Stríðsástand ríkir víða í heiminum og annars staðar einkennir órói og togstreita samskipti ríkja og þjóðarbrota. Magnús Þorkell Bernharðsson, sagnfræðiprófessor við Williams háskóla í Bandaríkjunum og sérfræðingur í sögu Mið-Austurlanda kennir námskeiðið Bak við fyrirsagnirnar hjá Endurmenntun Háskóla Íslands en þar gefst þátttakendum færi á að líta gagnrýnum augum á fréttir og skoða baksviðið til að skilja betur samhengi hlutanna.
Sannleikurinn er alltaf flókinn og sjaldnast einhlítur. Þess vegna er ómetanlegt að fá innsýn í söguna, tengsl viðburða og þá pólitík sem liggur að baki heimsviðburða og frétta af þeim. Það er erfitt að meta eða skilja hvað er að gerast nema menn hafi allar forsendur. Þær er sjaldnast að finna í fyrirsögnum fjölmiðla né frásögnum þeirra af atburðum. Fréttir snúast fyrst og fremst um það sem er að gerast hér og nú. Ýtarlegar fréttaskýringar bíða betri tíma, enda stundum ekki hægt að skilja fyllilega atburði fyrr en nokkuð er liðið frá þeim.
Bak við fyrirsagnirnar er einstaklega vandað og vel uppbyggt námskeið. Tímarnir dreifast til að mynda yfir fjögurra mánaðatímabil sem gefur þátttakendum færi á að fylgjast grannt með nýjustu fréttum og meta atburði út frá aukinni þekkingu. Magnús hefur mikla innsýn inn í málefni Miðausturlanda, Afríku og Asíu. Strax í fyrsta tíma benti hann á að fleiri ríki muni brátt dragast inn í stríðið fyrir botni Miðjarðarhafs. Hann talaði um árásir Húta á flutningaskip í Rauðahafi og að búast mætti við að Vesturlönd ákveddu að verja þá siglingaleið. Það gekk eftir örfáum dögum síðar þegar Bretar og Bandaríkjamenn hófu loftárásir á bækistöðvar Húta í Jemen.
Stríðið vinnst aldrei
Magnús reyndist oftar sannspár um framvindu stríðsins á Gaza og það hvernig mál myndu þróast. Hann benti á oft á atriði sem höfðu farið framhjá þátttakendum og gaf okkur einnig góða hugmynd um hvernig alþjóðasamskipti fara fram og hvers vegna þar gengur oft hægar en mörgum gott þykir að koma áfram mannúðar- og þjóðþarfamálum.
Nú þegar þessu námskeiði er að ljúka er margt umhugsunarvert. Til að mynda hvert er upphaf máls? Bæði getur tímapunkturinn verið óljós og sjaldnast er einhver einn atburður sem markar byrjunina. Það er einnig mikilvægt að þekkja sem flestar hliðar og skoða mörg og margvísleg sjónarhorn. Nútímastríð eru í raun skelfileg. Þau virðast nefnilega aldrei vera fyllilega útkljáð. Hvorugur aðilinn nær að sigra hinn og þótt einhverjar orrustur vinnist heldur stríðið áfram. Þetta sjáum við í Úkraínu og Miðausturlöndum. Við samningaborðin þokast heldur ekkert þegar og ef menn fást þangað. Eitt er þó alveg ljóst að finna verður nýjar leiðir og annars konar aðferðir við að leysa ágreiningsmál milli þjóða en þær sem hingað til að hafa verið notaðar og þær þurfa að koma til sem fyrst því sú eyðilegging og skaði sem þegar er orðinn vegna átaka er óbætanlegur.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.