Að láta drauminn rætast

Þráinn Þorvaldsson

Þráinn Þorvaldsson fyrrverandi framkvæmdastjóri skrifar

Flestir eiga sér drauma, sumir stóra og aðrir smáa. Þessir draumar verða ekki allir að veruleika en sjaldan er of seint að láta þá rætast ef vilji og tækifæri eru fyrir hendi. Ég er svo lánsamur að hafa látið 60 ára draum rætast. Árin sem ég var 12 til 14 ára hafði ég mikinn áhuga á lestri bóka um Egyptaland og sérstaklega píramídana. Bækur eins og Formar grafir og fræðimenn, Grafir og grónar rústir og Spádómur píramídans mikla voru mér hugleiknar. Á þessum árum dreymdi mig um að fara til Egyptalands, skoða fornminjar og sérstaklega að skoða Píramídann mikla. 60 ár liðu þar til draumurinn rættist í nóvember s.l.. Stundin var stór þegar við hjónin ásamt ferðafélögunum okkar gengum inn í Píramídann mikla, fikruðum okkur upp göngin inn í hann miðjan, stóðum inni í Konungsklefanum og skoðuðum kistuna sem þar er.

Ferðin var skipulögð af ferðaskrifstofunni Farvel og fararstjóri var Reynir Harðarson, sem hefur kynnt sér Egyptaland og forna menningu þess í 30 ár. Ferðin var afar vel skipulögð og í raun ótrúlegt hvað okkur gafst tækifæri til að skoða margt á þeim 10 dögum sem við dvöldum og ferðuðumst um Egyptaland. Reynir fararstjóri var frábær með sína yfirgripsmiklu þekkingu á Egyptalandi og létta lund. 20 manna ferðahópurinn náði afar vel saman. Tveir afar fróðir egypskir leiðsögumenn fylgdu hópnum, annar í Kaíró og hinn í suður Egyptalandi. Við dvöldum fyrst á hóteli í Giza og píramídarnir blöstu við út um hótelgluggann þegar við vöknuðum fyrsta morguninn. Við skoðuðum Þrepa-, Bogna- og Rauða píramídann fyrsta daginn. Á öðrum degi rættist draumurinn minn þegar við skoðuðum  Píramídann mikla og sólarbátinn. Stórkostlegt var að ganga að  Sfinxinum. Á þriðja degi flugum við til Aswan, skoðuðum stífluna miklu og grjótnámuna þar sem granít björgin voru tekin. Við sigldum á litlum báti á Níl og heimsóttum þorp Núbíumanna, sem er þjóðflokkur dökkur á hörund sem fluttur var af Azwan svæðinu þegar það fór undir vatn. Við skoðuðum hið óviðjafnanlega hof Abu Simbel. Við sigldum niður Níl á hótelskipi  að Kom Ombo og Edfu hofunum og dvöldum síðan í Luxor. Við skoðuðum Konungadalinn, Karnakhofið, musteri Hatshepsut og Luxorhofið. Síðan flugum við aftur til Kaíró, skoðuðum moskur og markaði. Á síðasta degi  var Þjóðminjasafn Egypta skoðað svo eitthvað sé nefnt af því sem við sáum. Eftir að ég kom heim var hugurinn enn lengi bundinn við Egyptaland. Sá fjöldi mynda sem ég tók og er enn að grisja gerir mér fært að endurlifa ferðina.

Framhlið Abu Simble hofsins sem byggt var fyrir um 3.200 árum

Hvað bar svo hæst eftir svona ferð? Ótrúlegt var að fá tækifæri til þess að sjá með eigin augum þessar mörg þúsund ára byggingar sem búa yfir miklum leyndardómum. Hvaða verkmenning gerði mögulegt að byggja þær, píramída, hof og styttur? Þúsund ára verkmenning sem hefur týnst. Nútímatækni getur ekki útskýrt eða unnið sambærileg verk.  Við kunnum ekki lengur á tæki og tól sem nú eru tæknilega úrelt eftir fáa áratugi hvað þá heldur að þúsund árum liðnum. Egyptar voru mikil skráningarþjóð og allt var skráð en engar heimildir voru þó skráðar um byggingartækni píramída, hofa og stytta. Etv. var verið að varðveita tæknileg framleiðsluleyndarmál.

Hámark ferðarinnar var skoðun á píramídunum. Sérstök tilfinning var að fikra sig upp göngin að Konungsklefanum (King´s Chamber) í miðjum Píramídanum mikla, sem er einnig þekktur sem Khufu  (eða Keops) píramídinn. Talið er að hann, sem er stærstur píramídanna þriggja í Giza, hafi verið byggður á um 20 árum og lokið hafi verið við hann um 2560 fyrir Kristburð eða fyrir um 4500 árum. Hann var upprunalega  146m hár og var hæsta bygging í heimi í 3800 ár. Píramídinn var eitt af 7 undrum veraldar í fornöld og er það eina sem eftir stendur af þeim.  Margir útreikningar hafa verið gerðir og áætlað hefur verið að 2.3 milljón steinblokkir hafi þurft til þess að byggja píramídann og ef 20 ár hefur tekið að byggja hann hefði þurft að flytja að meðaltali 12 steinblokkir að píramídanum á hverri klukkustund eða fimmtu hverja mínútu dag og nótt. Talið er að 5.5 milljón tonn af kalksteini, 8.000 tonn af graníti, flutt á bátum 800 km leið frá Aswan að þyngd allt að 70 tonnum, og 500.000 tonn af fínni kalksteini í klæðninguna hafi þurft til þess að byggja Píramídann mikla. Nákvæmni í mótun steinanna var ótrúleg. Konungsklefinn er til dæmis allur úr slípuðuð graníti svo fellt saman að ég gat ekki sett nögl á milli steina.

