Segja má að þau Jakob Jónsson og Jónína Karlsdóttir eða Didda rokk eins og margir þekkja hana, hafi sungið og dansað saman í gegnum lífið. Þau kynntust á sveitaballi í Aratungu fyrir 58 árum eða 1962. Þá hafði Didda dansað með hljómsveit Óskars Guðmundssonar á Siglufirði helgina áður og tók hljómsveitarmeðlimi í Aratungu tali. Þá sáust þau Jakob fyrst og nokkrum dögum síðar í annað sinn og þá í Þórskaffi. Þá var ekki aftur snúið og Jakob og Didda hafa verið saman síðan. Margir hafa haldið að Didda rokk og Sæmi rokk væru hjón því þau dönsuðu saman í mörg ár. En svo var ekki heldur var það Jakob og Jónína sem voru hjón og nú, 58 árum síðar er Jakob hættur að syngja og Didda að dansa en þau halda áfram að leika sér, bæði hér á landi og á Spáni þar sem þau eiga hús.
Röddin hvergi til í upptöku
Aðalstarf Jakobs var alla tíð að vera deildarstjóri aflatryggingastjóðs Fiskifélagsins. Þegar hann var nýráðinn í þetta nýja starf hjá Fiskifélaginu 1962 voru hann og spilafélagar hans beðnir um að taka upp 12 laga plötu sem átti að gefa út. Það var allt tilbúið þegar í ljós kom að þeir þurftu að fara til London til að taka plötuna upp og vera þar í mánuð. “Ég gat alls ekki farið í heilan mánuð í burtu svona skömmu eftir að hafa tekið við nýju starfi svo ég sagði nei takk og ákvað þá að ég skyldi aldrei syngja inn á plötu og hef staðið við það,” segir Jakob. Hann og aðdáendur hans hafa því sannarlega þurft að lifa í núinu og njóta líðandi stundar því söngur Jakobs fæst ekki keyptur. “Svavar Gests og Ellý mættu oft í Sigtún þegar ég var að syngja þar og eitt skiptið kom Svavar til mín og spurði mig hvar ég hefði eiginlega verið með þessa rödd. Hann bauð mér að syngja inn á plötu en ég sagði nei takk. Ég tók þessa ákvörðun snemma og hef staðið við hana,” segir Jakob. Didda segir að þetta sé kallað Skarðshlíðarþrjóskan en Jakob er ættaður undan Eyjafjöllum. Jakob segist ekki sjá eftir þessu en fjölskylda hans er leið yfir að eiga söng hans ekki á upptöku.
Fór í “gigg” eftir dagvinnuna
Jakob fór svo alltaf í “gigg” eftir dagvinnuna, stundum sjö daga vikunnar. Líf Diddu hefur hins vegar hverfst um dans og stundum voru þau hjónin að vinna á sama balli. Didda að dansa og Jakob að syngja. “Fólk
rak upp stór augu þegar í ljós kom að það voru dansarinn og söngvarinn sem voru hjón en ekki Didda og Sæmi,” segja þau hlæjandi.
Þegar Didda var ekki að sýna dans starfaði hún sem fimleikaþjálfari hjá Fylki ein hún var einn af stofnendum fimleikadeildar Fylkis. Hún var lengi í jassballett og ballett sem ung svo hún var sjálfmenntuð þegar kom að því að dansa opinberlega. Didda tók dæturnar oft með í vinnuna og nú er dóttir þeirra framkvæmdastjóri fimleikadeildar Fylkis. “Nú er komin fjórða kynslóð mjög efnilegra fimleikakvenna í fjölskylduna,” segir Didda og brosir en sex ára langömmubarn þeirra er nú byrjað að æfa. Diddu tókst því að smita hverja kynslóðina á fætur annarri af þessari skemmtilegu íþrótt. Didda hefur því mest starfað við fimleikakennslu í gegnum tíðina en henni bauðst að fara til Bandaríkjanna í sundballettnám. Hún segist hafa verið jarðbundin og ekki viljað fara svona langt í burtu. Henni buðust síðar fleiri tækifæri til að fara til útlanda að nema dans en þá voru Jakob og börnin komin til sögunnar og þá langaði Diddu ekki að fara. Svo segja má að þau hjónin hafi sannarlega haldið hvort öðru á skerinu í stað þess að fara út í heim að freista gæfunnar. Þau sjá ekki eftir því og eru ánægð með hvað lífið færði þeim í tækifærum og barnaláni. Þau eiga fjórar dætur, 8 barnabörn og sex barnabarnabörn og það sjöunda á leiðinni.
