Saga Ástu eftir Jón Kalmann Stefánsson

Ragnhildur Erla Bjarnadóttir

Ragnhildur Erla Bjarnadóttir skrifar

Jón Kalmann var tilnefndur til íslensku bókmenntaverðlaunanna 2017 fyrir þessa bók. Eins og titillinn ber með sér segir hún sögu Ástu sem á erfitt uppdráttar í lífinu, eigandi andlega veika móður sem fer að heiman í einu þunglyndiskastinu og skilur Ástu þá kornabarn og nokkurra ára eldri systur eftir einar heima. Ásta fer í fóstur til yndislegrar en fátækrar eldri konu sem reynir hvað hún getur til að gera líf Ástu kærleiksríkt og gott þrátt fyrir naum fjárráð. Eftir óknyttaskap á unglingsárunum er Ásta send í sveit og þá finnur hún fyrst hvað hún elskar fóstru sína heitt og hvað hún ætlar að bæta henni upp óþekktina þegar sveitardvölinni lýkur. Líf Ástu og fjölskyldu hennar er margslungið og flókið. Sagan er sögð af sögumanni, Sigvalda föður Ástu sem á dauðastund sinni fer yfir líf sitt og upp úr bréfum Ástu sjálfrar. Þetta er harmsaga Ástu, móður hennar og systur þar sem hvert áfallið dynur yfir og þegar maður vill trúa því að Ásta sé að ná tökum á lífinu þá kemur eitthvað nýtt upp á. Miklar tilfinningar eru í bókinni og eftir undurfallegan kafla sem snertir djúpt koma lýsingar sem kippa lesandanum inn í allt annan heim.

Textabrot úr bókinni:

Ég er búin að taka frá sæti fyrir þig framarlega, það er betra upp á bílveikina, mundu eftir pokanum. Já, sagði Ásta. Og vertu dugleg í sveitinni, ekki láta annað spyrjast út um þig.

Já , sagði Ásta. Svo verður allt orðið gott aftur í haust, eins og það var og á að vera, heldurðu það ekki, skepnan mín. Jú, sagði Ásta. Það er ekki hægt að lifa án þess að gera eitthvað af sér, mundu það, við brjótum öll einhvern tímann af okkur, gerum mistök, komum jafnvel illa fram við þá sem við elskum. En það er ekki það sem dæmir okkur, heldur hvernig við vinnum úr því. Vertu þú sjálf og vertu heil, þá hefur maður rétt á að standa uppréttur, hvernig sem endar. Og temdu þér góðsemd. Mundu að góðsemdin, ásamt gleðinni, er það dýrmætasta sem manneskjan getur eignast. Já, sagði Ásta. ………Má ég taka utan um þig? Já, sagði Ásta. Og fóstra gerði það varlega, laust, næstum eins og afsakandi, tyllti sér á tær og lagði hlýjan, gamlan vanga sinn snöggvast upp að ungum vanga Ástu. Ætlaði síðan augsýnilega að sleppa, en það er ekki alltaf hægt að ráða við sjálfan sig, skipa sjálfum sér fyrir, stundum er ástin bara svo miklu sterkari en við. Yfirstígur vilja okkar áreynslulaust, eins og hann sé ekki til staðar……..Því í stað þess að losa faðmlagið, herti hún það, tók fast utan um Ástu, hélt sér af afli, næstum ofsa, einum átta sentimetrum lægri, þrýsti sér fast upp að Ástu eins og hún sjálf væri barnið á leið út í óvisst ferðalag, svo langt að það er óvíst að hún sneri aftur úr því. Skinnið mitt, hvíslaði hún. Fuglinn minn.

Ritstjórn mars 22, 2018 14:46