Af flórgoðum, fýlum og æðarkollum í ástandinu

Inga Dóra Björnsdóttir

Dr Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur skrifar

Við eigum því láni að fanga að búa steinsnar frá náttúrufriðarsvæði, sem samanstendur af strönd og votlendi. Þar þrífst ótrúlega ríkt og fjölbreytt fuglalíf.  Nýlega sáum við þar fuglahjón á sundi á lóni með ungana sína, af gerð sem við könnuðumst ekki við.  Við tókum mynd af þeim og þegar heim kom, komust við að því, að þau voru “grebe” ættar eða goðaættar.

Í Bandaríkjunum eru fjórar tegundir fugla af f goðaættum, en á Íslandi er aðeins ein, flórgoði. Flórgoðinn er að mestu leyti farfugl og í bókinni Fuglar Íslands eftir Hjálmar R. Bárðarson, sem kom út árið 1986, segir að flórgoðinn verpi á Norð-Austurlandi, í Skagafirði, en stærsta varp hans er við Mývatn.

Flórgoðinn verpir við gróðursæl vötn og tjarnir og er hann eina fuglategundin á Íslandi, sem býr til svonefnt flothreiður. Það er fljótandi dyngja úr rotnandi vatnajurtum, sem er komið fyrir í þéttum vatnagróðursbreiðum, til dæmis hávöxum starargróðri. Undirlag dyngjunnar er lauslega fest við gróðurinn í kring, svo að hún berist ekki til, en geti þó lyfst eða sigið, þegar yfirborð vatnsins hækkar og lækkar. Þegar flórgoðinn yfirgefur hreiðrið breiðir hann hreiðurefni yfir eggin til að fela þau og halda þeim hlýjum. Það ríkir jafnrétti meðal flórgoðapara og skiptast foreldarnir á  að ala önn fyrir ungunum og fæða. Meðan ungarnir eru  litlir, synda foreldrarnir gjarnan með þá á bakinu.

Eftir að við höfðum kynnt okkur líf og hætti flórgoða, kíktum við á kaflann í bók Hjálmars um fýla. Þegar maðurinn minn var 9 ára gamall, dvaldi hann sumarlangt í sveit í Mýrdalnum og stundaði fýlaveiðar af miklum móð. Þar rotuðu þeir fýlinn með priki þegar hann var veiddur á  sandinum, en þegar þeir lögðu hann að velli í klettum eða opnum hellum, snéru þeir hann úr hálsliðnum. Það var mikilvægt að vera snöggur, því ef fýllinn náði að spýta lýsi til að verja sig, kom of mikið lýsisbragð af kjötinu.

Fýllinn var síðan saltaður niður í tunnur sem vetrarforði, en hann var líka matreiddur sem nýmeti, en þá varð, að sögn mannsins míns, að tyggja hvern bita aðeins tvisar til að forðast lýsisbragðið.

Fýll er úthafsfugl og er sérstaklega mikill og þolinn farfugl. Á 18. öld var aðeins getið um fýlavarp í Grímsey, en nú verpir hann allt umhverfis landið og, samkvæmt Hjálmari, er áætlað að nokkrar milljónir fýlapara verpi við Íslandsstrendur. Ein ástæðan fyrir fjölgun fýla er aukin fiskveiði við Ísland, en fýlinn nýtir sér vel úrgang, sem fellur frá fiskiskipum.

Fýllinn verpir aðeins einu eggi. Foreldrarnir liggja á egginu til skiptist, rétt eins og flórgoðinn, og mata ungann sinn í einn til tvo mánuði. Hálfmelt lýsismauk er fyrsta fæða ungans.

Fýlinn er þekktur fyrir það að spúa lýsi í varnarskyni á hvern þann, sem nálgast hann um of. Þegar lýsið lendir á fjöðrum fugla, límast þær saman og er nær ógerlegt að hreinsa lýsið burt og sum fórnarlömb þeirra lifa árásina ekki af.

Í lok bókar Hjálmars er listi yfir alla fugla, sem verptu á Íslandi árið 1986, en þeir voru þá um 85 talsins. Ég kannaðist við nöfn nær allra fuglanna, nema eins, en það var nafnið æðarkóngur. Það var kannski engin furða, því æðarkóngur er ekki íslenskur fugl, þeir æðarkóngar, sem finnast á Íslandi eru nær allir ættaðir frá Grænlandi.

Æðarkóngurinn er mun skrautlegri en íslenski æðarblikinn

Æðarkóngurinn er, eins og Hjálmar lýsir honum, lítið eitt minni en íslenski æðarblikinn, en hann er mun glæsilegri á að líta en hann. Hann skartar skrautlegum höfuðbúnaði, er með háan kamb eða “kórónu” á höfði og með litskrúðugt nef.

Æðarkóngurinn kemur til landsins gagngert í konuleit, einkum til Vestfjarða. Þegar hingað kemur stígur hann óspart í vænginn við íslenskar æðarkollur. Íslenskum æðarblikum til mikils ama, sigrar æðarkóngurinn oftar en ekki í samkeppninni um ástir æðarakollnanna, þó sumar æðarkollur séu fjöllyndar, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. – Kórónan og hið litskrúðuga nef gera gæfumuninn.

Þó æðarkollan íslenska og æðarkóngurinn séu ekki af sömu tegund, geta þau átt saman frjósamt afkvæmi, sem bera einkenni beggja foreldra.- Að öllum ólöstuðum, þá eru hin blönduðu afkvæmi þeirra mun skrautlegri, en afkvæmi íslenskra æðarblika og æðarkolla.

Ástandsunginn. Afkvæmi æðarkóngs og æðarkollu

Árið 1986, árið sem bók Hjálmars kom út, var ekki vitað til þess að æðardrottning hefði verpt á Íslandi.  – Æðarkóngarnir komu einir síns liðs til landsins í konuleit.

Vera má að þetta hafi breyst, og ef svo er, þá þurfa íslenskir æðarblikar kannski ekki lengur að keppa við erlendan fuglaher um athygli og ástir íslenskra æðarkolla.

 

 

 

Inga Dóra Björnsdóttir maí 18, 2020 06:41