Íslenskufræðingur og ferðagarpur

Ef nafni Gerðar Steinþórsdóttur er slegið upp á Google kemur meðal annars í ljós að hún er íslenskufræðingur og barnabarn Jónasar Jónssonar frá Hriflu. Þessar tvær staðreyndir segja nokkuð um þessa kraftmiklu konu sem hefur látið til sín taka á fleiri en einu sviði þjóðlífsins í gegnum tíðina. Hún hóf þátttöku í stjórnmálum og félagsmálum og lagði dýrmæt lóð á vogarskál kvennabaráttunnar á Íslandi. Á síðari árum er hún einkum þekkt fyrir áhuga sinn á ferðalögum.

„Af því að þú minnist á Jónas afa minn og stjórnmálin vil ég nefna að hann var fátækur sveitapiltur úr Þingeyjarsýslu sem þráði menntun. Honum tókst með miklum gáfum og dugnaði að fara ungur í einskonar þriggja ára „Grand tour“ um Danmörku, Þýskaland, Frakkland og England. Ekkert fór framhjá vökulum augum hans í menningju þessara þjóða. Í Oxford gekk hann í Ruskin College, „háskóla öreiganna“, og kynntist verkalýðsbaráttu. Kom heim árið 1909 og gerðist kennari við nýstofnaðan Kennaraskóla. Hann var einn af stofnendum Aþýðusambands Íslands og hefur verið nefndur faðir hins íslenska flokkakerfis. Varð skólastjóri Samvinnuskólans, ráðherra og formaður Framsóknarflokksins. Spor hans liggja um allt samfélagið. Það stóð mikill styr um afa og dætur hans, Auður móðir mín og Gerður, fengu að kenna á því. Þegar afi var jarðaður sáu þær til þess að ekki var minnst einu orði á stjórnmál! Afi var kominn út úr stjórnmálunum þegar ég var að vaxa úr grasi en ég komst ekki hjá því að verða vör við viðhorfið til hans, annars vegar taumlausa aðdáun eða taumlaust hatur. Viðhorf mitt til stjórnmála var því blendið.”

Leiðin í stjórnmálin

Gerður ólst upp í Vesturbænum í Reykjavík og varð stúdent frá MR. Hún fór síðan í nám til St. Andrews í Skotlandi, en tók B.A. próf í íslensku og ensku við Háskóla Íslands og byrjaði að kenna íslensku í framhaldsskóla. Hún lauk síðar cand.mag. prófi í íslensku. „Ég hef alltaf verið femínisti í hjarta mínu. Mér þótti konum þröngur stakkur skorinn, “ sagði Gerður. „Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á bókmenntum og skrifaði lokaprófsritgerð um kvenlýsingar í sex Reykjavíkurskáldsögum eftir seinni heimsstyrjöld. Ritgerðin var gefin út á vegum Hins íslenska bókmenntafélags. Kennari minn var Sveinn Skorri Höskuldsson prófessor og við undirbúning ritgerðarinnar dvaldi ég eina önn í Uppsölum ásamt fjölskyldu minni og sótti tíma hjá Karen Westman Berg. Hún var á þeim tíma aðalsérfræðingur Svía í kvennafræðum. Það lukust upp margir gluggar á þessum tíma.“ Gerður giftist árið 1968 Gunnari Stefánssyni útvarpsmanni og ritstjóra Andvara. Þau eiga þrjú uppkomin börn.

Gerður velur stundir á fjöllum í alls konar veðrum fram yfir sófann í stofunni.

