Jú, það er vel hægt að lofa Rósagarði

Lynn Anderson söng I Beg Your Pardon, I Never Promised You a Rosegarden, árið 1967 og sló eftirminnilega í gegn. Þetta lag heyrist enn reglulega spilað og menn grípa einnig gjarnan til textans þegar þeir vilja minna á að lífið er sannarlega enginn dans á rósum og að engu er hægt að lofa um hamingju þótt ástin sé heit. En í Kópavogi leynist dásamleg perla, garður fullur af litríkum rósum sem blómstra og gleðja augu þeirra sem þarna fara um. Rósagarðurinn er hluti af trjásafninu í Meltungu en það er staðsett austarlega í Fossvogsdal. Garðurinn er samstarfsverkefni Kópavogsbæjar og Garðyrkjufélags Íslands og var gerður árið 2016. Upphaflega plöntuðu menn þar eingöngu norrænum rósayrkjum en svo var haldið áfram og nú er þarna að finna rósir frá Kanada og víðar. Þær blómstra á mismunandi tímum svo fjölbreytni garðsins er mikil en einmitt núna er hann einstaklega fallegur því allar rósirnar bera blóm.