Amma gerir upp á milli barnabarnanna

Það eru áreiðanlega margir afar og margar ömmur sem velta fyrir sér hvort það sé best að koma eins fram við öll barnabörnin. Vera jafn mikið með þeim öllum og gefa þeim alltaf svipaðar gjafir. Á vefsíðu danska Ríkisútvarpsins spyr móðir sem á sex ára dóttur, hvað hún eigi að gera þar sem amma dótturinnar geri mikið uppá milli barnabarnanna sinna. Hún hafi reynt að ræða það við hana, en það hafi ekki skilað neinum árangri. Þannig væri amman miklu meira að passa lítinn ömmustrák og í mun meira sambandi við hann, er hina sex ára gömlu dóttur hennar. Síðasta aðfangadagskvöld hefði verið óvenju slæmt. „Hún er farin að taka eftir þessu sjálf og hvað á ég að segja við hana?“ spyr móðirin, Elsu Guldager heilbrigðisfræðing sem svarar spurningum hlustenda hjá DR.

Hefur verið meira hjá ömmu og afa

Móðirin fékk það svar að hún ætti að útskýra fyrir dótturinni að litli frændinn hefði verið mun meira hjá ömmu og afa en hún, þannig að þau þekktust betur og væru nánari. Þar sem þær mæðgur hefðu ekki verið jafn mikið hjá þeim, hefðu þær ekki sama samband við þau. Það væri bara misjafnt hversu náið fólk væri hvert öðru.

Styrktu sambandið við foreldra þína

Elsa veltir því líka fyrir sér í svarinu, hvernig sambandi móðurinnar við eigin foreldra sé háttað. Getur hún til dæmis rætt þetta betur við móður sína og sagt henni að hún taki það nærri sér að hún mismundi barnabörnunum? Hún segist telja samband hennar við foreldra sína lykilinn að því hvernig hlutirnir virki þeirra á milli. „ Ef þú vilt að foreldrar þínir hugsi meira um þig og þína dóttur, þurfið þið að vera meira saman, þannig að sambandið þróist. Það snýst ekki bara um jólin, heldur tímann frá nýársdegi og fram að jólum“, segir hún.

Þurfið að hittast oftar

Elsa segir að vilji móðirin að dóttir hennar eyði meiri tíma með ömmu og afa, þurfi að styrkja sambandið milli þeirra. Það sé hægt að gera með því að hún hitti þau stundum á virkum dögum, eða að afi og amma sæki hana í leikskólann og að hún fái stöku sinnum að gista hjá þeim um helgar. Það sé líka hægt að skiptast meira á heimsóknum milli heimilanna. „Ef þið umgangist meira, verður kanski léttara fyrir þig að segja mömmu þinni, hvernig þú upplifir hlutina og heyra hvað henni finnst. Kannski breytist sambandið og þá þarf ekki að dvelja við það sem liðið er. Þá verður kannski líka hægt að skipuleggja aðfangadagskvöldið þannig, að það verði ánægjulegt og friðsælt fyrir alla“.

 

Ritstjórn mars 16, 2016 11:50