Hvað er app?

Allir sem eru með snjallsíma og/eða spjaldtölvur vita að í þessum tækjum er hægt, ýmist að fá ákveðið app ókeypis, eða kaupa það. Við báðum Guðmund Jóhannsson markaðssérfræðing hjá Símanum að útskýra á mannamáli hvað app er.

Guðmundur Jóhannsson

Guðmundur Jóhannsson

Styttir leiðirnar

„App er stytting á orðinu application sem þýðir forrit“ segir hann. „App er svokallað smáforrit fyrir snjallsíma eða spjaldtölvur. Guðmundur segir að smáforritin eða öppin stytti fólki leið að ákveðnu efni sem það vill gjarnan hafa í símanum eða spjaldtölvunni, eða bæti við ákveðinni virkni sem menn vilja hafa í þessum tækjum.

Ekki hægt að fara á rangan stað

En til hvers ætti fólk að fá sér app? Guðmundur nefnir sem dæmi að yfirleitt sé ekki Facebook app í símum. En með því að fá sér það, er hægt að fara beint inná Facebook með því að ýta á Facebook merkið á upphafsskjánum í stað þess að fara inná netið og skrá sig inn og þannig spara tíma. Með einum smelli á Facebook appið eða merkið, séu menn komnir beint inná Facebook. Það sé líka hægt að fá sér app frá Strætó eða Ríkisútvarpinu sem virkar á sama hátt. Þá koma merkin á upphafsskjáinn og menn fara beint inní þau þar. Þetta eru allt „öpp“ sem eru ókeypis. Guðmundur segir að leiðin að þeim sé bein og greið og það sé ekki hægt að fara á rangan stað.

Netbankinn í símanum öruggur

Viðskiptabankarnir eru líka með „öpp“ og í gegnum þau er hægt að komast beint inní netbankann úr símanum eða spjaldtölvunni. „Það er alveg jafn öruggt og að fara í bankann í gegnum heimatölvu“, segir Guðmundur. En með appinu er búið að sníða viðmótið að símanum og spjaldtölvunni sem eru miklu minni tæki en heimatölvur.

Sama Apple ID fyrir símann og iPadinn

Þegar farið er inní AppStore er beðið um svokallað Apple ID lykilorð. Ef menn eru með bæði snjallsíma og iPad, segir Guðmundur upplagt að nota sama Apple ID í báðum tækjum. Þannig hafa menn aðgang að sama efni í símanum og iPadinum. Hann segir að mamma hans hafi tekið myndir af ömmustelpunum sínum á símann á ballettsýningu og farið svo að heimsækja ömmu sem er níræð og sýnt henni myndirnar á Ipadinum. „Það er miklu auðveldara fyrir ömmu að sjá myndirnar á iPadinum en pínulitlar á símanum“, segir hann.

Hallamál, þýðingar og stjörnukort í appinu

Guðmundur segir hægt að fá ótrúlegustu „öpp“ með margvíslegri virkni. Þannig sé til app sem sýni mönnum hvað þeir eigi að sjóða mikið spagetti fyrir ákveðinn fjölda af fólki og hversu lengi eigi að sjóða það. Það sé til app sem hægt sé að nota þannig að síminn verði hallamál. Það geti verið þægilegt ef hengja á upp myndir. Þá eru til þýðingarforrit, orðabækur og kortagrunnar, stjörnukort sem sýna heiti stjarnanna sem þú sérð að næturlagi þegar er heiðskýrt og fleira og fleira. Sum þeirra þarf að borga fyrir en önnur ekki.

Ritstjórn apríl 30, 2015 10:30