Útvarpsþátturinn Á tali með Eddu Björgvins og Helgu Thorberg var gríðarlega vinsæll í byrjun níunda áratugarins. Þær voru báðar virkar í kvennaframboðinu og þegar haldið var uppá að 40 ár eru nú liðin frá því það kom fram árið 1982, steig Helga Thorberg á stokk og las kafla úr bók sem gefin var út með samtölum vinkvennanna tveggja sem voru í aðalhlutverki í þáttunum. Þar var Elli eiginmaður annarrar þeirra í stóru hlutverki enda heitir bókin Elli, eftir hans mögnuðu persónu. Hér birtist hluti af kaflanum sem Helga las upp á afmælinu. Þar eru vinkonurnar að ræða saman og eiginkona Ella er með kvef.
– En hvar náðirðu í þetta kvef?
– Það var örugglega á þessari árshátíð hjá Læons.
– Heyrðu þú hefur ekkert sagt mér frá henni. Hvernig tókst það, átti Elli ekki að halda ræðu og allt?
– Jú, það var nú ekkert smáræði sem til stóð.
– Og fórstu í græna kjólnum?
– Guð, nei, sem betur fer. Hvað heldurðu? Þegar ég er komin þarna inn í fordyrið á Sögu, hverri heldurðu þá að ég mæti?
– Ég veit það ekki.
– Öllu allsstaðar! Og hún var í nákvæmlega sama kjólnum, grænum – alveg eins og minn! Heldurðu að ég hafi verið heppin!
– Já það var gott.
– Það var svo skrýtið. Það var bara eins og það væri hvíslað að mér þar sem ég stóð fyrir framan spegilinn í græna kjólnum: „Farðu heldur í rauða shiffonkjólinn.“ Og ég bara eins og í leiðslu fram í fataskáp og er bara komin í þann rauða áður en ég veit af. Heldurðu að það sé?
– Skrítið! Ja það var nú ágætt því það er nú ekkert eins pínlegt eins og tvær konur í nákvæmlega eins kjólum.
– Nei en þetta var samt allt eitthvað svo slysalegt.
– Nú?
– Já, því þegar ég kom heim úr vinnunni þarna á föstudeginum þá var Elli farinn á árshátíðina.
– Á undan þér?
– Já, þeir höfðu nefnilega ætlað að hittast aðeins fyrr strákarnir, aðeins að fá sér kokteil, svo Elli hafði ekki vitað í hvaða buxur hann átti að fara, af því að ég var ekki komin heim. Enda þegar ég kem uppá Sögu og sé Ella þá segi ég „Guð, lét ég þig í þessar buxur?“ en þá hafði hann farið í teinóttu buxurnar sem áttu að fara í hreinsun.
– Nei hvað segirðu!
– En það var allt í lagi því ég svippa mér bara heim og sæki svörtu buxurnar og hann fer bara inn á klósett og skiptir um þegar ég kem aftur.
– Svo þetta hefur bjargast?
– Jájá og þetta gekk allt vel til að byrja með. Við sátum við háborðið með stjórninni af því Elli átti að halda hátíðarræðuna og allt borðhaldið gekk svona ægilega vel.
– Og maturinn góður?
– Svona líka. Þessi fíni forréttur, hörpuskeldiskur í karrí, ægilega góður og svona slegið lambalæri eða lambageiri í aðalrétt. Með brokkóli og rauðvínssósu og allt. Nema hvað, að ég missi servéttuna mína í gólfið og sé það að Elli hefur í flýtinum gleymt að renna upp buxnaklaufinni.
– Guð minn góður!
– En ég næ að skrifa skilaboð á miða til hans um að renna upp.
– Mikið var það gott.
– Jæja, nema hvað, þegar desertinn er búinn, voða gott frómas með rjómarönd, þá stendur Elli upp og ætlar að fara í pontu til að halda ræðuna.
– Já.
– Heldurðu að dúkurinn hafi ekki fest í rennilásnum, þegar hann var að renna upp og hann dregur bara allan dúkinn með sér af borðinu, glösin og diskarnir og allt frómasið í gólfið – takk fyrir!
– Ég á ekki orð! Þvílík óheppni!
– Ja heldurðu! Ég bara ætlaði niður úr gólfinu, manneskja mín, og augnaráðið sem ég fékk! Því gleymi ég aldrei! Og allt háborðið bara autt og stjórnin sat þarna baraa með glösin og matseðilinn bara í kjöltunni!!
– Aumingja Elli að lenda í þessu!
– Hann lét þetta nú ekkert á sig fá, minn maður. Elskan mín, hann bara stikaði upp í pontu með dúkinn á eftir sér eins og brúðarslóða og hélt sínu striki, minn maður. En þá tók nú lítið betra við.
– Nú hvað?
– Hann fer auðvitað í vasann að sækja ræðuna. Þá var hann með gamla ræðu frá því gömlu skátarnir hittust í fyrra og það glymur bara í hátölurunum um allan salinn: „Halló, gamlir yrðlingar og aðrar uglur! Hip, hip, hopsa, hí hí!!! Þá hafði ég gleymt að skipta um ræðu í buxnavasanum þarna eftir að ég hentist heim. Þá hefði hann nú verið betur kominn í órheinu buxunum með rétta ræðu í vasanum.