Þegar bílar fóru fyrst að taka við hlutverki þarfasta þjónsins í lífi Íslendinga á fyrstu áratugum síðustu aldar hefði líklega engan órað fyrir því hversu ómissandi þeir yrðu í lífi okkar síðar meir. Þessi heillandi tæki hafa alltaf gert meira en koma mönnum milli staða og jepparnir hreinlega opnuðu mönnum leið um hálendið á algerlega nýjan hátt. En fáir ef nokkur veit meira um það en Örn Sigurðsson. Hann hefur skrifað fróðlegar, skemmtilegar og athyglisverðar bækur um bílasögu Íslands og nú er komið að jeppunum.
Jeppar í lífi þjóðar er áttunda bók þín um sögu bíla hér á landi. Hver bók um sig er stórvirki en hvernig gengur að finna heimildir um bílana, varla liggja þær á lausu?
„Verkefnið felst í því að finna fyrst ljósmyndir af bílum og leggjast síðan í heimildavinnu,“ segir Örn. „Fyrir reyndan bílamann er næsta auðvelt að komast að því hvaða tegundir og árgerðir er um að ræða, auk þess sem hægt er að styðjast við skráningarnúmer bílanna. Til eru gamlar bílnúmerabækur þar sem nöfn eigendanna koma fram og þá opnast möguleiki á að finna persónulegar upplýsingar t.d. í minningargreinum og öðru, en þær eru vissulega misjafnar. Svo þarf einnig að greina hvar og hvenær myndirnar voru teknar.“
Margir Íslendingar eru ekki neitt sérstakir varðveislumenn og gömlum munum oft hent fyrir nýja. Hafa það ekki orðið örlög flestra bíla hér á landi að enda í brotajárni?
„Það er vissulega rétt að Íslendingar eru æði nýjungagjarnir og mörgum eldri bílnum hefur verið fórnað fyrir nýrri árgerð. En sennilega er íslenska veðráttan aðal óvinur bílanna, því raki, frost og saltbornar götur hafa leikið þá illa og valdið ryði og eyðileggingu. Af þeim sökum hafa flestir bílar endað í brotajárni eða verið urðaðir. Hins vegar voru til menn sem fóru vel með bílana sína, notuðu þá sjaldan á veturna og geymdu þá innanhúss. Margir þessara bíla hafa náð að varðveitast til nútímans og mynda uppistöðuna í fornbílaflota landsmanna í dag, ásamt þeim sem fluttir hafa verið til landsins á síðustu árum. Á þetta ekki síst við um gömlu jeppana, enda var óvenju mikið til af þeim á Íslandi og voru margir þeirra geymdir í sveitum, fjarri sjó og seltu.“
Íslendingar duglegir að taka myndir af bílum
Bækur þínar eru skreyttar ótal ljósmyndum. Er mikið um það að menn taki ljósmyndir af bílum og eru slík söfn aðgengileg?
„Íslendingar voru duglegir að taka ljósmyndir af bílunum sínum, enda hafa þeir eflaust verið stoltir af þeim. Átti þetta einkum við um nýja bíla, en það var lenska hér á árum áður að taka myndir af eigandanum við hlið nýja bílsins. Núna eru flestir þessara eigenda komnir yfir móðuna miklu, líkt og bílarnir, en myndirnar hafa náð að varðveitast. Hafa margar þeirra komist í hendur ljósmyndasafna víða um landið, sem hafa gert þær aðgengilegar á heimasíðum sínum. Í seinni tíð hefur orðið bylting í aðgengi að slíkum söfnum, til mikilla hagsbóta fyrir höfunda og útgefendur.“
Jeppar hljóta að hafa verið frá því þeir komu hingað fyrst mikil þarfaþing því vegir á Íslandi hafa aldrei verið góðir og margir notuðu bíla sína eins og landbúnaðartæki. Hverjir áttu helst jeppa til að byrja með og hvernig voru þeir notaðir?
„Fyrstu jepparnir komu til Íslands á stríðsárunum og voru notaðir af hernámsliðinu. Þegar stríðinu lauk komust 300 þeirra í hendur heimamanna og brátt sáu menn hvers konar þarfaþing þessir fjórhjóladrifnu bílar voru við íslenskar aðstæður. Í framhaldi var opnað fyrir stórfelldan innflutning á Willys-jeppum sem einkum voru ætlaðir bændum, þó læknar, ljósmæður og prestar hafi einnig gengið fyrir. Hægt var að tengja sláttuvélar og önnur landbúnaðaráhöld við jeppanna og nýttust þeir því vel til sveita. Árið 1951 hófst innflutningur á Land Rover frá Bretlandi og fimm árum síðar komu Rússajepparnir. Líkt og Willys voru þeir flokkaðir sem landbúnaðartæki, en á þessum árum voru mun lægri aðflutningsgjöld af jeppum en fólksbílum. Þeir jeppar sem komust í hendur borgarbúa áttu eftir að opna leiðir þeirra um hálendi landsins og því má með sanni segja að þessi ökutæki hafi aukið ferðafrelsi landsmanna umtalsvert, jafnt að sumri sem vetri.“
Þú ert landfræðingur og bílasagnfræðingur. Það er nokkuð sérstæð blanda og kannski liggur líka beint við að spyrja hvers vegna ákvaðst þú að sérhæfa þig í sögu bíla?
„Ég hef allt frá unga aldri verið áhugasamur um bíla og var formaður Fornbílaklúbbs Íslands í tíu ár, frá 1993 til 2003. Samhliða námi í landafræði við Háskóla Íslands tók ég áfanga í sagnfræði, því áhugi minn á sögu hefur alltaf verið mikill. Landfræðikunnáttan hefur einnig nýst mér vel við ritun bílabókanna, því oft þarf að greina þá staði þar sem ljósmyndir eru teknar, auk þess sem góð þekking á eigin landi hefur ekki spillt fyrir skrifunum. Samhliða ritstörfum hef ég stjórnað kortadeild Máls og menningar allt frá stofnun hennar árið 1998.“
Enn eitthvað eftir að moða úr
Nú þegar þú ert búinn að skrifa um gullöld bílsins, bílamenningu, vörubíla og vinnuvélar, bíla í lífi þjóðar, kraftabíla, auðnustjörnu Mercedes-Benz, traktora og hjólavélar og auðvitað jeppana er þá nokkuð eftir hvað varðar sögu bíla hér á landi?
„Á meðan ennþá berast ljósmyndir af gömlum bílum í mínar hendur, eða inn á ljósmyndasöfnin, hef ég eitthvað að moða úr. Núna er ég lagður af stað með næsta verkefni, þar sem fjallað verður almennt um bílaeign Íslendinga og þá ekki síst atvinnubílana, vörubíla og áætlunarbíla. Á fyrstu áratugum síðustu aldar voru bílar fyrst og fremst atvinnutæki og voru vörubílar ávallt fleiri en fólksbílar, allt fram að síðari heimsstyrjöld, enda mikil uppbygging í gangi. Á kreppuárunum voru þessir bílar fluttir inn hús- og pallalausir, til að spara verðmætan gjaldeyri, og var byggt yfir þá hér á landi. Sömu sögu var að segja af rútum og strætisvögnum. Þegar Willys-jepparnir voru fluttir inn eftir stríð komu þeir allir með blæjum sem voru vita gagnslausar í snjó og kulda. Af þeim sökum voru smíðuð vönduð hús á þá hjá yfirbyggingaverkstæðum um land allt,“ segir Örn að lokum og ef einhver lumar á góðri mynd af gömlum bíl væri áreiðanlega vert að senda honum hana.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.