Kona á undan sinni samtíð

Inga Dóra Björnsdóttir

Dr. Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur skrifar

Ég hóf nám í Menntaskólanum við Hamrahlíð á hinu róstursama ári 1968. Þetta var þriðja starfsár skólans. Í landinu voru fyrir þrír menntaskólar, Menntaskólinn í Reykjavík, Menntaskólinn á Akureyri og Menntaskólinn á Laugarvatni. Menntaskólinn í Hamrahlíð var boðberi nýrra tíma í menntamálum og til skólans flykktust hámenntaðir, framsæknir kennarar. Það væri of langt mál að telja  alla þessu frábæru kennara upp hér, en nefna má tvo, sem síðar urðu þjóðfrægir: Vigdísi Finnbogadóttur frönsku kennara, sem var fyrsta konan sem settist í forsetastól á Íslandi og Jón Böðvarson bókmennta/íslenskufræðingur.

Mér brá í brún þegar ég mætti fyrsta daginn í skólanum og sá á stundartöflunni, að við ættum að vera í vélritun einu sinni í viku. Vélritun! Ég var ekki komin í menntaskóla til að verða ritari!  En ég var þó fljót að skipta um skoðun, og í raun hefur fátt gagnast mér jafn vel af því, sem ég lærði í menntaskóla, en að geta farið leiknum fingrum um lyklaborð tölvunnar minnar!

En það var annað sem skipti sköpum: Vélritunarkennarinn var svo heillandi. Hún var fremur lágvaxin og nett, fríð yfirlitum með stríðnisglampa í augum og tvírætt bros á vör. Það geislaði af henni og hún hafði greinilega mjög gaman að því að vera innan um ungt fólk og allt sem hún sagði var svo áhugavert. Reyndin varð líka sú, að enginn af kennurum mínum í MH hafði jafn djúp og varanleg áhrif á mig og vélritunarkennarinn. Það gerðist reyndar ekki í skólastofunni, heldur í stássstofunni hennar á heimili hennar og dóttur hennar, sem var um tíma bekkjasystir mín í MH, vestur í bæ. Þannig vildi til að þær bjuggu í húsi við hliðina á húsi móðurforeldra minna og eitt sinn freistaðist ég til að banka upp hjá þeim mæðgum eftir heimsókn til afa og ömmu. Mér var tekið með kostum og kynjum og upp frá því varð ég fastagestur á heimili þeirra mæðgna, þar til ég fór utan eftir stúdentspróf, haustið 1972. Samræður við vélritunarkennarann urðu mér ógleymanlegar, enginn hafði talað við mig á þeim nótum, sem hún gerði og ætla ég tæpa hér á þrennu sem hún talaði um við mig.

Vélritunarkennarinn var tvígift og tvífráskilin, en á þessum tíma fylgdi því mikil skömm að skilja, og eins og dóttir hennar sagði nýlega frá, þá fékk hún oft að finna fyrir því að vera barn einstæðrar móður. Á þessum tíma áttu karlar fremur en konur frumkvæði að skilnuðum. Fjárhagsleg og félagsleg staða flestra kvenna var svo veik, að konur létu sig hafa það að þrauka  í slæmum hjónaböndum. En það gerði vélritunarkennarinn ekki. Hún hafði átt frumkvæðið að fyrri skilnaði sínum. Hún sagði mér, að fyrri maður sinn hafi verið stóra ástin í lífi hennar, hann hafi verið vel gefinn, vel gerður og ákaflega skemmtilegur maður. En sá ljóður var á ráði hans að honum fannst sopinn góður. Ég gleymi aldrei þegar hún horfið beint í augun á mér og sagði með festu: “Inga, ef þú einhvern tímann giftist manni, sem lætur flöskuna ganga fyrir öllu, þá áttu strax að gera hreint fyrir þínum dyrum og skilja við hann. Lífið er of dýrmætt til að eyða því með drykkfelldum manni.” Svo mörg voru þau orð!

Vélritunarkennarinn var líka fyrsta mannenskja sem ég heyrði tala af alvöru um samkynhneigð. Hún hélt því óhikað fram að samkynhneigð væri meðfædd og samkynhneigt fólk ætti að fá að lifa samkvæmt tilfinningum sínum og þrám. Að þurfa að vera í felum með kynhneigð sína og þurfa að bæla hana niður hefði ekki aðeins slæm áhrif á líf samkynhneigðra einstaklinga, heldur líka á líf þeirra nánustu. Samkynhneigðir gengju oft í hjónaband, sagði hún, til að hylma yfir hið sanna, og gat það haft mjög alvarlegar afleiðingar. Hún sagðist hafa átt góða vinkonu, sem hafði verið gift samkynhneigðum manni og hafði hjónband þeirra endað með ósköpum.

