Einmanaleiki eykst eftir 75 ára aldurinn

Fólk sem er nýkomið á eftirlaun er minnst einmana af öllum dönum, samkvæmt rannsókn heilbrigðisyfirvalda þar í landi, sem náði til 183.000 dana. Frá 75 ára aldri eykst einmanaleiki fólks hins vegar verulega. Þetta kemur fram á danska vefnum Faglige seniorer.

Það að verða eftirlaunamaður gerist í tveimur þrepum og líðan fólks breytist eftir aldri, segir í grein sem birtist þar. Þannig eru danir 65-75 ára, sá hópur sem upplifir minnstan einmanaleika, en þeir sem eru 75 ára og eldri eru oft einmana. Þarna er farið úr einum öfgunum í aðrar.

Nóg að gera

„Fyrst eftir að þú ferð á eftirlaun hefurðu oft mikið við að vera. Þú átt lítil barnabörn og ert kannski á ferð og flugi um heiminn. Þegar þú ert orðinn 75 ára, breytist ýmislegt. Þú ert ef til vill búinn að missa makann, hefur ekki lengur nægan kraft til að sinna garðinum og húsinu, eða ert orðinn veikur. Þá er meiri hætta á að þú verðir einmana“, segir í skýringum í rannsókninni.

Yngri hópur eftirlaunafólks er sjaldnast allra dana einmana. Einungis 4,1% karlanna svöruðu að þeir væru oft einir, án þess að hafa kosið það sjálfir og 4,4% kvennanna.

Mundu að leggja rækt við vini og félaga

En þegar eftirlaunafólkið eldist, verða breytingarnar miklar. Frá því að vera meðal þeirra sem eru minnst einmana, er eftirlaunafólk 75 ára og eldra meðal þeirra sem eru mest einmana. Þannig svara 5,7% karla á þessum aldri að þeir séu oft einmana, en 8,1% kvenna sem eru jafngamlar, segjast vera einmana.

Það er bara yngsti hópurinn, á aldrinum 16-24 ára, sem er oftar einmana en þetta eldra fólk.

Það er mjög mikilvægt að þeir sem eru í yngri eftirlaunahópnum, muni að leggja rækt við vini, gamla vinnufélaga og annan félagsskap. „Það getur komið sér vel, þegar maður er orðinn „eldri“ eftirlaunamaður“, segir í greininin.

Danir sem hafa verið launamenn og eru í verkalýðsfélögum, geta hitt gamla vinnufélaga í eftirlaunaklúbbum ýmiss konar. Á Íslandi eru ýmis verkalýðsfélög og jafnvel vinnustaðir sem halda úti ákveðinni starfsemi fyrir þá sem eru komnir á eftirlaun, en það er hreint ekki almenn regla.  Þar sem slík samtök eru fyrir hendi, er hægt að sækja félagsskap þangað.

 

Fimm ástæður fyrir einmanakennd eldra fólks

Þegar við verðum gömul, breytast félagslegar og heilsufarslegar aðstæður

Makamissir hefur mikið að segja og einnig ef fólk missir færni vegna veikinda eða kraftleysis.

Gamalt fólk ver oft meiri tíma aleitt, en það er sátt við.

Eldra fólk getur verið einmana, annað hvort vegna þess að það langar að vera með öðrum, eða vegna þess að því finnst það ekki hluti af þeim félagsskap sem býðst, til dæmis í fjölskyldunni, félagi eldri borgara eða á dvalarheimilinu.

Einmanaleiki er ekki að vera aleinn. Einmanaleiki er að finnast maður vera einn.

Ritstjórn júní 7, 2018 07:17