Elst til að klára gráðu í íþróttafræðum

Þeir sem þekkja Helgu Guðrúnu Gunnarsdóttur vita að það er ekki ofsögum sagt sem hún segir um sjálfa sig: Að hún sé „doer“. Hún hefur undanfarin ár boðið upp á nýja nálgun í heilsurækt en það er þjálfun í vatni, öðru nafni vatnsþrek og leggur áherslu á kröftugar æfingar utandyra. Hún rekur nú fyrirtækið Ræs ehf. sem heldur úti vatnsþreksnámskeiðum fyrir hópa í Sundlaug Kópavogs sem notið hafa mikilla vinsælda.“ Að eigin sögn er aðalmarkhópurinn „fólk sem komið er um og yfir miðjan aldur, 45+,“ en þá sé heldur ekki til setunnar boðið að „sporna gegn öldrunarferlinu með markvissri þjálfun sem eflir og styrkir líkama og sál“.

„Æfingar í vatni eru mjög góður kostur þegar kemur að líkamsrækt og eitt af markmiðum mínum er að fjölga iðkendum sem kjósa að æfa í vatni og gera mjúka en öfluga hreyfingu sem fer vel með líkamann að lífsstíl,“ segir Helga Guðrún, sem auk þess að hafa lokið BS-námi, mánuði áður en hún varð sextug, hefur bætt við sig sérhæfingarnámskeiðum erlendis fyrir þjálfara í vatni, viðurkenndu námi í markþjálfun sem og leiðbeinendanámi í hláturjóga og diplomanámi í rekstri lítilla fyrirtækja – allt eftir að vera komin á sjötugsaldur!

Í kynningu á sjálfri sér á vef Ræs ehf. segir Helga Guðrún að hún sé stolt af því að vera elsti nemandi sem útskrifast hefur með BS-gráðu í íþrótta- og heilsufræði frá Háskóla Íslands.

Kennitalan úrelt

Helga Guðrún starfaði í sautján ár á Morgunblaðinu, á þeim árum var hægt að „vinna sig upp” á eigin verðleikum, þrátt fyrir menntunarleysi. Hún byrjaði í auglýsingadeildinni, síðar sem offset-setjari, og loks sem aðstoðarmaður menningarritstjóra blaðsins. Þegar Fréttablaðið kom á markað fékk Morgunblaðið mikla samkeppni og fór í kjölfarið að þrengja að rekstrinum. Þegar leið á fyrsta áratuginn segir hún að hafi verið byrjað á því meðal annars að skera niður á menningarritstjórninni og hún meðal þeirra fyrstu sem sagt var upp. Hún segist alltaf reyna að koma niður á fæturna í mótlæti og hafi söðlað alveg um á þessum tímamótum, leigði íbúðina og fór í spænskunám til Barcelóna. Var þar í nokkra mánuði og þegar heim var komið var enga vinnu að hafa, þrátt fyrir glimrandi góð meðmæli og ítrekaðar atvinnuumsóknir „kennitalan var „úrelt“! Þetta tímabil stóð í um það bil sex ár og það gerðist margt á þessum tíma atvinnuleysis og bjargræðishugsunar. Hún lauk tveggja ára námi í Margmiðlunarskólanum, stúdentsprófi í kvöldskóla frá MH og einu ári í heimspeki í HÍ. Á sumrin fór hún út á land að vinna sem kokkur á hótelum og síðast í föstu starf á heimili fyrir Alzheimersjúklinga í Hafnarfirði.

Alltaf verið líkamlega virk

En hvernig kom það til að hún kýldi á nám í Íþróttaháskóla Íslands á Laugarvatni verandi mörgum áratugum eldri en skólafélagarnir?

