Kennir mongólskan barkasöng

Tónlistarmaðurinn Khairkhan mætir á Borgarbókasafnið Grófinni sunnudaginn 1. febrúar klukkan 13:00 þar sem hann mun segja frá og leika á þjóðleg hljóðfæri og syngja mongólskan barkasöng.

Khairkhan er tónlistarmaður frá austurhluta Innri-Mongólíu, af Khorqin-ættbálknum, en er nú búsettur í Reykjavík. Hann ólst upp í hinu fræga Khorchin-graslendi sem ríkt er af þjóðlagatónlist og sögum og er tónlistin sem hann flytur að mestu frá því héraði.

Sunnudaginn 1. febrúar ætlar þessi áhugaverði tónlistarmaður að spilar fyrir gesti og gangandi á Borgarbókasafninu Grófinni og sýna og segja frá þjóðlegum mongólskum hljóðfærum, ásamt því að kenna áhugasömum grunnatriði í mongólskum barkasöng.

Khairkhan leggur áherslu á hefðbundin mongólsk hljóðfæri, en einnig fyrrnefndan söng, sem er eitt af hans aðalsmerkjum. Hann er að eigin sögn hirðingi 21. aldarinnar, búsettur í borginni, og er um þessar mundir að vinna að eigin tónlist, sem sækir einmitt í mongólsku þjóðlagahefðina, en þó með nútímalegum blæ.

Nánari upplýsingar á heimasíðu Borgarbókasafnsins:

www.borgarbokasafn.is