Hvers vegna fæ ég mér ekki heyrnartæki?

Erna Indriðadóttir

Erna Indriðadóttir skrifar

Um aldamótin síðustu fór ég að finna fyrir hita og suði í öðru eyranu. Þetta gekk í nokkra daga og  ég áttaði mig á því að ég var að missa heyrn.  Sem betur fór varði þetta ástand ekki lengi og heyrnin fór ekki alveg.  En ég heyrði mun minna en áður með hægra eyranu.  Ég fór til eyrnalæknis sem staðfesti að ég væri alls ekki lengur með fulla heyrn á eyranu. Þetta stafaði af kölkun í innra eyra, eitthvað sem íðorðabókin kallaði snigilgluggahersli, sagði hann. Mér þótt það mikið sport að greina vinum og vandamönnum frá þessum virðulega kvilla. „Ég er með snigilgluggahersli“, sagði ég stolt. Læknirinn tjáði mér að ef þetta færi að há mér, gæti ég fengið mér heyrnartæki og eins væri hægt að fara í aðgerð vegna þessa, en hann mælti þó ekki sérstaklega með því, þar sem slíkar aðgerðir gætu misheppnast og þá væri verr af stað farið en heima setið.

Nú liðu árin og þar sem ég hafði fulla heyrn á hinu eyranu, fann ég ekkert sérstaklega mikið fyrir þessu. Varð þó að horfast í augu við það að ég heyrði ekki alveg nægilega vel og á síðustu árum, finnst mér eins og það hafi ágerst.  Þess vegna hef ég mikið hugsað um hvort ég ætti að fá mér heyrnartæki. En ég hef algerlega látið duga að hugsa um það og hef ekkert gert í málinu.  En hvers vegna fæ ég mér ekki heyrnartæki?  Ég verð að játa að mér þótti það einhvern veginn ekki spennandi þegar læknirinn nefndi þennan möguleika við mig fyrir 15 árum.  Fannst heyrnartæki tilheyra „gömlu“ fólki og alls ekki smart að nota þau.  Ég hafði líka fylgst með eldra fólki í kringum mig og það virtist vera óskaplegt basl með heyrnartækin hjá flestum. Kannski erfitt að læra á þau. Þetta virtist alltof flókið. Mér var bent á að fólk fengi sér gleraugu ef það missti sjón og það væri skrítið að fá sér ekki heyrnartæki ef maður missti heyrn.

Að undanförnu hef ég mikið hugsað um að fá mér heyrnartæki. Hef hugsað með mér að það væri rétt að fá að prófa heyrnartæki hjá einhverju þessara fyrirtækja sem eru oft að auglýsa að það sé hægt að fá heyrnartæki að láni hjá þeim.  Heyrnartæki virðast líka stöðugt verða fullkomnari. Eitt sinn sá ég svo lítið heyrnartæki að það sást varla, en það var í auglýsingu í New York Times minnir mig.  Hef ekki séð svona lítil heyrnartæki auglýst hérna hjá okkur.  Það er víst hægt að tengja heyrnartækið við símann og hækka og lækka í því með símanum.  Ekki veit ég hvernig það myndi ganga hjá mér, því ég á það nú til að reka mig í símann og hringja „óvart“ í alls kyns fólk.  En líklega verð ég að fara að drífa í þessu og það er áreiðanlega betra að gera það fyrr en seinna, því þá ætti að vera auðveldara að læra á tækin. Ég verð samt að viðurkenna að mér vex dálítið í augum að snara út hálfri milljón fyrir slíkum tækjum. Þar stendur eiginlega hnífurinn í kúnni eins og er.

 

Erna Indriðadóttir mars 6, 2017 13:08