„Þannig er að ég hef alltaf haft gaman af puði, verið líkamlega virk. Í mörg ár, löngu áður en það varð tíska, var reiðhjólið mitt aðal farartæki allan ársins hring. Svo var það sumarið 2011 að vinkona mín bauð mér í afmælið sitt sem hún hélt uppá á Flúðum í Hrunamannahreppi. Veðrið var dásamlegt þennan dag, heiðskír himinn og logn, svo ég skellti mér austur á reiðhjólinu. Mér leið ofsalega vel og það söng eitthvað svo sterkt og bjart innra með mér alla leiðina. Ég var sjö tíma á leiðinni með viðkomu í Hveragerði og Selfossi,  og meðal annars einn bjór hjá frænda mínum á Húsatóftum á Skeiðum. Þarna er ég 56 ára gömul og ekki komin á þann stað sem ég vildi vera á í lífinu og fann mig sterka og öfluga. Þegar ég hjóla upp Skeiðaafleggjarann laust þessari hugmynd niður í mig: af hverju geri ég ekki eitthvað með líkamann, geri eitthvað útí hött, fara í íþróttakennaranám? Á þessum tíma var ég að vinna sem kokkur í Drafnarhúsi í Hafnarfirði og ung samstarfskona mín var þá búin með íþróttanám. Þegar ég nefndi við hana hugmyndina um að skella mér í íþróttafræði um haustið, hvatti hún mig til að kýla á það, ég myndi massa það, hjólreiðakonan. Ég hafði samband við skólann og fékk sömu viðbrögð þar: Ég ætti endilega að skrá mig – aldurinn væri engin hindrun! Það varð því úr,“ segir hún og brosir breitt.

„Gamla“ sannaði sig!

Árin í ÍHÍ segir Helga Guðrún að hafi verið skemmtileg og lærdómsrík. Hún hafi verið með fyrirfram gefnar áhyggjur af því að standast unga fólkinu ekki snúning, en þær áhyggjur voru óþarfar, en þetta var mikil áskorun og mikið búst fyrir egóið þegar vel tókst til. „Þau  kölluðu mig „Gömlu”, mér þótti það vel við hæfi og skemmtilegt. Mér fannst það slakna svolítið á spennunni hjá þeim gagnvart mér, þessari jaðartýpu.“  Sem dæmi nefnir hún að einn áfanginn í náminu var fimleikar,  „við máttum draga okkur æfingar í lokaprófunum og einn þáttur í því voru æfingar á svifrá. Við óskuðum þess öll að draga ekki það verkefni, vorum ekki mikið búin að æfa slána.“ En viti menn: auðvitað dró hún það. „Ég held að prófdómararnir hafi séð aumur á mér og viljað mér vel, sjá miðaldra konu sem var 1.50 cm á hæð góna uppí slána. Þeir buðu mér að ég mætti njóta aðstoðar til að draga mig upp í fyrstu æfinguna. Ég afþakkaði, vissi að það myndi draga mig niður í einkunn, hoppaði upp í slána og dró mig upp eins rólega og fagurlega og mér var unnt. Ég skilaði æfingunni uppá 9! Krökkunum þótti þetta alger snilld og á meðal þeira flaug fréttin að „Gamla“ hefði massað slána!“ segir hún og hlær.

Helga Guðrún tekur líka fram að forsenda fyrir því að hafa getað farið út í þetta, fullt nám á Laugarvatni, hafi verið að hún var búin að koma börnunum sínum tveimur upp og hafði „ekki karl til að stoppa sig“. Hún leigði út íbúðina í Kópavoginum sem henni tókst að koma sér upp þrátt fyrir að vera eina fyrirvinnan og uppalandi. Þannig gat hún fjármagnað námið, meðal annars leigt sér sumarbústað fyrstu önnina í landi Miðdals við Laugarvatn og síðar keypt sér lítið hús efst í dalnum „borga sálfri sér leigu”, þar sem hún bjó í tæp þrjú ár, langt frá mannabyggðum. Svo vann hún með náminu á Fontana og sá þar um eldamennsku. Hún á enn sitt góða og gefandi athvarf í sumarbústaðnum í Miðdal og hefur undanfarin ár verið upptekin við smíðar og endurnýjun á húsinu.

En það er mikill munur á vinnubrögðum og þroska frá því að vera 20 ára og 60 ára. „Við þurftum að horfast í augu við hugmyndir okkar um hvað aldursbilið þýðir og hvaða fordóma við höfum gagvart því. Verklegt návígi í náminu hafi þannig verið þroskandi. „Ég hafði unnið í mínum fordómum gagnvart unga fólkinu þegar ég var í námi í margmiðlun, en samnemendur mínir í ÍHÍ þurftu mörg hver að skoða sína fordóma gagnvart „gömlu“ fólki.“

