Langar heim eftir sjö ára búsetu í Noregi

Þórhallur V Einarsson

Þórhallur V Einarsson

„Ég sakna fólksins míns, sona minna tveggja og barnabarnsins sem fæddist stuttu eftir að ég flutti til Noregs. Þau búa öll í Kópavogi. Það er fyrst og fremst barnabarnið sem mig langar að kynnast og eiga stundir með. Þess vegna er ekki seinna vænna en reyna að drífa sig heim,“ segir Þórhallur V. Einarsson, rútubílstjóri. Þórhallur sem er 62 ára hefur búið í Noregi síðast liðin sjö ár. „En ég sakna ekki bara fjölskyldunnar minnar,  ég sakna líka landsins, málsins og útsýnisins. Hér sé ég ekkert nema tré. Ég þrái orðið að komast heim en er eiginlega fastur hér. Það hefði örugglega verið öðruvísi að flytja hingað ef ég hefði haft fjölskylduna með mér,“ segir Þórhallur. Hann rak á árunum áður rútufyrirtæki á Akureyri en varð gjaldþrota. Hann hafði líka keypt sér íbúð í Reykjavík skömmu fyrir hrun. Eins og hjá svo mörgum öðrum margfölduðust lánin og afborganirnar. Útslagið gerði þó að hann fór að vinna hjá fyrirtæki sem sveikst um að borga honum laun í þrjá mánuði. Það þýddi bara eitt hann gat ekki staðið við afborganir af íbúðinni og missti hana líka. „Það var því ekki ríkur maður sem flutti til Noregs,“ segir hann. Þórhallur ber norðmönnum vel söguna en hann fékk strax vinnu við akstur.

Boðið í kaffi eftir vinnu

„Það var vel tekið á móti mér í Noregi og svæðisstjóri fyrirtækisins í Lillehammer sem réði mig í vinnu hjálpaði mér að finna húsnæði og koma mér fyrir.  Hann sá líka um að ég fengi lánaðan bíl fyrstu vikurnar eða þar til ég gat keypt mér minn eigin bíl,“ segir hann. Þórhallur segir að fyrstu vikunar og mánuðina hafi norskan vafist  fyrir honum en fólk hafi almennt sýnt honum mikinn skilning og vinsemd. „Ég man eftir öldruðum manni sem kom oft í strætóinn sem ég keyrði. Hann sagði við mig; „Þú ert ekki útlendingur, þú ert Íslendingur.“ Starfsfélagar voru fínir, voru duglegir að tala við mig og buðu oft heim í kaffi eftir vinnu. Ég komst því tiltölulega fljótt inn í málið. Mér leið hins vegar ekki vel í öllum þessum skógi, fannst ég vera innilokaður og þoldi það illa. Ég ákvað því að flytja til Sarpsborgar, þar fékk ég hærri laun en kynntist engum. Þar bauð enginn upp á skemmtilegar samræður eða kaffi. Ég varð því mjög einmanna og fannst ég einn í heiminum,“ segir Þórhallur og bætir við að það hafi ekki bætt úr skák þegar hann varð að hætta að vinna vegna þess að hann fékk í bakið. „Mér er bannað að vinna af læknum. Ég var hins vegar með góðar tryggingar og er með hærri laun nú en þegar ég var að vinna. Mér finnst hins vegar geggjun að hanga hér án þess að vera að gera eitthvað. Það á engan veginn við mig,“ segir hann.

Leitar að íbúð

Þórhallur segist hafa mikla ánægju af tónlist.  „Ég bæði spila og sem á tölvu segir hann. Synir mínir eru líka á kafi í tónlist, annar er organisti í Neskirkju og hinn er kennari og tónlistarmaður. „Það er að mörgu leyti gott að búa í Noregi sérstaklega fyrir barnafjölskyldur. Noregur getur hins vegar aldrei orðið mitt heimaland, þetta er ekki jarðvegurinn minn, lyktin mín og hér er ekki fólkið mitt. Mig langar að koma heim sem fyrst. Ég er að leita að íbúð á Íslandi, tveggja herbergja íbúð myndi henta mér vel. Sú leit hefur ekki skilað neinu enn sem komið er. Það fer ekki mikið fyrir mér og ég er reyklaus. Ég verð góður leigjandi,“ segir hann. Ef einhver lesandi Lifðu núna veit um  íbúð fyrir Þórhall þá sendið honum línu á netfangið tvenorge@gmail.com

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn febrúar 19, 2016 11:13