Verður málinu gegn skerðingunum vísað frá?

Mál Gráa hersins gegn ríkinu vegna skerðinganna í almannatryggingakerfinu var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Þrír einstaklingar þau Wilhelm Wessman, Ingibjörg H. Sverrisdóttir og Sigríður J. Guðmundsdóttir stefndu Tryggingastofnun ríkisins í lok apríl fyrir hönd Gráa hersins og krefjast þess að fá viðurkennt að ríkinu sé óheimilt að skerða ellilífeyrinn í almannatryggingakerfinu eins og gert er. Skerðingin er nú 45%.  Ríkið krefst hins vegar sýknu í málinu.

Þegar málið hefur verið tekið fyrir í fyrsta sinn, getur munnleg meðferð þess  hafist fyrir dómi, en við fyrstu fyrirtökuna geta aðilar málsins einnig lagt fram ný gögn eða gert athugasemdir, áður en munnlega meðferðin hefst.  Stefnendur málsins lögðu fram ný gögn í dag og ríkið gerði athugasemdir. Það gerir ekki kröfu um að málinu sé vísað frá en gerir alls kyns athugasemdir við formið, að því er virðist, til að leggja stein í götu þess að málið verði yfirleitt tekið fyrir í Héraðsdómi. Við fyrirtökuna í dag, óskaði ríkið eftir tveggja vikna fresti til að kynna sér gögn málsins. Dómarinn Pétur Dam Leifsson  samþykkti að veita frest til 11. Desember. Þá kemur í ljós hvernig hann mun bregðast við athugasemdum TR eða ríkisins og hvort milli 30 og 40 þúsund eftirlaunamönnum á Íslandi verður leyft að leita réttar síns fyrir dómstólnum í þessu umdeilda máli.

Það er erfitt að spá fyrir um hvernig málið fer, ágreiningurinn milli aðila er mjög skýr. Stefnendur vilja skerðingarnar burt og telja þær fara í bága við stjórnarskrá. Ríkið skilar hins vegar greinargerð og telur að skerðingarnar séu hvorki brot á eignarétti né jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Tekist verður á um þetta í málaferlunum, að því gefnu að málið hljóti efnislega meðferð, en verði ekki vísað frá.

Verslunarmannafélag Reykjavíkur er aðalstyrktaraðili Gráa hersins í þessu máli.

Ritstjórn nóvember 26, 2020 17:01