Tölva deyr

Sigrún Stefánsdóttir

Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar

Tölvan er sennilega það tæki sem mörg okkar erum í hvað  nánastri snertingu við. Fingurnir dansa á lyklaborðinu dag eftir dag, ár eftir ár. Að lokum kemst maður í einhvers konar tilfinningasamband við tölvuna. Ég hef aldrei látið það hvarfla að mér að þessi tengsl væru gagnkvæm, enda trúi ég ekki á að tæki búi yfir slíkum eiginleikum. Þessi hugsun kom þó upp í hugann  þegar umrædd tölva fylltist af óhróðri á dögunum í garð eigandans. Hún slökkti  hreinlega á sér og vaknaði ekki aftur. Dauð tölva er afar dauð! Sennilega var hún södd lífdaga. En hún lést fyrir aldur fram, aðeins fjögurra ára gömul.

Það er áfall að missa tölvuna sína, bæði fjárhagslega en ekki síður vegna þeirra sambandsslita við umheiminn sem þetta hefur í för með sér.Tölvupóstur, zoomfundir, canvas verkefni og daglegar heimsóknir á fréttaveitur og til vinahópa, að óleymdum reikningunum sem þarf að ganga frá. Maður missir sjálfsöryggið og verður stressaður, sérstaklega þegar löng páskahelgi er framundan.

Fámál með tölvuna í örmunum eins og hún væri sjúkt barn fór ég í tölvufyrirtæki bænum. Gríman var sett upp og eftir nokkrar umræður var ákveðið að það borgaði sig ekki að senda tölvuna í frekari rannsóknir. Hvernig tölvu viltu? Mér er alveg sama. Hvernig tölvu myndi þú ráðleggja mömmu þinni að kaupa eða ömmu þinni? Nei, ekki þessa. Hún er of klunnaleg. Nei, ekki þessa. Ég verð að hafa snertiskjá. Niðurstaða komst í málið og reikningurinn greiddur. Það var eins gott að ég var ekki á leiðinni til Teneriffe um þessi mánaðarmót!

En hvað svo? Þá er ég eiginlega komin að kjarnanum góða. Afgreiðslumaðurinn spyr hvort hann geti gert eitthvað fleira fyrir mig og svarið var já. Hvernig fæ ég nýja tölvu til þess að vinna fyrir mig? Hvar er allur tölvupósturinn minn? Hvernig fæ ég inn Zoom? Hvernig.. hvernig.. hvernig? Ungi maðurinn horfði rólega á mig og sagði að við skyldum fara aðeins til hliðar og finna út úr þessu. Með fimum höndum dró hann inn allt sem ég þurfti. Þegar því var lokið sagði hann að þeir lokuðu fyrst kl. 18.00 ef eitthvað væri og svo væri opið á laugardag. Við kvöddumst með virktum. Ég hef ekki séð hann síðan og nú er ég að skrifa minn fyrsta pistil á nýju tölvuna mína.

Það er ómetanlegt að fá slíka hjálp frá tölvukynslóðinni. Það getur verið svo auðmýkjandi að þurfa að betla aðstoð við eitthvað sem þeirri kynslóð þykir sjálfsögð kunnátta. Þessi ungi maður fær 10 af 10 mögulegum fyrir framkomu og þjónustu. Slíkt gleymist ekki hjá konu sem vann á ritvél í upphafi starfsferilsins. Svo er það spurningin um tilfinningatengslin og hvaða siðferðilega standard nýja tölvan býr yfir. Það kemur bara í ljós. Vonandi þolir hún sitt lítið af hverju.

Sigrún Stefánsdóttir apríl 11, 2021 19:46