Konur líklegri til að verða fórnarlömb aldursmismununar

Mörgum finnst eins og þeir séu að senda ferilskrána sína inn í svarthol þegar þeir sækja um starf því þeir fá engin svör við umsóknum sínum. Það gæti verið vegna aldurs viðkomandi eða útlits.

Raunar sýna rannsóknir að það eru minni líkur á að atvinnuumsóknum frá konum en körlum  sé svarað, sama á hvaða aldri þær eru. Nýleg rannsókn sem gerð var í Bandaríkjunum sýnir þetta svart á hvítu. Systurvefur Lifðu núna, aarp.org birti niðurstöður rannsóknarinnar. Til að skoða hvort að aldursmismunun væri til staðar voru búnar til ferilskrár fyrir fólk á mismunandi aldri. Búnar voru til ferilskrár fyrir fólk á aldrinum 29 til 31 árs, 49 til 51 árs og 64 til 66 ára. Ferilskránar voru síðan sendar til 13 þúsund fyrirtækja í 11 ríkjum Bandaríkjanna sem svör við raunverulegum atvinnuauglýsingum.

Svarað var auglýsingum þar sem óskað var eftir fólki til starfa í stjórnsýslu, öryggisvörslu, smásölu og þar sem auglýst var eftir aðstoðarmönnum af ýmsu tagi. Öll áttu störfin það sameiginlegt að ekki var krafist mikillar menntunar eða starfsreynslu. Yngsti aldurshópurinn fékk mun fleiri svör við sínu en eldri hóparnir. Til að mynda fengu kvenkyns umsækjendurnir í yngsta aldurshópnum 47 prósent fleiri svör en elsti kvennahópurinn. Svarað var umsóknum frá 14.4 prósentum af yngsta hópnum en 7,6 prósentum af elsta hópnum.

Fleiri karlkynsumsækjendur fengu svör en konurnar. En þar mátti líka greina aldursmismunun þótt hún væri ekki jafn áberandi og meðal kvenkyns umsækjanda. Yngstu karlarnir fengu 30 prósent fleiri svör en elsti hópurinn. 21 prósent yngstu karlanna fengu svör en 14,7 prósent þeirra elstu.

Rannsóknin svarar því ekki hvers vegna konur eru líklegri til að vera fórnarlömb aldursmismunar en karlar. Rannsakendur segja þó að það gæti verið vegna þess að eldri konur séu frekar dæmdar eftir útliti en karlar. Þeir benda sömuleiðis á að það sé í umræðunni að hækka eftirlaunaaldur en það geti komið illa við eldra fólk því mörgum gangi nú þegar illa að fá vinnu. Sérstaklega geti það reynst konum erfitt því margar þeirra lifi menn sína, þær geti því átt á hættu að lifa síðustu æviárin í sárri fátækt. Aldursmismunun á vinnumarkaði í Bandaríkjunum og lélegt öryggisnet hins opinbera geti aukið vandann ennfrekar.

 

Ritstjórn mars 8, 2017 09:04