Kl. 14.03  

Sigrún Stefánsdóttir

Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar

Við vöknuðum allt of snemma í morgun í byrjun fjórðu viku sjálfskipaðrar einangrunar. Sem betur fer eru páskarnir afstaðnir þannig að maður þarf ekki lengur að vera gleðilegur heimilsfangi heldur bara venjulegur heimilisfangi. Nokkrir kaflar í bókunum á náttborðunum voru lagðir að velli fyrir fótaferð til þess að eyða tveimur tímum eða svo í bland við fréttatíma á klukkutíma fresti. En þá komu slæmu tíðindin í níu-fréttunum. Það verður enginn útsending kl. 14.03 í dag, því yfirvöld ætla að halda blaðamannafund í hádeginu.

Umræðuefnið yfir morgunverðinum var það hvað við erum orðin háð fundunum kl. 14.03. Allur dagurinn er skipulagður í kringum útsendinguna  úr Skógarhlíðinni. Það er spenna í kringum hverja útsendingu. Í hvernig blússu verður Alma í dag, brosir Þórólfur og hvort fáum við skammir eða hrós frá Víði. Hver verður leynigesturinn? Og síðast en ekki síst er alltaf æsispennandi að fylgjast með hve oft blaðamennirnir spyrja sömu spurninganna, sem Þórólfur vill ekki svara. Klukkan 14.00 erum við sest í sófann, sprittuð með ferköntuðu augu. Sambýlingurinn er með stóra skál fulla af heitum, nýelduðum hafragraut í kjöltunni með rabbabarasultu og smjöri út á að norskum sið. Tíðinda dagsins beðið.

Klukkan 14.40 er svo hægt að snúa sér að bíómynd á Bíórás Stöðvar tvö og að henni lokinni er skyldugangan á dagskrá. Átta kílómetrar í logni og á malbiki, sex í roki og hálku. Þegar því er lokið er kominn tími til þess að leggja á borð í stofunni, kveikja á kertum og elda eitthvað gómsætt. Þá bíða norsku fréttirnar, fréttir Stöðvar 2 og Rúv. Svo býður stútfull sjónvarpsdagskrá á öllum stöðvum sem veldur valkvíða. Og enn einn dagurinn í heimilisfangelsinu er búinn!

Þetta hljómar hreint ekki svo illa. En það eru gallar á gjöf Njarðar. Ég er að verða svo andlaus og löt. Á fyrstu dögunum fór ég í nokkra skápa en nú hef ég mig ekki í að taka til í minnstu skúffu hvað þá meira. Þetta ástand dregur úr mér orkuna og kraftinn til að skipuleggja fram í tímann. Maður veit ekkert og hvers vegna að eyða tíma í að skipuleggja og undirbúa það sem kannski verður ekki? Ég veit að ég má ekki hugsa svona en ég held að ég sé ekki ein með þennan kvilla. Þess vegna skora ég á þríeykið góða að koma fljótlega með leynigest sem getur gefið okkur óbreyttum góð ráð um hvernig við komum okkur aftur andlega í gang  þegar þar að kemur – hvenær sem það svo verður.

 

 

 

 

 

 

 

Sigrún Stefánsdóttir apríl 14, 2020 18:47