Janúar er mánuður góðra áforma, orku og ákveðni. Margir setja sér áramótaheit og halda þau samviskusamlega fyrstu vikur ársins. Menn horfa einnig til baka, velta oft fyrir sér fortíðinni og ígrunda hvar þeir hafi villst af leið og hvað megi gera betur. Það er vel við hæfi því nafn mánaðarins er dregið af nafni rómverska guðsins Janusar. Hann hafði tvö andlit. Annað horfði fram á við en hitt aftur.
Hversu gamalt er nafnið?
Nafnið kom inn í íslenskt tungumál á átjándu öld. Rómversku mánaðaheitin voru vissulega þekkt fyrr en hingað bárust þau með þýskum og dönskum ritum en margar Evrópuþjóðir fóru að nota þau heiti í kringum árið 1000. Íslensku almenningur notaði hins vegar fornu mánaðarnöfnin en menntamenn þekktu hin og notuðu þau stundum í skrifum. Orðið á uppruna sinn í latneska nafnorðinu, Jānuārius, en það er dregið af Janus.
Hver var Janus?
Rómverjar trúðu á marga guði sem sátu á Ólympstindi og horfðu niður í mannheima. Einn þeirra var Jānus. Hann var guð opnana, dyraopa, hliða, byrjunar, sólarupprásar og sólarlags. Hann var einnig guð breytinga. Nafn hans er dregið af latneska orðinu jānus sem þýðir, dyraop, bogahlið eða súlnagöng. Í latínu er orðið jānua, náskylt en það þýðir, dyr, dyraop eða inngangur. Af því er einnig dregið í ensku orðið janitor sem þýddi til að byrja með dyravörður en síðar þróaðist það út í að vera aðallega notað um húsverði eða umsjónarmenn bygginga. Í Róm til forna voru einnig ótal hlið og inngangar að opinberum byggingum. Víða voru hlið sem hermenn einir gengu um þegar þeir voru sendir af stað í leiðangra.
Eftir árið 153 fyrir Krist varð janúar opinberlega fyrsti mánuður ársins. Sagt var að almanakið hafi verið fundið upp af Rómúlusi, fyrsta konungi Rómar en hann ríkti frá árin 753 fyrir Krist. Hann raðaði mánuðunum niður eftir kvartilaskiptum tunglsins en í hans almanaki voru tólf mánuðir en aðeins tíu þeirra nefndir. Þegar að því koma að gefa þeim báðum nafn þótti við hæfi að kenna þennan fyrsta mánuð við Janus. Hann var fullkomið tákn fyrir nýtt upphaf en jafnframt hvatti hann til að menn horfðu til fortíðar um leið og framtíðin var skipulögð.
Tvöfaldur í roðinu
Íslendingar eiga orðtakið að vera tvöfaldur í roðinu um þann eða þá sem eru svikulir. Í ensku merkir að vera, Janus-faced, svipað. Þar er verið að vísa til einhvers sem er mislyndur eða fláráður. Sama merking og í hugtakinu two-faced. Tvöfeldni er einnig mjög tengd við guðinn Janus. Hann var jú, alltaf aðeins hálfur til staðar í núinu. Horfði í augu viðmælenda sinna en jafnframt aftur og gat þá gripið tækifæri er þar buðust eða séð að best væri að halda áfram.
Tímamót í janúar
Íslendingar fagna áramótunum yfirleitt með látum. Fyrsti janúar er hins vegar yfirleitt rólegheita dagur. Þann 6. janúar hefst svo fögnuður að nýju en þá eru jólin kvödd. Þrettándinn er töfradagur og álfakóngur og drottning hans heimsækja gjarnan brennur og ýmsar töfraverur eru á sveimi. Þótt ekki sé jafnmikill fjöldi flugelda á himni er þeim engu að síður skotið á loft þennan dag. Þorri gengur svo í garð á bilinu 19.-25. janúar og þá bera menn á borð súrmat, harðfisk og hangikjöt að þjóðlegum sið og halda þannig gömlum mánaðarheitum lifandi.
Það má nefna að frá árinu 1986 hafa Bandaríkjamenn kosið að minnast Martins Luthers Kings þriðja mánudag í janúar ár hvert. Að þessu sinni er það 20. janúar. Þá nálgast einnig að skipti um stjörnumerki því þann 19. janúar tekur tími steingeita enda og vatnsberamánuðurinn tekur við.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.