Hitti Sæma og Gulla Bergmann í Þórskaffi
Þegar Didda var 19 ára fór hún að stunda Þórskaffi af kappi. Á þeim tíma myndaðist hópur sem í voru Didda, Sæmi rokk, Gulli Bergmann og fleiri ungmenni sem öll voru liðtækir dansarar. Þetta var áfengislaus hópur og allir nutu þess að dansa vímulausir og þarna var tjúttið og boogie woogie æðið hafið. “Þar byrjuðum við að dansa saman en áður hafði ég verið í ballettskóla Þjóðleikhússins og hjá Rigmor Hansen svo ég hafði svolitla undirstöðu. Svo bað Gulli Bergmann mig að sýna dans með sér á böllum Lúdó sextett um allt land. Eftir það fóru börnin okkar Jakobs að fæðast, fyrst 63 svo 65 og 73 og 74 hringir Sæmi í mig og fær mig til að sýna með sér dans á árshátíð fagfélags síns, trésmiða, og þar með hófst það ævintýri. Þá var elsta stelpan orðin 12 ára svo þær eldri gátu passað. Þá var líka gott að búa í blokk ef eitthvað hefði komið upp á sem gerðist sem betur fer ekki. Ferðamiðstöðin var ferðaskrifstofan sem bauð fyrst ferðir til Benidorm. Skrifstofan var alltaf með bingó í Þórskaffi eða Hótel Sögu og þar dönsuðum við Sæmi mjög lengi. Við tókum launin okkar út í ferðum og fórum ár eftir ár með fjölskyldurnar til Benidorm. Á þessum tíma fórum við líka að dansa á prívat böllum og vorum alltaf á leiðinni að hætta en af því við vorum í svo góðri æfingu, ég í fimleikakennslunni og Sæmi í lögreglunni, gátum við haldið áfram ansi lengi,” segir Didda rokk og brosir.
Á sama stað í 57 ár
Jakob og Didda búa í fallegri blokkaríbúð í Hraunbæ en þar ætluðu þau upphaflega bara að vera í tvö ár eða þangað til þau gætu flutt í stærra húsnæði. En þegar til kom neituðu stelpurnar að flytja frá vinunum
og þau létu það eftir þeim og sjá ekki eftir því. “Á þessum tíma bjuggu barnafjölskyldur í hverri íbúð og bakgarðurinn iðaði af lífi,” segja þau. Svo er skólinn og sundlaugin steinsnar frá og þar er fimleikahúsið þar sem Didda starfaði við fimleikaþjálfunina. Síðan gerðist það 1976 að börnin hurfu úr bakgörðunum inn á leikskólana.
Tilviljun réði að tónlistaferillinn hófst
Jakob lenti í því að verða bakveikur ungur og þurfti að fara í aðgerð þegar hann hafði lokið Verslunarskólanum. Hann hafði verið liðtækur í fótbolta og frjálsum íþróttum fram að því en var ráðlagt að hætta því, a.m.k. tímabundið, og þá heltók tónlistin hann. Eftir aðgerðina keypti hann sér trompet til að hafa eitthvað að gera á meðan hann jafnaði sig og hóf nám hjá Birni Guðjónssyni og svo Viðari Alfreðssyni. Foreldrar Jakobs höfðu flutt á Hellu þar sem þau ætluðu að vera í nokkra mánuði en það var einmitt tíminn sem Jakob þurfti til að jafna sig svo hann flutti í foreldrahús og naut umhyggju þeirra á meðan. “Ég fór að æfa mig á trompetinn og þá kom Rudolf Stolzenwald í heimsókn einn daginn og spurði mig hvort ég vildi ekki bara koma á æfingu Blástakka þar sem voru nokkrir spilarar að gera skemmtilega hluti. Mér þótti það spennandi og mætti á eina æfingu og var ráðinn sem trompetleikari á staðnum. Söngvarinn í þeirri hljómsveit var Halli, bróðir Ladda. Skömmu síðar átti hann erindi til Noregs og þá var mér sagt að fara fram á sviðið og syngja. Síðan hefur lífið verið söngur í 57 ár eða allt þar til röddin gaf sig 2016,” segir Jakob og er ánægður með þann feril. En Jakob er sorgmæddur yfir að hafa þurft að hætta að syngja en svo varð að vera.
