Græjur, peningar og ferðalög

Margir eru á leið í fermingarveislur og velta fyrir sér hvað eigi að gefa börnunum í fermingargjöf. Lifðu núna heyrði í ömmum og öfum og tveimur kennurum, um það sem hægt er að gefa í fermingargjafir þetta árið. Það fer svolítið eftir áhugamálum fermingarbarnanna, hvað menn vilja gefa þeim. Ein amma stakk uppá fermingarúri, eða áritðari Biblíu en fékk að heyra að börnin í dag notuðu ekki úr, heldur síma, og væru ekki mikið fyrir að lesa bækur. Þá væri betra að gefa eigulegar útivistar“græjur“ eins og svefnpoka eða bakpola. Trúlega er þetta nú samt mismunandi. Lausleg könnun og allsendis óvísindaleg, meðal svolítils hóps fermingarbarna í grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu leiddi í ljós að það voru ýmiss konar tæki, sem trónuðu ofarlega á óskalistanum hjá þeim.

Þetta voru: Iphone, fartölvur, flatskjáir, MacPro og hátalarar. En einnig rúm, peningar og ferðalög. Fótboltaferðir voru meðal annars tilgreindar. Það er ljóst að þessir hlutir kosta mikla peninga og skynsamlegt fyrir fólk í fjölskyldum að leggja saman til að uppfylla helstu óskir fermingarbarnanna. „Þau vilja helst peninga, þá geta þau ákveðið gjöfina sjálf“, sagði kennari sem við ræddum við og taldi að 10.000 krónur væri upphæðin í ár. Amma sem við töluðum við sagðist hafa gefið barnabörnunum sínum helgarferð til Kaupmannahafnar í fermingargjöf.

En það er ástæða til að velta fermingargjöfunum vel fyrir sér og Valgerður Magnúsdóttir, sálfræðingur og amma skrifaði þessa grein hér um fermingargjafir í fyrra. Það verður ekki annað séð en að hún sé enn í fullu gildi.

 

Ritstjórn mars 21, 2016 10:37