Gefum Gerði orðið: „Árið 1970 hafði ég nýlokið B.A. prófi þegar ég var beðin að skipa sæti á lista Framsóknarflokksins til borgarstjórnar. Flokkurinn fékk þrjá menn kjörna og ég var óvænt orðin varaborgarfulltrúi. Ég hafði enga reynslu í stjórnmálum og hafði ekki hugsað mér að taka þátt í þeim. Þá voru mjög fáar konur í sveitarstjórnum. En svo fór að ég starfaði að borgarmálum í fjögur kjörtímabil eða í sextán ár, síðasta kjörtímabilið sem borgarfulltrúi. Starfið í borgarstjórn á þeim tíma fór fram utan hefðbundins vinnutíma, á kvöldin og um helgar. Þetta þýddi að sjálfsögðu miklar fjarvistir frá heimili og oft þurfti ég að heyra að ég væri aldrei heima!

Kvennabaráttan

Unaðsstund úti í náttúrunni.

„Sama ár og ég hóf störf í borgarstjórn blésu ferskir vindar, nýja róttæka kvennahreyfingin kvaddi sér hljóðs, tákn Rauðsokkanna var hnefi í kvennamerki. Ég fagnaði umræðu um aukinn rétt kvenna til frelsis og jafnréttis. Á þessum tíma fóru konur í öllum flokkum að vinna saman að afmörkuðum verkefnum og ég tók mikinn þátt í slíku starfi. Það fyrsta snerist um breytingu á fóstureyðingalöggjöfinni og rétti kvenna yfir eigin líkama,“ segir Gerður og heldur áfram: „Hið alþjóðlega kvennaár Sameinuðu þjóðanna 1975 breytti miklu. Án þess hefði enginn Kvennafrídagur orðið 24. október sem leiddi af sér fjölmargar þjóðfélagsbreytingar. Hann er og verður einn stærsti atburður kvennasögunnar.

Ég sat í framkvæmdanefnd Kvennafrídagsins og leiddi fjölmiðlahópinn. Þetta var mikið ævintýri. Kvennafríið vakti heimsathygli. Fimm árum síðar var Vigdís Finnbogadóttir kjörin forseti. Ég var í stuðningsliði Vigdísar. Starf hennar hefur haft ótrúleg áhrif. “

Gerður hugsar sig um og segir svo: „Eftir að ég hætti í borgarstjórn dvaldi ég vetrarlangt í París við fræðistörf. Ég hafði eignast fatlað barn 1982 og eftir heimkomuna tóku við félagsstörf á vegum Þroskahjálpar. Sonur minn hefur verið heppinn því að ýmsar leiðir hafa opnast til náms, stafa og afþreyingar á hans ævi.“

Ferðalög taka við

„Ég var sendikennari við norrænudeildina í Uppsölum um 1990. Þar tók ég þá ákvörðun að fara aftur að ferðast um undralandið Ísland. Ég var alin upp við ferðalög frá blautu barnsbeini. Mamma, Auður Jónasdóttir, var mikil ferða- og útivistarkona, eina mamman í Vesturbænum sem hjólaði. „Er það mamma þín sem er á hjólinu?“ spurðu krakkarnir mig. Pabbi minn, Steinþór Sigurðsson, var náttúrufræðingur. Hann lést af slysförum í Heklugosinu 1947, fékk á sig glóandi stein. Þá var ég þriggja ára og Sigurður bróðir minn fjórum árum eldri.

Gerður tók þátt í Landvættunum á vegum Ferðafélags Íslands í fyrra. Í því felst 50 km skíðaganga, 60 km fjallahjól, 2,5 km útisund og 33 km fjallahlaup.

Mamma hélt áfram ferðalögum. Hún hafði sérstakt dálæti á óbyggðunum og fór árlega upp á hálendið. Tíu ára fór ég í mína fyrstu óbyggðaferð um svæðið norðan við Vatnajökul; í Öskju, Herðubreiðalindir, Hvannalindir og Kringilsárrana þar sem Töfrafoss drundi í dökku gljúfri. Hann hefur þagnað núna vegna virkjunar. Ferðafélag Íslands gaf út dagbók eins ferðafélagans, Ingólfs Einarssonar, úr þessari ferð, hún nefnist Í náttúrunnar stórbrotna ríki. Næsta ár fékk ég að fara aftur og lá leiðin um óbyggðirnar sunnan jökla, inn í Nýjadal og að Arnarfellinu mikla. Í stuttu málið hafði ég farið um allt hálendi Íslands ellefu ára.

