Konan fær helming lífeyris eiginmanns sem fór á hjúkrunarheimili

Það getur verið snúið fyrir eldri hjón, ef að því kemur að annað þeirra þarf að fara fyrr á hjúkrunarheimili en hitt. Ef það er sá sem hefur hærri tekjurnar sem fer á hjúkrunarheimili, situr hinn makinn eftir og þarf  í raun að reka  tvö heimili í stað eins áður, fyrir mun minna fé. Elín Sigrún Jónsdóttir lögmaður hjá Búum vel, sem hefur sérhæft sig í þjónustu við fólk sem er orðið 60+, segir að í slíkum tilvikum sé mikilvægt að huga að rétti hjóna og sambúðarfólks til að skipta lífeyri. „Þar er um mikilvægt jafnréttis- og sanngirnismál að ræða, ef um verulegan mun er að ræða, sem er oft hjá konum og körlum þeirrar kynslóðar sem nú er á hjúkrunarheimilum“, segir hún.

Elín Sigrún Jónsdóttir

Karlinn með meirihluta teknanna á leið á hjúkrunarheimili

Elín nefnir nýlegt dæmi um þetta.  „Ég var til dæmis að þjóna fullorðnum hjónum fyrir skömmu, karlinn var á leið á hjúkrunarheimili en konan var hress og gat enn haldið heimili fyrir sig. Staða þeirra var sú að karlinn var að fá um 700 þúsund krónur í mánaðarlaun eftir skatt en hún um 200 þúsund. Ef ekkert er að gert greiðir karlinn 525 þúsund krónur af  sínum 700 þúsundum til hjúkrunarheimilisins og afgangurinn um 175 þúsund fer þá til reksturs sameiginlega heimilisins ásamt 200 þúsund króna tekjum konunnar sem hefur þá 375 þúsund til ráðstöfunar. Áður höfðu þau haft saman um 900 þúsund krónur“.

Ráðstöfunartekjur geta hækkað við skiptingu

„Þessi hjón nýttu heimild til að skipta lífeyrisgreiðslum, þannig að hún ráðstafaði 50 % af sínum lífeyri til hans og hann 50% af sínum lífeyri til hennar. Þessi ráðstöfun þýddi að konan fékk 450 þúsund krónur til ráðstöfunar og reksturs heimilisins í stað 375 þúsunda, sem getur þýtt um 900 þúsund króna hækkun á ráðstöfunarrtekjum hennar á ári“, segir Elín.

Þrjá leiðir til að deila lífeyri með maka sínum

Lög um lífeyrissjóði heimila sjóðfélögum að semja við maka sína um gagnkvæma og jafna skiptingu áunninna lífeyrisréttinda. Hún segir mikilvægt að minna á þessa lagaheimild, en hún óttast að heimildin hafi farið fram hjá mörgum sjóðfélögum.  Lögin kveða á um þrjá möguleika á samningum hjóna og fólks í sambúð: 1) að skipta áunnum lífeyrisréttindum, 2) að skipta framtíðarréttindum og 3) að skipta greiðslum þegar taka lífeyris er hafin, eins og gert var í dæminu hér á undan. Samninga um fyrstu tvær leiðirnar þarf fólk að gera fyrir 65 ára aldur og áður en taka ellilífeyris hefst. „Það er mikilvægt að fólk leiti til sinna lífeyrissjóða varðandi möguleikana og meti kostina hver fyrir sig, það er alls ekki sjálfgefið að þetta henti öllum“, segir Elín að lokum.

Hægt er að finna mikilvægar upplýsingar um þessi mál á lifeyrismal.is,  Sjá einnig hér viðtal við Elínu sem birt var á Lifðu núna vefnum.

 

 

 

 

 

Ritstjórn febrúar 22, 2023 07:00