Hvers vegna ekki tilboð fyrir einn?

Katrín Björgvinsdóttir

Katrín Björgvinsdóttir skrifar

Það er mjög ánægjulegt að sjá öll tilboðin sem streyma inn frá hótelum og gistihúsum um allt land þar sem slegist er um viðskiptavininn.  Ég er þó að velta fyrir mér af hverju athyglinni er aldrei beint að þeim sem eru einir? – það miðast allt við 2, pör eða fjölskyldur.  Það er fullt af fólki sem er eitt á báti og gæti hugsað sér að brjóta upp tilveruna og gera sér glaðan dag með því að stökkva á eitt slíkt – vinir, vinkonur gætu slegið til án þess að vilja deila herbergi, eða bara fara einn/ein með sjálfum sér.

Ferðaskrifstofur hafa löngum haft í frammi gylliboð þar sem verð miðast við að fleiri ferðist saman, sama á við um flest það sem er í boði fyrir jól og páska, en þar gætu hótel og gistihús komið sterk inn því margir eru einir heima á þeim tíma en vildu gjarnan breyta til.

Sumum finnst erfitt að fara einir hvort sem er í leikhús, út að borða eða ferðast.  Ég gæti trúað að ef höfðað yrði til þeirra með þá þjónustu sem er í boði gæti það orðið til þess að fólk fyndi sig betur í því að drífa sig af stað – það yrði jafn “eðlilegt” og að 2 eða fleiri færu saman út.  Mér finnst þetta hreinlega vera spurning um jafnrétti.

Á Íslandi eru töluvert margir skráðir einir í heimili en samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá eru tölur um fjöldann ekki aðgengilegar nema með einhverjum tilfæringum sem ég fór ekki  nánar út í.  Einhversstaðar hnaut ég um það að árið 2017 hafi þriðji hver dani búið einn, er ekki líklegt að við siglum í sama farveg á Íslandi?

Mér finnst meira en tími til kominn að höfða til þessa hóps með eitthvað af því sem að ofan greinir.

Ég skora á hótel- og gistihúsaeigendur sem og fleiri að taka sig nú taki og setja saman flotta pakka fyrir alla – hvort sem um ræðir 1, 2 eða fleiri.  Ég spái því að þeim verði tekið fagnandi.

 

Ritstjórn september 21, 2020 07:44