„Löngu síðar las ég að pabbi hefði unnið að kortlagningu á óbyggðunum norðan Vatnajökuls á vegum Danska herforingjaráðsins, einnig vestan jökuls, svo og á Vatnajökli og Mýrdalsjökli. Hann var talinn sá maður sem best þekkti óbyggðirnar á sínum tíma,“ sagði Gerður. Mér hefur verið sagt að vinna Steinþórs hafi haft áhrif á störf vísindamanna um allan heim, slíkt var framlag hans til rannsókna á jarðfræði og eldsumbrotum á Íslandi.

„Mamma hafði ferðast mikið erlendis,“ rifjar Gerður upp, „þær systur, mamma og Gerður, dvöldu með foreldrum sínum heilt sumar í Noregi og annað í Frakklandi þegar þær voru innan við fermingu. Oft minntust þær þessa tíma, í friði frá þrasi stjórnmálanna. Pabbi þeirra notaði tímann, m.a. til að skrifa kennslubækur.

Ég ákvað sem sagt að byrja aftur að ferðast um Ísland. Pabbi hafði verið varaforseti Ferðafélags Íslands og ég tengst félaginu sterkum böndum. Fljótlega eftir heimkomuna settist ég í stjórn F.Í. Ég fór að ganga flesta sunnudaga og síðan fara í lengri ferðir. Þær þóttu mér skemmtilegastar. Ekkert jafnast á við það að ganga eða fara á skíðum uppi á reginfjöllum.

Ferðafélagið hafði átt dálk í Morgunblaðinu sem kallaðist Á slóðum Ferðafélags Íslands. Ég byrjaði að skrifa ferðaþætti og eftir að ég hætti í stjórninni skrifaði ég í tímaritið Útiveru. Ferðafélagið gaf svo út ferðaþættina, þrjátíu og fimm talsins, árið 2013, og er titill bókarinnar Seiðmagn óbyggðanna.“

Bókin Íslensk fjöll. Gönguleiðir á 151 tind

„Ferðafélögin gerðu hlé á ferðum sínum yfir dimmustu mánuðina,“ segir Gerður. „Ég tengdist hópi sem vildi ganga allan ársins hring. Þar voru tveir menn sem höfðu hvor í sínu lagi ákveðið að ganga á alla tinda í bókinni Íslensk fjöll. Gönguleiðir á 151 tind eftir Ara Trausta Guðmundsson og Pétur Þorleifsson. Mér fannst þetta fáránleg hugmynd, tók þetta ekki alvarlega til að byrja með, en svo fór að ég ánetjaðist hugmyndinni. Hópurinn kallaði sig Tindáta eða Tind-áta, og var alla tíð lausbeislaður. Þegar Þórhallur Ólafsson lauk fyrstur við bókina, átti ég eftir 26 tinda. Það tók mig fjögur ár að ná þeim. Við vorum þrjú sem lukum við bókina árið 2012, auk mín María Berglind Þráinsdóttir og Tómas Þröstur Rögnvaldsson. Margir eru á leiðinni en um enga aðra veit ég sem hafa lokið við Bókina. Allmargir tindanna eru á jöklum eða við rætur jökla og því ekki aðgengilegir. Í minningunni eru margar af jöklaferðunum eftirminnilegastar,“segir Gerður hugsi.

„Ég var í öðrum gönguhóp sem gekk um Vestfirði fyrir utan Hornstrandir í ellefu sumur. Í þeim ferðum var fléttað saman landi og sögu. Við gengum fjörur og heiðar. Aldrei urðum við vör við aðra gönguhópa á þessum ferðum okkar. það á sjálfsagt eftir að breytast. Fyrsta ferðin var um Barðaströnd, fyrir Stálhleinina undir Stálfjallinu. Einn ferðafélaginn gaf okkur viðurnefnið Stálhleinungar! “

Gerður hefur ferðast geysilega mikið erlendis þótt Ísland og íslensk náttúra hafi alltaf vinninginn.

