mestu máli. Það er umhverfi um borð í bíl sem gerir honum/henni kleift að halda athyglinni við aksturinn og umferðina í kring. Og að hann/hún þreytist sem minnst af akstrinum, hafi sem mesta ánægju af honum og aki jafnan heilum vagni heim í hlað.

Með þeim upplýsingum sem fylgja hér á eftir er hægt að setja saman tékklista, eftir þörfum og óskum hvers og eins, sem hjálpar til við að bera kennsl á útbúnað og eiginleika bíls sem bezt hentar viðkomandi. Rétt er þó að taka fram að ólíklegt er að bíll finnist sem uppfyllir allan óskalistann. Það eru þó allar líkur á því að ef bíll uppfyllir meirihluta óskalistans þá ætti viðkomandi að verða mjög sátt/ur við þann valkost.

1 Aðgengi

Sama hvert ökutækið er, þá vill maður geta stigið inn í það og út úr því vandkvæðalaust. Það þýðir að bíldyraopið sé hæfilega stórt og að sætishæðin sé þannig að stirður líkami eigi auðvelt með að renna sér í sætið og upp úr því. Þurfi maður að láta sig pompa niður í sæti nálægt götuhæð – og hífa sig upp úr því – eins og

Gott aðgengi og þægileg sætishæð eru meðal mikilvægustu atriða fyrir eldri bílkaupendur.

algengt er í sportlegum bílum, má bóka að maður þreytist á því eftir því sem árin færast yfir. Fyrir hávaxna og fólk í yfirþyngd á þetta enn frekar við. Svipað á við um mjög stóra bíla, s.s. hækkaða jeppa og pallbíla, þar sem sætið er komið í það mikla hæð yfir jörðu að það þarf nánast að klifra upp í það. Ellistirðir skrokkar þreytast ekki síður á slíkum æfingum.

2 Útsýni

Það er líka sama hvert ökutækið er – þú vilt sjá vel út úr því, og sjást sjálfur. Gott útsýni bílstjóra úr bílnum er mikið öryggisatriði.

Að bíllinn sé búinn góðum ljósum er líka mjög mikilvægt, ekki síst í skammdeginu hér á norðurslóðum. Nútímabílar eru flestir búnir skærum LED-ljósum, sem er gott, en síðra er að meintur dagljósabúnaður þeirra er oft stilltur þannig frá verksmiðju að það lýsa aðeins dauf ljós að framan og engin að aftan. Til að sjá og sjást er því mikilvægt að ljósabúnaður bílsins sé stilltur þannig að hann lýsi með fullum ljósum að framan og aftan öllum stundum sem hann er úti í umferðinni. Að hann geri þetta sjálfkrafa eykur bæði þægindi og öryggi.

Að bílar séu útbúnir regnskynjurum er líka æskilegt; þannig virkjast rúðuþurrkurnar sjálfkrafa og ökumaðurinn þarf ekki að eyða athygli í að virkja rúðuþurrkurnar eftir því hve úrkoman er mikil. Upphitaðar framrúður og/eða rúðuþurrkur eru líka gagnlegur búnaður hér á norðurslóðum, en margir bílar hafa þar að auki framljósahreinsi og afturrúðuupphitara og -þurrkur sem staðalbúnað.

3 Þægindi

Láttu það eftir þér. Akstur þreytir, á hvaða aldri sem maður er. Maður vill að bíllinn sé þannig að maður þreytist sem minnst við að keyra hann. Eitt mikilvægasta atriðið til að tryggja þetta er að set-stelling bílstjórans sé sem þægilegust, en þetta næst bezt með gæða-bílsæti með mörgum stillingarmöguleikum, þ.m.t. mjóbaksstuðningi.

4 Aðlögun stjórntækja

Að hægt sé að stilla stýri bílsins bæði á hæðina og „að og frá“ er algerlega nauðsynlegt. Samanlagt eiga stillingarmöguleikar stýris og sætis að tryggja sem þægilegasta akstursstellingu ökumanns.

Hér á norðurslóðum eru upphituð sæti ráðlegur búnaður, upphitað stýri einnig.

Að innra rými bílsins sé vel einangrað frá bæði umhverfishljóðum og hávaða frá vélbúnaði og fjöðrun bílsins eru mikilvægir þægindaþættir. Fátt er eins þreytandi og óþægilegur hávaði á löngum bílferðum.

Hægindabúnaður

Sjálfskipting – það segir sig nánast sjálft að sjálfskipting hentar eldri ökumönnum sérlega vel. Fyrir þá sem kunna eftir sem áður best við beinskiptingu er það kannski huggun að margar sjálfskiptingar bjóða upp á að ökumaður velji gírana sjálfur. Allir rafbílar eru sjálfskiptir.

Stjórntæki innan seilingar – að stjórntæki bílsins séu notendavæn og þannig hönnuð að allar aðgerðastýringar séu auðaðgengilegar og innan seilingar er mikilvægt fyrir ökumenn á öllum aldri. Bezt er að sem flestar stýringar séu sem mest sjálfvirkar, þ.m.t. miðstöðvar- og útvarpsstillingar, símatenging o.s.frv., eftir að þær stillingar hafa einu sinni verið sniðnar að óskum notenda.

