Tíminn og við

Inga Dóra Björnsdóttir

Ég er að nálgast sjötugt og hef gert mér grein fyrir því, eins og allir sem eiga því láni að fagna að ná því að eldast, að nú er farið að styttast í endinn.  Í bjartsýni minni vona ég, að ég lifi það að verða níræð, en það eru rúmlega tuttugu ár í það. Tuttugu ár er dágóður tími, en þó aðeins brot af lífi mínu sem liðið er.

Þessi staðreynd hefur leitt til hugleiðbinga um hið merkilega fyrirbæri tímann. Um tímann, sem tekur okkur í fangið á því augnabliki sem við fæðumst og er tryggur förunautur okkar þar til við hverfum inn í tímaleysi eilífðarinnar.

Tíminn er marglyndur eins og við sjálf, og sambandið á milli okkar og hans er margslungið. Tíminn getur verið góður, hann getur líka verið okkur harður og vondur. Hann er stundum bjartur, en er stundum myrkur, rétt eins og hann er um þessar mundir. Hann getur verið okkur nægur eða naumur, skemmtilegur eða leiðinlegur. Stundum stendur hann kyrr eða er alltof lengi að líða. Svo getur hann liðið alltof hratt, og jafnvel flogið frá okkur. – Stundum er hann dýrmætur, stundum kallar hann á okkur til góðra verka. Hann býr líka yfir miklum lækningamætti, en tíminn, eins og við vitum öll, læknar öll sár.

Á móti gerum við ýmislegt við tímann. Við njótum hans og nýtum hann vel. En við förum líka stundum illa með hann, sóum honum, eyðum og töpum honum og týnum honum jafnvel.

Tíminn er nátengdur klukkum og úrum í huga okkar flestra, en það var í raun ekki fyrr en í kringum aldamótin nítjánhundruð, sem úr og klukkur leystu gang sólarinnar af hólmi, sem aðal tímamælar á Íslandi.

Úr og klukkur voru kjörgripir. Faðir minn sagði okkur oftar en einu sinni söguna af því, þegar veggklukka kom inn á æskuheimili hans í Skagafirði. Það var stór stund, sem greipti sig í minningu hans, en klukkan var mesti dýrgripurinn á heimilinu.

Mikilvægi klukkunnar í huga systkinana kom vel í ljós eftir að foreldrar þeirra létust og dánarbú þeirra var gert upp. Skiptin fóru friðsamlega fram þar til kom að klukkunni góðu, þá fór allt í háaloft.  Að lokum fór svo, óumflýjanlega, að ein systranna hlaut hnossið. Hvort hin systkinin hafi nokkurn tíman sætt sig að fullu við það, læt ég liggja milli hluta.

Þegar ég var að alast upp þá fengu flest fermingabörn armbandsúr frá foreldrum sínum í fermingargjöf. Úr voru dýr og fram að fermingu áttu fáir eða enginn krakki úr.  Við ferminguna komust börn í fullorðinna manna tölu og við þau tímamót vék frelsi og tímaleysi æskuáranna fyrir hinu reglubunda og agaða lífi fullorðisáranna. Og til að getað fótað sig í þessum nýja heimi þurfti auðvitað gott armbandsúr.

Fermingarúrið mitt var gyllt spangarúr, sem þá voru mikið í tísku. Það var lítið og fínlegt, skífan á úrinu var ferhyrnd ræma og í raun var ekki auðvelt fyrir mig að sjá hvað tímanum leið.  Strákar fengu karlmannsúr, breið með stórri skífu, sem gott var að sjá á.

Þessi mismunur á úrum kynjanna, lítil og nett kvenmannsúr á móti stórum og fyrirferðamiklum karlamannsúrum, vekja óumflýjanlega upp hugsanir um hin ólíku tengls kynjanna við tímann.

Tími karla, eins og rannsóknir hafa sýnt, hefur alltaf verið og er ennþá, meira metinn en tími kvenna. Giftar konur eyddu tíma sínum lengst af inni á heimilunum, þar sem þær unnu launalaust við að sinna búi og börnum, meðan eiginmaðurinn fékk laun fyrir tímann, sem hann eyddi  við vinnu.  Vinnukonur á bóndabæjum fengu lægri laun en vinnumenn, þó vinnudagur þeirra væri lengri en vinnudagur vinnumannanna. Þeir sinntu aðeins útiverkum, meðan vinnukonurnar unnu bæði inni og útiverk.

Enn þann dag í dag er tími kvenna minna metinn og konur fá enn mun lægri laun en karlar, jafnvel þær sem hafa sömu menntun og sinna samskonar störfum og karlar.

Rannsóknir hafa líka sýnt að við öll, bæði konur og karlar, eyðum meiri tíma í að hlusta á karla tala og tjá sig opinberlega, inn á heimilum og í samkvæmum, en við hlustum á konur.  Við eyðum meiri tíma í að hlusta á tónlist eftir karla, lesa bækur og greinar eftir karla, horfa á listaverk og kvikmyndir eftir karla og svona mætti lengi telja. – Það er því engin tilviljun að dýr karlmannsúr séu stöðutákn, en dýran tíma skal að sjálfsögðu mæla með tímamælum helst smíðuðum úr gulli, skreyttum gersemum.

Bernie Madoff, einn mesti fjársvikamaður sögunnar, hafði víst fáar aðrar ástríður fyrir utan það að græða peninga, en þá að safna dýrum armbandsúrum. Engan skyldi undra, því ekki eru margir karlmenn, sem hafa þegið jafn gott tímakaup og Bernie gerði þar til fjársvikamyllan hans var afhjúpuð.  Sagt er að í stofunni heima hjá honum hafi úrasafni hans verið haganlega fyrir komið og hann ku hafa unað sér löngum stundum við að skoða þetta einstaka úrasafn sitt.

Það vakti undrun og jafnvel reiði meðal sumra stuðningsmanna og aðdáenda Obama, þegar í ljós kom á mynd, að hann var með fimmþúsund dala úr. En við hverju er að búast? Tími eins valdamesta manns heims hlýtur að vera einn sá dýrmætasti í veröldinni og það væri ekki sæmandi að mæla þennan dýra tíma með ódýru Timex úri.

Talandi um Timex úr, þá ætla ég að lokum að segja hér litla sögu. Aldamótaárið 2000 fórum við fjölskyldan í hópferð til Kína. Í hópnum var, meðal annarra, hress og skemmtilegur dómari frá Suðurríkjunum. Þegar rútan stoppaði á ferðamannastöðunum, þyrpust jafnan að okkur sölumenn með alls kyns varning, þar á meðal sölumenn, sem seldu eftirlíkingar af Rolex úrum, sem fengust fyrir lítið verð.  Dómarinn góði keypti sér eitt slíkt og þegar hann gekk hróðugur um rútuna og sýndi okkur nýja Rolex úrið sitt, sagði hann okkur frá því, að hann hafði erft Rolex úr eftir föður sinn. – Honum til mikillar skelfingar týndi hann úrinu og þar sem hann hafði ekki efni á því að kaupa sér sams konar úr, hafði hann farið inn í næstu lágvöruverslun og keypt sér Timex úr.

Og viti menn, sagði hann hlæjandi, tíminn á Timex úrinu var sá sami og á Rolex úrinu dýra! – Nema hvað?

 

 

Inga Dóra Björnsdóttir apríl 13, 2020 12:15