Tengdar greinar

Hvers virði er kórastarf?

Talið er að um 1,3% þjóðarinnar syngi í hátt í 200 kórum víðs vegar um landið. Þetta eru kirkjukórar, barna- og unglingakórar, gospelkórar, kórar eldri borgara, kammerkórara og fjöldinn allur af karla- og kvennakórum.

Tónlistarhefðin á Íslandi nær langt aftur í aldir og tengist kveðskap órjúfanlegum böndum. Fólk söng saman í baðstofum, hlustaði á rímnakveðskap og notaði söngva til að muna vísur. Kórsöngur er hins vegar ungt fyrirbæri og verður til í gegnum kirkjulegt starf.

Pétur Guðjohnsen, fyrsti organisti Dómkirkjunnar, kom heim úr kirkjutónlistarnámi frá Danmörku árið 1840. Pétur var sterkt afl í sönglífi Íslendinga og vann ákveðið að útbreiðslu sönglistarinnar. Hann kenndi söng við Latínuskólann þar sem nemendur voru piltar og efndi hann til samsöngs árið 1854 með þeim. Það  mun hafa verið vísir að fyrsta starfandi kór á Íslandi. Fyrstu opinberu tónleikarnir voru svo haldnir 2. apríl 1854. Þessi kór söng meðal annars við minningarathöfn um Kristján konung VIII og var það mikill heiður.

Jónas Helgason, eftirmaður Péturs, stofnaði svo Söngfélag Reykjavíkur árið 1862 en það var kór iðnaðarmanna í Reykjavík og var gefið nafnið Söngfélagið Harpa árið 1875. Sá karlakór starfaði hátt í 30 ár og var lengi eini karlakórinn á Íslandi og mjög vinsæll.

Kvennakór varð til

Saga kvennakóra hefur verið skráð en það gerði Hildigunnur Einarsdóttir til dæmis í BA ritgerð sinni 2016 og nefndi “Kvennaslagur í meira en öld”. Þar er saga kvennakóra frá upphafi rakin og viðtöl tekin við Margréti Bóasdóttur, Margréti J. Pálmadóttur og Jóhönnu V. Þórhallsdóttur sem eru frumkvöðlar í kvennakórastarfi á Íslandi. Í ritgerðinni segir Hildigunnur að kvennakórar á Íslandi standi loks á traustum grunni eftir áratuga uppbyggingu.

Söngfélagið Gígjan var stofnað 1905 af Valgerði Lárusdóttur Briem. Valgerður var af miklum tónlistarættum en hún var dótturdóttir Péturs Guðjohnsen sem stofnaði fyrsta karlakórinn.

Hugmyndin að stofnun kvennakóra vaknaði á árunum 1905 – 1950 og ýmsir kórar spruttu fram víðs vegar um landið en urðu ekki langlífir. Það var svo ekki fyrr en frumkvöðlarnir Margrét Pálmadóttir, Jóhanna V. Þórhallsdóttir og Margrét Bóasdóttir riðu á vaðið að kvennakórar festu sig í sessi

Kórastarf er mannbætandi!

Á æskuheimili Snjólaugar Elínar Sigurðardóttur var mikil tónlist. Faðir hennar var læknir en spilaði djass á píanó í frístundum. Móðir hennar var mikið menntuði í píanóleik svo að á heimilinu var allskonar tónlist

Snjólaug Elín Sigurðardóttir kórfélagi Vox feminae.

alltumlykjandi, bæði klassík og jass. Snjólaug lærði sjálf á píanó og nú hefur hún komið tónlistaráhuganum áfram til barnanna sinna.

“Svo tóku fullorðinsárin við með námi og barneignum og þá varð hlé á tónlistariðkun minni,” segir Snjólaug. “Ég fylgdist samt alltaf með kórastarfi Margrétar Pálmadóttur en hún stofnaði Kvennakór Reykjavíkur 1993. Fram að því var starfsemi kvennakóra á landinu mjög takmörkuð. „Margrét var mikill frumkvöðull og konur þyrsti í að fá að vera með,“ segir Snjólaug. „Að syngja saman með öðrum er sannarlega mannbætandi,” segir Sjólaug. Systir hennar hafði verið í kórnum Gospelsystur Reykjavíkur sem var einn kóra Margrétar og Snjólaug hafði séð hversu gaman systir hennar hafði af þátttöku í þeim kór.

Snjólaug byrjaði í kórnum Vox feminae sem Margrét stofnaði, 1993 (heimasíða kórsins hér) Hún var þá búin að vera í kórskóla hjá Margréti í einn vetur því hún vildi undirbúa sig sem best áður en hún settist í kórinn. Snjólaug segir að margar konur séu þeim annmörkum háðar að hræðast að gera mistök og þar sé hún í hópi. Þess vegna hafi henni þótt mjög gott að læra svolítið í söng áður en hún byrjaði. Margrét stjórnaði Vox feminae þar til fyrir ári síðan en nú er Hrafnhildur Árnadóttir Hafstad tekin við því starfi.

Ómetanlegt samfélagslegt fyrirbæri

Snjólaug hefur verið samfleytt í kór frá 2001 og segir að kórastarf sé ómetanlegt samfélagslegt fyrirbæri. Hún segir að þegar nýr meðlimur er tekinn inn í kórinn fari fólk í áheyrnaprufu og metnaðurinn sé  mikill enda má segja að kórinn sé “semi professional”. Þær fara í kórferðalög til útlanda og hafa til dæmis sungið í Péturskirkjunni í Róm og Markúsardómkirkjunni í Feneyjum. Snjólaug segir að hún hafi fengið að upplifa ævintýri með kórnum sínum sem hún hefði sannarlega ekki gert annars. “Félagsskapurinn er aðalatriðið í öllum kórum. Að syngja í hljómi með öðrum röddum er ævintýri sem fátt jafnast á við,” segir Snjólaug. “Samveran við þá sem maður kynnist í kórnum er ómetanleg því samhljómurinn við aðrar manneskjur er svo mikils virði og það upplifir maður í kór. Það er engu líkara en að söngurinn laði fram það besta í fólki og ekki skemmir þegar kórstjórinn er jafn kraftmikil og jákvæð fyrirmynd og Margrét Pálmadóttir er, bæði fyrir unga söngvara sem eldri,” segir Snjólaug að lokum.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

 

Ritstjórn október 28, 2020 07:42