Frítekjumörk hækki árlega samkvæmt launavísitölu

Landssamband eldri borgara hefur tekið saman fimm  helstu áhersluatriði sín fyrir Alþingiskosningarnar á hausti komanda. Meðal þess sem þar er að finna er:  Krafa um að frítekjumörk vegna lífeyris frá lífeyrissjóðum verði 100.000 krónur á mánuði, að eftirlaunafólk fái að vinna eins og því sýnist án skerðingar í almannatryggingakerfinu, að lágmarkslífeyrir verði aldrei lægri en umsamin lágmarkslaun á almennum vinnumarkaði og að ellilífeyrir og frítekjumörk hækki árlega samkvæmt lauanvísitölu Hagstofu Íslands.

Vilja fella aldursviðmiðanir úr lögum

Þá er farið fram á að starfslok miðist við færni en ekki aldur, enda sé aldursmismunun bönnuð samkvæmt stjórnarskrá. Skorað er á alþingismmenn að fella úr allri lagasetningu ákvæði um aldurstengdar viðmiðanir, en leggja þess í stað áherslu á þekkingu, reynslu, hæfni og menntun fólks óháð aldri.

Heilsugæslan nálgist eldra fólk fyrr

Krafa um að heilsugæslan verði vagga öldrunarþjónustunnar er einnig meðal þess sem áhersla er lögð á. Ríki og sveitarfélög þurfi að stórauka samvinnu sína með það að markmiði og heilsugæslan þurfi að nálgast eldra fólk fyrr á lífsleiðinni.

Vantar millistig milli heimilis og hjúkrunarheimilis

Varðandi búsetuúrræði, er gagnrýnt að þau séu allof fábreytt. Það vanti líka  millistig  milli þess að fólk búi á eigin heimili og á hjúkrunarheimili. Brýnt sé að finna fjölbreytt úrræði til að mæta þessari þörf.

Þarf að einfalda lagaumhverfið

Þá segir að það gildi of margir og sundurleitir lagabálkar um þau málefni sem varða eldra fólk, þar á meðal um almannatryggingalögin. Einfalda þurfi lagaumhverfið og gera það skilvirkara meðal annars með því að skilja að lög um eldra fólk og öryrkja. Tryggja þurfi aðkomu eldri borgara að þeirri endurskoðun.

Gefinn var út einblöðungur með þessum kröfum og aðgerðahópur eldri borgara hefur haldið fundi með fulltrúum allra stjórnamálaflokka, verkalýðshreyfingar og atvinnurekenda, til að kynna þeim þessi málefni, sem vonandi verða ofarlega á baugi í kosningunum í haust.

Ritstjórn maí 4, 2021 08:15