Ferðir erlendis

„Þegar ég var að alast upp voru utanlandsferðir fágætar. Afi og amma voru á undan sinni samtíð. Mamma lagði einnig grunninn að ferðalögum mínum erlendis. Eftir barnaskólann héldum við mamma ásamt vinkonu hennar í sex vikna Evrópuferð. Héldum með Gullfossi til Kaupmannahafnar, þaðan til Þýskalands þar sem við sigldum eftir Rín framhjá Lorelei klettinum, lágum í sólbaði á Rivierunni, héldum til Parísar og flugum heim frá Luxenborg. Alltaf var verið að fara á söfn, skoða kastala, kirkjur og hallir. Mest hef ég ferðat um Evrópu en einnig um Afríku, Suður-Ameríku og farið Silkileiðina frá Kína til Uspekistan. Árið 2014 fór ég umhverfis jörðina á fjórum mánuðum og ferðaðist þá mest á suðurhveli jarðar. Ég hafði og hef hugsað mér að skrifa bók um ferðina umhverfis jörðina og greina frá því sem á daga mína dreif, en hef ekki enn lokið því verkefni.

Ferðabækur

Gerður við Öskju 10 ára gömul. Myndin vísar til hins harmræna slyss í Öskju, þegar Walther von Knebel og Max Rudloff drukknuðu í Öskjuvatni 1907. Gerður stendur við Knebelsvörðu með ofinn dúk í glerhólk með skjaldarmerki von Knebels. Unnusta hans, Ina von Grumbkow, kom í Öskju 1908 ásamt Hans Reck og Sigurði Sumarliðasyni og lagði dúkinn í vörðuna. Hann er núna í eigu Safnahússins á Húsavík.

„Fyrir utan það að ferðast hef ég tekið ástfóstri við ferðabækur, ekki síst ferðabækur útlendinga um Ísland. Ein þeirra er Norður yfir Vatnajökul eftir Englendinginn Willian Lord Watts. Hann var fyrstur til að komast yfir Vatnajökul ásamt fimm íslenskum fylgdarmönnum. Það var árið 1875. Það var þriðja tilraun hans til að komast yfir jökulinn. Þeir hrepptu óveður, komust við illan leik niður af jöklinum eftir tólf daga göngu og áttu þá eftir fjögurra daga leið til byggða, komust loks til Grímsstaða. Þá var byrjað gos í Öskju og Watts hélt þangað.“ Gerður gerir hlé en heldur svo áfram: „Ég fékk mikinn áhuga á höfundinum sem var talinn hafa látist tveimur árum eftir Vatnajökulsleiðangurinn, 26 ára að aldri, lagðist í rannsóknir, og kom þá annað á daginn. Ég ákvað því að gefa bókina út með nýjum upplýsingum og fékk Hildi Hermóðsdóttur í lið með mér. Bókin kom út í kilju árið 2016, sagði Gerður og heldur áfrm: „Það er önnur ferðabók sem ég hef líka miklar mætur á. Það er Ísafold eftir Inu von Grumbkow en hún kom til Íslands til að fá vitneskju um afdrif unnusta síns, Walther von Knebel, sem drukknaði ásamt Max Rudloff í Öskjuvatni árið 1907. Ég hafði heyrt þessa harmrænu ástarsögu þegar ég kom tíu ára í Öskju og stóð við Knebelsvörðuna sem Ina og fylgdarlið hennar hlóðu. Löngu síðar las ég ferðasögu hennar. Þannig fléttast saman margir þættir á langri leið,“ sagði Gerður að lokum.

Ritstjórn mars 15, 2019 10:56