Hvítir strigaskór –leiðin inn í heim hinna öldruðu kvenna

 

„Ég þekki enga konu sem gengur vitandi vits í fatnaði sem lætur hana sýnast feita. En þú yrðir hissa ef þú vissir hversu margar konur ganga í fötum sem valda því að þær virðast vera eldri en þær eru. Það er ekki aðeins minn eiginn hégómi sem fær mig til að vilja líta út fyrir að vera yngri heldur einnig sú staðreynd að mér finnst í raun að ég sé yngri en ég er og því engin ástæða til að sýna heiminum að ég sé að eldast,“ segir Cynthia Nellis, tískubloggari á vef Huffington Post.Hún hefur útbúið lista yfir það sem henni finnst gera konur ellilegar. Það eru örugglega ekki allir sammála Nellis en listinn er eigi að síður skemmtilegur.

 

  1. Tweed efni. Á meðan sum efni bera ímynd æskunnar í sér til dæmis gallabuxnaefni virðist því alveg öfugt farið með tweedefnin. Tweed kallar fram hugrenningar um aldraðar skólastýrur. Ef þú sækist eftir karlmannlegri áferð á fatnaði er betra að velja röndótt eða takkað munstur.
  2. Lesgleraugu. Já miðaldra konur þurfa á þeim að halda en engin kona lítur unglega út með lesgleraugun hangandi á nefbroddinum. Að ekki sé nú talað um festina sem þau hanga í svo gleraugun séu alltaf til reiðu. Það er hallærislegt. Þurfir þú lesgleraugu skaltu gæta þess að þau séu smart.
  3. Grátt hár. Ég er viss um að fjölmargar konur sem kjósa að hafa grátt hár hugsa mér þegjandi þörfina fyrir að halda þessu fram en sannleikurinn er sá að grá hár láta fólk líta út fyrir að vera gamalt. Nokkuð sem ég kæri mig ekki um þó ég sé miðaldra. Kannski þegar ég verð fjörgömul en í dag er ég rúmlega miðaldra og kýs að líta eins unglega út og mér er mögulegt. Ég er ekki að segja að grátt hár sé ljótt, margar konur líta mjög vel út með það en það hefur aldrei látið neinn líta unglega út. Betra er fyrir miðaldra fólk að nota liti sem fara vel við húð viðkomandi.
  4. Peysur hnepptar að framan. Þær eru sniðlausar og draga fram öll aukakílóin.Betra er að velja jakka sem hefur eitthvert snið, vasa, kraga, boðunga og svo framvegis. Því hann felur misfellur. En hvað sem þú gerir og átt hneppta peysu skaltu ekki binda hana um mittið, hún felur það ekki heldur lætur það sýnast stærra.
  5. Fótlaga skór. Geta eyðilagt heildarmyndina. Það er fullt af sætum skóm þarna úti sem eru líka þægilegir til dæmis fallegir sandalar.
  6. Mittisháar gallabuxur. Svokallaðar mömmugallabuxur. Þær gera ekkert fyrir þig. Það er fullt til af glæsilegum buxum sem fara miðaldra konum vel og henta vaxtalagi þeirra betur.
  7. Litir sem deyfa útlit þitt. Eitt sem klárlega lætur þig líta út fyrir að vera eldri en þú ert eru litir sem deyfa útlit þitt. Í mínu tilfelli eru þetta gulir litir og jarðlitir. Í þínu tilfellir gætu það verið allt aðrir litir. Réttir litir geta dregið húðlit þinn fram og yngt útlir þitt, næstum allir líta vel út í réttum bláum og rauðum litbrigðum.
  8. Gamla handtaskan. Gengur þú um með fimmtán ára gömla handtösku? Töskutískan hefur breyst mikið á síðustu árum. Taskan skiptir miklu máli fyrir heildarútlitið. Ef þú gengur enn með fílófaxið undir hendinni eða eitthvað ennþá forneskjulegra gerir það þig enn eldri. Sæt taska borin á ská eða skemmtilegur leðurpoki geta lífgað verulega upp á útlitið.
  9. Of mikið eða of lítið af farða. Áberandi varalitur getur gert útlit alveg jafn elliegt og enginn varalitur. Ef þú ert ekki viss um hvað förðunarvörur á að nota eða hvernig skaltu leita þér aðstoðar hjá fagfólki.
  10. Sokkar og íþróttaskór með öllu öðru en íþróttafötum. Íþróttaskór og sokkar með hálfsíðum buxum! Hrikalegt! Hvítir íþróttaskór eru leiðin í heim hinna öldruðu kvenna. Ég hef ávalt annan skófatnað við höndina eins og nýjar íþróttatöflur eða létta strigaskó. Þetta voru semsagt tískuráð Cynthiu Nellis.

 

 

Ritstjórn apríl 8, 2016 10:24