Vélritunarkennarinn var líka fyrst allra, til að ræða við mig um það sem í dag er kallað kynferðislegt áreiti, hugtak sem komst í umferð all löngu síðar. Hún sagði mér frá því, að hún hefði sem unga kona unnið sem ritari hjá stóru, virtu fyrirtæki í Reykjavík. Forstjórinn, harðgiftur maður, var vel látinn og vinsæll meðal starfsmanna sinna. Ekki löngu eftir að hún byrjaði að vinna þar, hóf stórglæsileg ung stúlka að vinna hjá fyrirtækinu. Forstjórinn fékk fljótt augastað á stúlkunni og lét hana ekki í friði. Lengi vel sagði stúlkan ekkert, en svo kom að því að hún gat ekki meir og kvartaði undan framferði forstjórans við yfirmann sinn. Viðbrögð hans eru velþekkt og fyrirsjáanleg: Hann sakaði stúlkuna um að hafa forstjórann fyrir rangri sök. Hann hélt því fram að framkoma forstjórans í garð starfsmanna sinna væri, og hefði alltaf verið, í alla staði til fyrirmyndar. Máli sínu til frekari stuðnings hóf hann að safna undirskriftum meðal starfsfólks fyrirtækisins, þar sem staðfest var að orð hans um sakleysi forstjórans væru sönn. Allir starfsmennirnir skrifuðu undir skjalið, allir nema vélritunarkennarinn. Hún hafði margoft orðið vitni að ósæmilegri framkomu forstjórans gagnvart stúlkunni og gat alls ekki samvisku sinnar vegna, skrifað undir skjalið. Leikar fóru að vonum þanning, að bæði hún og unga stúlkan, misstu vinnuna og forstjórinn hélt reisn sinni, æru og starfi.

Í kjölfar tilkomu kvennahreyfingarinnar á Íslandi í upphafi sjöunda áratugarins fóru viðhorf fólks í garð hjónaskilnaða að breytast. Þó flestum sé ljóst, að hjónaskilnaðir geta verið erfiðir, þá þykir flestum það nú rétt ákvörðum, að skilja ef hjónabandið gengur ekki. Það fylgir því enginn skömm lengur að vera fráskilin.

Samtök samkynhneigðra karla og kvenna á Íslandi voru stofnuð árið 1978, einum tíu árum eftir að samtal mitt og vélritunarkennarans átti sér stað. Viðbrögð almennings á Íslandi við stofnun Samtakanna 78 eru vel þekkt. Einn af forystumönnum hreyfingarinnar, hinn þjóðþekkti og vinsæli leikari og vísnasöngvari Hörður Torafason, varð fyrir svo miklu aðkasti (hann var án efa ekki einn um það) að hann sá sitt ráð vænst að flýja land og setjast að í Kaupmannahöfn. Í dag eru viðhorf til samkynhneigðra á Íslandi auðvitað gjörbreytt, og fjöldi Íslendinga tekur nú þátt í hinni árlegu hátíð samkynhneigðra og transfólks, Hinsegins Daga og Gleðigöngunni.

Baráttan gegn kynferðislegu áreiti og kynferðislegu ofbeldi gagnvart konum og körlum, hefur gengið nokkuð hægar, en baráttan fyrir skilnuðum og réttindum samkynhneigðra.  Í kjölfar tilkomu kvennahreyfingarinnar á Íslandi á sjöunda áratugnum var Kvennaathvarfið stofnað. Þangað geta konur, sem verða fyrir heimilsofbeldi, leitað skjóls fyrir sig og börn sín. Stígamót voru líka sett á stofn, en þangað geta einstaklingar leitað sér stuðnings og ráðgjafar eftir að hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi (nauðgun.)  En konum veitist oft erfitt að sanna sitt mál, hvað kynferðislegt áreiti varðar og var það ekki fyrr en #MeToo hreyfingin komst á flug árið 2017, sem konur fengu fyrst verulegan meðbyr og byrjað var að taka orð þeirra um áreiti trúanleg. Þó er enn á brattan að sækja og enn heyrast sögur af konum, sem eru látnar víkja úr starfi eftir að hafa kært samstarfsmenn sína eða yfirmenn fyrir kynferðislega áreitni, rétt eins og unga stúlkan, sem vann með vélritunarkennaranum, var látin gera, en það eru yfir sjötíu ár liðin síðan það gerðist!

 

Inga Dóra Björnsdóttir desember 9, 2019 06:49