Þrælahald og hið djúpa sár

Inga Dóra Björnsdóttir

Dr. Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur skrifar

Nýverið lauk ég við lestur bókarinnar “The Open Wound. Confessions of a Slaveholding Family” eftir  bandaríska heimspekinginn og unítaríaprestinn Kenneth W. Collier.

Kenneth W. Collier ólst upp í góðu yfirlæti í Baltimore í Maryland ríki, en foreldrar hans og forfeður höfðu alið allan sinn aldur í Suðurríkjum Bandaríkjanna.  Það var ekki fyrr en Kenneth var kominn á miðjan aldur, að hann komst að því að forfeður hans í báðar ættir höfðu stundað þrælahald allt frá því þrælahald hófst í Bandaríkjunum snemma á 17. öld þar til því lauk árið 1865. Foreldrar hans höfðu aldrei minnst á það við hann einu orði og enginn í stórfjölskyldunni, en þegar hann leit til baka minntist hann þess að hafa verið kynntur fyrir aldargamalli svertingjakonu á heimili langömmusystur sinnar, þegar að hann var fjögurra ára gamall. Þá varð honum ljóst að gamla konan hafði verið síðasti þrællinn í eigu fjölskyldunnar.

Uppgötvun Kenneth á hinni myrku hlið fjölskyldu sinnar hafði djúp áhrif á hann og hóf hann fljótt að rannsaka sögu hennar til að komast að hinu sanna í málinu.  Hann varð margs vísari og flest sem hann komst að, bar forfeðrum og formæðrum hans ekki fagurt vitni. Af mörgu er að taka, en hér mun ég aðeins nefna eitt.  Einn af forfeðrum hans í beinan karllegg kom mjög illa fram við þræla sína, svo illa að þrælarnir fylltust hatri í hans garð og þegar mælirinn var fullur, tóku þeir til sinna ráða og murkuðu lífið úr meistara sínum.  Þeir gerðu uppreisn, handtóku meistarann og pyntuðu hann í tvo daga og kyrktu hann loks. Þetta gerðu þrælarnir fullvitandi þess að það mundi kosta þá sjálfa lífið, en þeir vildu frekar deyja en lifa undir því harðræði, sem meistarinn beitti þá.

Í bókinni fjallar Kenneth síðan um samsekt ekki aðeins þeirra sem nutu góðs af þrælahaldinu á meðan það viðgekkst, heldur líka allra hinna sem á  eftir komu og nutu, og njóta enn, góðs af þrælahaldinu. Það var afrakstur vinnu þræla, sem lagði grunninn að  yfirburða efnahagsveldi Bandaríkjanna og Vesturlanda almennt.

Að mati Kenneth eru allir bandaríkjamenn af evrópskum uppruna, hvort sem þeir eru afkomendur þrælahaldara eður ei, að einhverju leyti samsekir og þurfa að líta í eigin barm og gera upp hug sinn í þessum málum. Hann er mjög hlynntur aðferðum þeim sem Nelson Mandela beitti á sínum tíma í Suður-Afríku, svo kallaðri “Truth and Reconciliation” aðferð, þar sem hinir hvítu játa á sig sína sekt og leita síðan sátta við þá sem þeir kúguðu.  Meðan ekkert er að gert mun sárið bara halda áfram og stækka og gröfturinn að safnast fyrir. Eins og Kenneth Collier bendir á hafa þessi svöðusár á bandarísku samfélagi aldrei gróið um heilt og eiga blökkumenn enn undir högg að sækja.

Inga Dóra Björnsdóttir desember 30, 2018 13:31