Mikið skipulag hefur þurft. Misskilningur er að píramídarnir hafi verið byggðir af þrælum. Slík goðsögn er komin úr bandarískum kvikmyndum. Um 20.000 verkamenn eru taldir hafa unnið að byggingunni á hverjum degi. Rústir af íbúðabyggðum vinnufólks, sem kom víðsvegar af landinu hafa fundist. Mikil áhersla var lögð á heilbrigði verkafólks því auðvelt er að ímynda sér að veikindi og slys verkamanna hefðu ruglað allt skipulag. Í Egyptalandi eru 107 píramídar en Giza píramídarnir eru þekktastir. Arkitekt Píramídans mikla var Hemiunu. sem hefur verið algjör snillingur ekki aðeins byggingarmeistari heldur einnig stjarnfræðingur því staðsetning og margt í Píramídanum vísar til stöðu stjarna. Píramídinn mikli var ekki fyrsta tilraunin til að byggja píramída heldur afrakstur 100 ára reynslu og mistaka. Margar kenningar eru um tilgang byggingar píramídanna, algengust er sú að Píramídinn mikli hafi verið gröf Kufusar farós. Grafir hafa verið rændar en engar múmíur hafa fundist í píramídunum gagnstætt því sem var raunin í Konungadalnum. Skemmtilegasta kenningin sem ég hef lesið er að píramídarnir hafi verið orkustöð á framleiðslu á því sem nú á tímum er kallað rafmagn.

Ógleymanlegt var síðan að ganga að Sfinxinum, sem er örstutt frá píramídunum. Sfinxinn er helsta tákn Egyptalands. Hann er höggvinn úr einu bjargi og um aldur hans er ekki vitað. Sfinxinn er um 20 metra hár og ég hafði ímyndað hann mér stærri. Mér fannst Sfinxinn lítill við hliðina á píramídunum.

Mér fannst mikið til um að skoða námurnar í Aswan en þaðan kom granítið sem fór í píramídana, 800 km leið á bátum á Níl. Þar mátti sjá hvernig björgin voru klofin. För í steininn voru líkt og skafið hafi verið í mjúkan leir. Skemmtilegasta kenningin sem ég hef séð er að á þessum tíma hafi verið til tækni þar sem vökvi úr jurtum gerði kleift að mýkja steininn og auðvelda vinnslu hans. Svo eru kenningarnar um hvernig þungu björgin voru flutt. Í námunni er ófullgerða nálin sem átti að flytja til Luxor. Hún er talin 1.2 þúsund tonn. Ein nýstárlegasta kenningin sem ég hef lesið er að á þessum tíma hafi hafi verið til tækni þar sem með ákveðnum tíðnihljóðum, bæði með röddum og hljóðfærum, var hægt að létta og lyfta björgunum. Þessa skýringu sel ég ekki dýrara en ég keypti hana.

Ógleymanlegt var að koma til Abu Simbel hofsins, sem lyft var upp úr lóninu sem myndaðist við stækkun Aswan stíflunnar.  Við þurftum að vakna kl. 3 um nóttina til þess að aka í 3 klukkutíma yfir eyðimörkina á 140 km hraða til þess að sjá hofið í morgunsólinni en framhlið hofsins snýr í austur. Hofið var byggt af Ramses II og skartar að framan, fjórum styttum af honum sjálfum. Eins og allt annað er hofið byggt af mikilli nákvæmni.  Tvisvar á ári falla sólageislarnir inn um aðalinnganginn og skína á 3 til 4 guðastyttur innst inni hofinu. Þetta gerðist í morgunskímu heimsóknardagsins.

Þá var ógleymanlegt að komast í Konungadalinn sem er skammt frá Luxor og og fara ofan í fjórar grafir en fundist hafa um 70 konungagrafir. Sú frægasta er gröf Tuankamun farós sem fannst órænd 1922 eftir 10 ára leit. Munir úr gröfinni eru á Egypska safninu í Kaíró. Fleiri grafir eru taldar vera ófundnar. Hvernig farið var að því að grafa sig niður í bergið með ófullkomnum verkfærum þess tíma er enn ráðgáta. Afar litskrúðugt myndmál skreytti veggi.

Veggristur af  4.700 ára gömlum skurðlækningatækjum. Fæðingarstóll til hliðar

Ótal margt bar fyrir augu og eyru sem ekki er tækifæri til þess að greina frá en einn þátt vil ég nefna að lokum. Í Kom Ombo hofinu fengum við frásögn af lækningum og lækningatólum fyrri tíma og þeim var lýst á veggmyndum. Forn Egyptar voru sérfræðingar í sáraumbúðum og þeir þekktu helstu einkenni sýkinga og bólu. Okkur var sagt frá því að áhöld notuð við við uppskurði hafi verið sótthreinsuð yfir eldi. Við sáum gervistórutá úr tré saumaða við fót á safninu í Karíró.

Egyptalandsferðin var stórkostleg og ein eftirminnilegasta utanlandsferð ævi minnar. Nú sé ég víða píramída. Eru Keilir á Reykjanesi og Baula í Borgarfirði ekki leyndir píramídar! Ég er snortinn að hafa haft tækifæri til þess að láta 60 ára draum minn rætast. Ég er líka hugfanginn að hafa fengið tækifæri til þess að kynnast í návígi þessari fornu menningu Egypta.  Bóklestur um Egyptaland til forna er nú hafinn að nýju. Boðskapur ferðarinnar er að aldrei sé of seint að láta drauma sína rætast. Hvernig væri að helga áramótaheitið draumi sem hefur ekki hefur enn orðið að veruleika?

 

 

Ritstjórn desember 25, 2018 10:45