Var lokkaður í aðra hljómsveit
Jakob var með hljómsveit Stoltenwalz til 1962 en þá vildi svo til að hann hitti Andrés Ingólfsson sem var með hljómsveit í Þórskaffi. Andrés bauð honum að koma sem söngvari í hljómsveit sína og spila þrjá daga í viku eða mánudaga, þriðjudaga og miðvikudaga. Á sama tíma kom Jón Páll gítarleikari að spila með honum af því Andrés þurfti að reka einn spilarann út af fylleríi. Jón var sjálfur með hljómsveit á Hótel Borg á þessum tíma og bauð Jakob að spila í hljómsveit sinni fimmtudaga, föstudaga, laugardaga og sunnudaga. Þar með var vikan fullbókuð og Jakob tók miklum framförum sem söngvari.
Rifist var um góða söngvara
Eitt kvöldið þegar Jakob var að spila á Borginni sá hann þrjá menn sitja í salnum en þekkti ekki á þeim nein deili. Eftir ballið gáfu þeir sig á tal við hann til að bjóða honum í nýstofnaða 7 manna hljómsveit sem átti að byrja að spila í gamla Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll eða Sigtún. Þetta voru þeir Árni Ísleifs, Steini Krupa og Gunnar Pálsson. Þeir vildu endilega fá mig yfir og lofuðu mér 20 – 30% launahækkun ofan á FÍH kaupið og sögðu mér að þetta væri spilamennska þrjú kvöld í viku. Þegar upp var staðið urðu þau sjö og þarna spilaði Jakob til 1969. Eftir það fór hann að spila með hljómsveit sem fylgdi fegurðarsamkeppni Íslands um allt land. Þá fór Didda oft með en þetta var á hverri helgi frá apríl til septemberloka.
Varð drykkfelldur en Didda sagði stopp
Eftir fegurðarsamkeppnisævintýrið fór Jakob að spila í Klúbbnum með eigin hljómsveit. Þar spilaði sú hljómsveit til 1973 og þá voru börnin orðin fjögur. Þá var Jakob beðinn um að koma í hljómsveitina Næturgalar þar sem hann var í þrjú ár en var þá orðinn svolítið drykkfelldur að eigin sögn. Hann hafið ekki smakkað áfengi þangað til hann var orðinn þrítugur en ferðalagið með fegurðarsamkeppninni gerði útslagið. “Þá sendi Didda mig upp í Reykjadal sem var forveri Vogs,” segir Jakob og Didda hlær nokkuð ánægð með sig. “Þá var ég bara búinn að fá nóg og hætti alfarið að drekka,” segir hann. “Ég var bara í Reykjadal í fimm daga því ég þurfti bráðnauðsynlega að komast í spilamennsku í bænum en það dugði því ég hef ekki drukkið síðan. Þetta var 1978.”
Kynslóðirnar mættust
Nokkrir nafntogaðir menn, margir mun yngri en Jakob, gerðust meðlimir í hljómsveit Jakobs og má þar nefna Sigtrygg Baldursson eða Bogomil Font, Þórð Árnason sem hætti í Stuðmönnum og kom í hljómsveit Jakobs, Jóhann Ásmundsson, Jóhann Hjörleifsson, Einar Val Scheving og faðir hans Árni Scheving, Gunnar Þórðarson, Gunnar Hrafnsson og fleiri.
Röddin gaf sig
Árið 1975 sögðu læknar Jakobi að hann yrði að fara að hægja á sér því hann væri að ofbjóða röddinni. Hann gerði það svo ekki fyrr en 2016 en þá hafði hann ekki val lengur eftir að hafa sungið í reyk og vondu lofti allan þennan tíma. Læknar sögðu honum að hann myndi líka misst talröddina ef hann héldi áfram svo það var sjálfhætt. Jakobi þykir vont að geta ekki sungið lengur og sér mikið eftir félagsskap spilafélaga sinna.
Jakob ætlað eitt sinn að fara að læra að beita röddinni hjá Sigurði Demetz sem sagði að þessi rödd ætti að vera í óberettum. “Þá hætti ég því það langaði mig ekki,” segir Róbert. Þýski konsúllinn bauð Jakobi eitt sitt að fara í söngnám til Þýskalands og hann skyldi styrkja hann en þá var Didda komin til sögunna og börnin líka svo það kom ekki til greina. Hann segist líklega hafa beitt röddinni rangt allan tímann sem olli því að hann ofbauð henni.
Værum á Spáni
Þau Jakob og Didda keyptu hús á Spáni 2005 og hefa dvalið þar hluta úr ári síðan og væru þar núna ef ekki væri Covid faraldur. Þau njóta samvista við börn og barnabörn ríkulega, bæði hér á landi og á Spáni.
Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.