„Mátulegt mótlæti“ styrkir

Helga Guðrún er alin upp í sjávarplássinu Ólafsvík. Eins og títt var um fólk af hennar kynslóð fór hún snemma að vinna fyrir sér. Hún vann fjölbreytt verkamannastörf, fór m.a. 16 ára sem kokkur á 40 tonna línubát á vetrarvertíð og kokkaði ofan í sjö manna áhöfn. „Það vantaði kokk og landburður af fiski. Mér bauðst starfið og þurfti oftast að fara á dekk og blóðga rumbungs þorska. Ef það var tvísýnt með veður þá var ræst út og bankað á gluggann hjá mér og kallað „Ræs!“ Þaðan kom hugmyndin að nafninu á fyrirtækinu sem ég stofnaði í kringum þjálfunina, því eftir 45 ára aldur er ekki lengur til setunnar boðið, við þurfum að koma okkur af stað og sporna við Elli kerlingu.“

Helga Guðrún vill í samtali okkar ekki eyða mörgum orðum á sviptingarnar í einkalífi sínu; segir bara að á stundum hafi hún „þurft að klífa miklar brekkur“. Níundi áratugurinn, þegar hún var einstæð móðir með tvö börn komin í Kópavog, hafi verið sérstaklega erfiður. „En mátulegt mótlæti styrki mann bara,“ segir hún. „Maður þarf að buffa þá vöðva líka.“ Börnin hennar, Gunnar og Berglind Dögg, hafa plumað sig vel í lífinu og hún á nú sjö barnabörn.

Vill gefa kyndilinn áfram

Hún vill miklu fremur tala um núið og framtíðina. Orkubúntið Helga Guðrún er sjálf formlega komin í hóp eldri borgara: fyllir 67. Henni er umhugað um að starfið sem hún er búin að byggja upp í kringum vatnsþrekið haldi áfram, og hún geti jafnvel séð fram á að minnka aðeins við sig vinnu. Hún er því á útkíkki eftir samstarfsaðila sem með tíð og tíma gæti tekið við kyndlinum, en hún segir að það sé töluvert í land ennþá.

„Það er mikill auður í fólki á miðjum aldri og fólk á ekki að hika við að fara nýjar leiðir á þessum tímamótum,” segir hún. Hún skilar góðu verki til samfélagsins því undir hennar stjórn iðka um 200 manns þrekþjálfun í vatni. „Ég ákvað að leggja áherslu á þjálfun eldri aldurshópa því mér þótti vanta fólk á mínum aldri sem væri að þjálfa svipaðan aldurshóp. Við sem erum eldri, vitum hvað má bjóða eldra fólki, við höfum verið ung, en þau ungu hafa ekki verið gömul, og eru oft óviss um hvað bjóða má fólki á þessum aldri. Ég hvet því fólk á miðjum aldri til að skella sér í íþróttanám. Þetta er það mikilvægasta sem ég hef gert, að efla heilsu fólks og styrkja. Auka gleði þess, það er eins og að skoða demant í gegnum sólarljós,“ segir Helga Guðrún stolt.

Handhafi hvatningarverðlauna

Vorið 2021 féll fyrirtæki Helgu Guðrúnar sá heiður í skaut að fá Hvatningarverðlaun Kópavogs, í fyrsta sinn sem þau voru veitt. Hugmyndin með verðlaununum er að veita viðurkenningu fyrirtæki í Kópavogi sem hefur með starfsemi sinni stuðlað að heilsueflingu Kópavogsbúa. Verðlaunin eru mikilvægur liður í innleiðingu lýðheilsustefnu bæjarins. Í umsögn með verðlaununum segir „Ræs ehf., í eigu Helgu Guðrúnar Gunnarsdóttur, býður upp á þjálfun í vatni með áherslu á að þjóna einstaklingum sem eru komnir um og yfir miðjan aldur. Þetta eykur verulega valmöguleika í heilsueflingu og þá ekki síst fyrir eldri aldurshópa.“

Undirritaður getur sjálfur vottað um það hve góð og heilsubætandi reynsla það er að mæta í þjálfun til Helgu Guðrúnar í Kópavogslaugina. Umsagnir annarra sem notið hafa sömu reynslu eru líka allar á einn veg. Dæmi: „Ég mæli heilshugar með þrekþjálfun í vatni, þar fann ég loksins fjölina mína hvað hreyfingu varðar. Hún Helga Guðrún þjálfar með húmor og hvatningu að leiðarljósi – og fær jafnvel mestu stirðbusa og antisportista eins og mig til að hafa gaman af hreyfingu! Ekki lítið afrek það,“ lætur t.d. kona um fimmtugt hafa eftir sér á vef Ræs ehf.

 

Auðunn Arnórsson, blaðamaður Lifðu núna, skrifar.

Ritstjórn mars 11, 2022 14:46