Stærri snertiskjáir – að snertiskjáir til stýringar á hljómtækjum bílsins, símatengingu o.s.frv. séu stórir og skýrir er betra en lítill skjár. Að hægt sé að stýra aðgerðum með því að tala við tækin er enn betra. Það er öruggara að hafa báðar hendur á stýri og gefa græjunum í bílnum, þ.m.t. snjallsímanum, munnlegar skipanir.

Snertilaust aðgengi – það einfaldar líka umgengni við öll ökutæki að þurfa ekki að taka lykil úr vasa og stinga í „svissinn“ til að geta sett það í gang. Lyklalaust aðgengi er nú orðið svo þróað að bíllinn skynjar þegar þú nálgast hann – svo fremi að þú sért með fjarstýringuna í vasanum (eða „appið“ virkt í símanum) – svo að þú getur setzt inn og keyrt af stað án nokkurra frekari málalenginga. Slíku kerfi tilheyrir gjarnan líka möguleikinn á t.d. að opna skottið með því að sveifla fæti og fleiri slíkir þægindaaukar.

5 Lágur viðhaldskostnaður

Við kaup á bíl skiptir framtíðarviðhaldskostnaður að sjálfsögðu miklu máli. Mjög hefur lengst í ráðlögðu millibili þjónustuskoðana nýjustu bensín- og díselbíla, og rafmagnsbílar þurfa miklu minna almennt viðhald en hefðbundnir brunavélabílar (þurfa t.d. engin vélarolíuskipti). Viðhaldskostnaður rafbíls verður þá fyrst tilfinnanlegur ef endurnýja þarf rafhlöðuna. Sparneytni er líka eftir sem áður eitt það mikilvægasta, sama hver orkugjafi bílsins er. Fyrir rafbíla er drægni jafnframt stórt atriði.

6 Öryggi

Bílar eru nú almennt miklu öruggari en nokkru sinni áður. Búnaður eins og hemlalæsivörn, skrikvörn, skriðvörn og bakkmyndavélar eru nú staðalbúnaður í nýjum bílum. Flestir bílar eru búnir minnst sex loftpúðum, og í sumum eru þeir jafnvel mun fleiri.

Allir nýir bílar á Evrópumarkaði eru árekstrarprófaðir. Hvernig þeir koma úr úr slíkum prófunum Euro-NCAP (stjörnugjöf) segir til um hversu öruggir þeir eru fyrir farþegana ef þeir lenda í árekstri.

Auk þess er tölvustýrður akstursöryggisbúnaður í örri þróun um þessar mundir. Margar af tækninýjungunum á því sviði hafa orðið til í tilraunum bílaframleiðenda (og annarra) til að þróa sjálfkeyrandi bíla.

Veghæð, fjórhjóladrif og vetrardekk skipta mestu fyrir vetrarfærni bíla.

Þótt enn kunni að vera áratugir í að bílar verði að fullu sjálfkeyrandi, þá munu í millitíðinni koma fram sífellt fleiri nýjungar sem gera munu akstur og umferð greiðari og öruggari – með því að lágmarka mannleg mistök. Kosturinn við flestar þessar nýjungar er að þær krefjast fæstar meðvitaðra aðgerða af hálfu okkar (öku)mannanna. Enn um sinn eru hins vegar ekki horfur á öðru en að ökumenn verði að hafa athyglina í lagi, augun á veginum og hendur á stýri.

7 Vetrarfærni

Hér á norðurslóðum eru ennfremur nokkur atriði sem gera suma bíla vetrarfærari en aðra. Fyrir þá sem aka mikið utan þéttbýlis eru þessir eiginleikar mikilvægari. Atriðin eru þessi helzt:

  • Góð veghæð – þ.e. hæð frá jörðu undir lægsta punkt undirvagns bílsins sé nógu há til að bíllinn eigi auðvelt með að aka í gegn um snjó og slabb og komast t.d. um niðurgrafnar heimtraðir sumarbústaða.
  • Fjórhjóladrif – æ algengara er að bílar fáist með drif á öllum hjólum, ekki bara jeppar. Það eykur grip og þar með öryggi í akstri á öllum árstímum, en mest í vetrarfærð að sjálfsögðu.
  • Upphituð framrúða, rúðuþurrkur og speglar eru öryggisatriði að vetri. Upphituð sæti og stýri auka mjög á þægindi.
  • Góður ljósabúnaður.
  • Og að ekið sé á vetrardekkjum að vetri (hér verður þó ekki farið út í umræðuna um kosti og galla nagladekkja).

Fleira mætti nefna

Eins og fram kom í byrjun greinarinnar snúa öll framangreind atriði að því sem ráðlegt er, sérstaklega fyrir eldra fólk, að hafa í huga þegar taka á ákvörðun um bílakaup. Nefna mætti ýmislegt fleira, s.s. toggetu (mikilvægt fyrir fólk sem þarf að geta dregið kerru eða hjólhýsi) eða hégómlegri atriði eins og ímynd bílmerkisins, en skal hér staðar numið. Vill höfundur jafnframt hvetja lesendur til að íhuga vel, og gjarnan leita sér ráðgjafar sérfróðra, hvort rafbílakaup séu ráðleg og tímabær fyrir þá. Eins og fram kemur í fyrri greinum þessa greinaflokks er margt sem mælir með því, enda „rafbílabyltingin“ óneitanlega komin til að vera.

 

Auðunn Arnórsson, blaðamaður Lifðu núna, skrifar. 

Ritstjórn febrúar 10, 2022 07:00