Ný úrræði í öldrunarmálum – Meiri heimaþjónustu

 

Gunnar Alexander Ólafsson.

Gunnar Alexander Ólafsson heilsuhagfræðingur skrifar:

Það hefur verið stefna að færa meiri opinbera þjónustu sem næst notendum, sbr. flutning grunnskóla og málefni fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga.

Þarf að byggja á vali

Markmið laga um aldraða er að aldraðir eigi völ á heilbrigðis- og félagslegri þjónustu sem þeir þurfa á að halda og að aldraðir geti búið sem lengst heima hjá sér. Til að mæta markmiðinu um að búa eins lengi heima og mögulegt er eiga aldraðir í heimahúsum rétt á félagslegri heimaþjónustu frá sveitarfélagi og heimahjúkrun sem gerir öldruðum kleift að búa lengur heima, þrátt fyrir veikindi. Heimahjúkrun er veitt af heilsugæslustöðvum sem er rekin af ríkinu. Í Reykjavík sinnir Velferðarsvið samþættri þjónustu við aldraða samkvæmt samningi við ríkið, þ.e. bæði félagslegri heimaþjónustu og heimahjúkrun. Þetta form hefur gefist vel og gert fleiri öldruðum kleift að búa heima við en ella. Stofnanir fyrir aldraða eru dvalar- og hjúkrunarheimili. Í dvalarheimilum er húsnæði sem er hannað fyrir þarfir aldraðra með þjónustu þ.e öryggiskerfi, mat, þvott, þrif og félags- og tómstundastarf, fyrir þá sem ekki eru færir um að annast heimilishald þrátt fyrir heimaþjónustu. Í hjúkrunarheimilum eru hjúkrunarrými sem  eru ætluð öldruðu fólki sem er of lasburða til að geta búið heima og þar skal veitt hjúkrunar- og læknisþjónusta auk endurhæfingar.
Nú er það mjög einstaklingsbundið hvað hver og einn telur henta sér best. En til að fólk geti valið verða öll framngreind úrræði að vera fyrir hendi og þá einnig með þeim hætti að þau svari þörfum fólks.

Hlutfallslega fleiri heima

Árið 2016 var fjöldi hjúkrunarrýma á landinu 2.525, en var 2.033 árið 2004. Sama ár var fjöldi dvalarrýma á landinu 1.009, en var 896 árið 2004. Fjöldi annara rýma fyrir aldraða árið 2016 var 139. Samanlagður fjöldi dvalar- og hjúkrunarrýma árið 2016 var svipaður og árið 2004. Á sama tíma hefur fólki, 67 ára og eldra, fjölgað um 34% eða úr 30.400 manns í 40.850. Þetta þýðir að öldruðum fjölgar langt umfram hin stofnunarlegu úrræði sem þá aftur þýðir að hlutfallslega fleiri eru lengur heima hjá sér en áður. Þetta er í sjálfu sér í samræmi við stefnumörkun stjórnvalda. Þá stendur eftir að fá svör hjá stjórnvöldum við því hvort þau telji öll stefnumarkmiðin vera í höfn; hvort hlynnt sé að öldruðum í heimahúsum sem skyldi. Margt bendir til að svo sé ekki og að í mörgum sveitarfélögum þurfi að gera átak.

Greina þarf kostnaðinn

Kostnaður við rekstur hjúkrunarrýma er ca. 25 milljarðar á ári eða um 10 milljónir á hvert rými og kostnaður við rekstur dvalarrýma er 3,1 milljarður eða 3 milljónir á hvert rými. Biðlisti eftir hjúkrunarrými lengist en árið 2016 biðu yfir 350 manns en árið 2010 voru það 180 manns. Hluti af þessum fjölda eru 90 aldraðir sem eru „fastir“ á LSH vegna skorts á viðunandi þjónustuúrræði, sem erfitt er að fá botn í ljósi þess að kostnaður við að liggja á LSH er miklu hærri en á venjulegu hjúkrunarheimili. Árið 2014 var talið að fjölga þyrfti hjúkrunarrýmum um 1.100 til ársins 2025 sem myndi kosta ca. 30 milljarða. Síðan þá hefur verið tekin ákvörðun um að fjölga hjúkrunarrýmum um 250, m.a. í Reykjavík, Kópavogi og Árborg. Í þessu sambandi má nefna að Framkvæmdasjóður aldraða fær um 1,8 milljarð á ári. Um 30% fara í stofnframkvæmdir en 70% í rekstur hjúkrunarheimila og viðhald.

Félagsleg aðsoð og heimahjúkrun eru ódýr og hagkvæm úrræði

Áhugavert er að fjöldi fólks sem þegið hefur félagslega heimaþjónustu í Reykjavík hefur verið um 3.700 á ári frá árinu 2009, en fjöldi þeirra sem hefur fengið heimahjúkrun hefur vaxið úr 2.089 árið 2009, í 2.387 árið 2015. Kostnaður við heimahjúkrun árið 2015 var um 1,3 milljarður (546 þúsund að meðaltali). Sama ár nam kostnaður við félagslega heimaþjónustu um 1,8 milljarður (482 þúsund að meðaltali). Kostnaður við heimahjúkrun og félagslega heimaþjónustu er brot af því sem kostar að reka hjúkrunarrými. Með því að auka fé til samþættrar heimaþjónustu í Reykjavík er hægt að stytta biðlista eftir hjúkrunarrýmum.

Mannsæmandi líf!

Tækifæri felast í tilfærslu á þjónustu við aldraða frá ríki til sveitarfélaga og færa þjónustuna nær notendum. Ef þessi stefnubreyting yrði í öldrunarþjónustu myndi þaðhafa jákvæð áhrif, eins og aukna vellíðan og virkni meðal eldra fólks, lækkun kostnaðar vegna þjónustu við aldraða, styttri biðlista eftir hjúkrunarrýmum og minni fráflæðisvanda LSH.
Ítrekað skal að þær áherslur sem hér eru nefndar ganga því aðeins upp að tilfærslunni frá ríki til sveitarfélaga annars vegar og frá stofnun til heimils hins vegar, fylgi fjármunir til sveitarfélaganna og síðan rauverulegur vilji af þeirra hálfu  til að búa öldruðum í heimahúsum mannsæmandi skilyrði.

 

Ritstjórn júlí 17, 2017 10:15