Valgerður Magnúsdóttir sálfræðingur skrifar
Að undanförnu höfum við hjónin undirbúið búferlaflutninga. Við ætlum að flytja úr stóra húsinu okkar og í netta íbúð sem hæfir okkur tveim. Úr húsi með miklum eldhússkápum og búri, stóru þvottahúsi og tveim baðherbergjum auk gestasnyrtingar. Á framtíðarheimilinu er lítil eldhúsinnrétting í horni alrýmisins og auðvitað ekkert búr, þau eru barn síns tíma. Eitt baðherbergi er þar og sameiginlegt þvottahús án skápa. Fólk sem minnkar vel við sig þarf að sjá á bak einhverju plássi, að minnsta kosti fæ ég jöfnuna ekki til að ganga upp öðruvísi.
Ég mætti til leiks vel undirbúin að ég hélt. Rifjaði upp fræðin úr námskeiði um stefnumótun, mótaði stefnu og skilgreindi hagsmunaaðila. Stefnan var auðvitað sú að með okkur flytti það sem væri nauðsynlegt að hafa á nýja heimilinu og annað færi með eftir því sem plássið leyfði. Þetta með hagsmunaaðilana er einfalt, það eru við hjónin. Einfaldleikinn nær ekki mikið lengra, því við höfum ólíkar skoðanir á ýmsu sem er nauðsynlegt að hafa hjá sér, einkum þegar kemur að bókum og gömlum fötum. En við leitum lausna og skiptum með okkur fataskápunum. Þó þannig að eitthvað af sameiginlegu dóti, til dæmis sængurfötum, kemur í minn hlut. Og bókamálið leystist þannig að ég grisjaði um sex kassa í mínum hluta og hann lætur frá sér gömul fagtímarit sem eru líka til á netinu.
Ég er löngu byrjuð að grisja í fataskápunum og bókahillunum. Hef síðustu árin alltaf farið annað slagið með einhverja hluti sem ég hef vonað að fengju nýtt heimili gegnum nytjagám Sorpu og Góða hirðinn. Ég flokkaði fyrst sorp fyrir 35 árum og lífrænn úrgangur heimilisins hefur orðið að moltu síðan einhvern tíma á síðustu öld. Kannski hoppa ég yfir það skref að gera moltu í skápnum undir vaskinum og vonast til að brúnar tunnur fyrir lífrænan úrgang komi í nýja hverfið á næsta ári.
Ég hef kynnt mér fræðin um enga sóun og kannski kemst ég einhvern tíma svo langt að eiga einn umgang af sængurfötum og tvo af handklæðum eins og Bea Johnson. En þar á ég langt í land. Einnig má enn grisja mikið í snyrti- og hreinlætisvörunum þótt ég hafi að undanförnu lagt mig fram um að nota upp slatta af hinu og þessu. Sjampói, hárnæringu, græðandi kremi og svo mætti lengi telja. Enn er samt til barnasjampó í eins og tvo hárþvotta, en ég var drjúg með mig þegar ég kláraði á dögunum stórfína Star Wars-sturtusápu sem var keypt á sínum tíma handa barnabörnunum.
Málverk og önnur vegglistaverk eru sérstakur kafli. Það er gott veggpláss á nýja heimilinu en jafnast þó ekki á við það gamla. „Allt sem hefur gerst einu sinni er orðið hefð,“ sagði góður vinur okkar eitt sinn. Við fluttum á núverandi heimili okkar að hausti til og lukum við að hengja upp málverk á milli rétta á aðfangadagskvöld. Það væri því engin goðgá að vera að þessu fram á aðventuna að þessu sinni. Það verður erfitt að eitthvað fái ekki pláss; flest hefur fylgt okkur lengi og þetta verður eins og að reka náinn ættingja á dyr.
Eldhúsáhöld, leirtau og þurrvara hafa valdið mér mestum höfuðverk, en það hef ég allt saman flutt á nýja staðinn á undanförnum dögum og mátað inn í skápa. Hvernig í ósköpunum á ég að koma því öllu fyrir? Kitchen Aid-hrærivélin fór reyndar í sveitina og handþeytari kom til baka. Ofnsteikarpotturinn fór þangað líka og ekkert kom til baka. Sama gildir um tómar sultukrukkur og sitthvað fleira. Allt þetta sparar pláss. Og stóri borðstofuskápurinn er ekki lengur bara fyrir glös, dúka og stáss því nú fær hann líka að geyma alls konar hversdagsleirtau. En þótt hann sé stór dugar það ekki til.
Ég hef brotið heilann fram og aftur og fundið ýmsar lausnir en þær eru mismunandi gagnlegar. Til dæmis hefur mér dottið í hug að það myndi spara pláss ef ég hnyti um tærnar á mér með eins og einn kassa af leirtaui í fanginu. Það mætti vera kassinn með ósamstæðum vatnsglösum og skálum af ýmsum stærðum og gerðum. En alls ekki kassinn með brúðkaupsgjöfum pabba og mömmu, þjóðhátíðarbollum ömmu og púrtvínsglösum tengdamömmu. Þegar ég sá að ég gæti meiðst féll ég frá þessari hugmynd, því ég er enn aum í ökklanum síðan ég féll kylliflöt með tóma bananakassa í fanginu. Vel á minnst, bananakassar eru mjög hentugir til flutninga, staflast vel og eru með góðum gripum.
Höfuðverkur dagsins er hversu mikið pláss pasta og grjón af ýmsu tagi megi taka. Hvar eigi að geyma krydd og hvaða stað eigi að ætla fyrir brauð og kex. Sendiferðabíllinn kemur á morgun og kannski hættum við bara að eiga kex á heimilinu. Í næsta húsi er nefnilega eitt af bestu bakaríum borgarinnar.