Kóreupopp fer sigurför um heiminn

Fyrir þá sem ekki vita er Kpop dægurlagatónlist frá Suður-Kóreu sem hefur farið sigurför um heiminn á síðustu árum. Margir minnast kannski lagsins Gangnam Style,  með hópi sem kallar sig BTS. Lagið var í senn fjörugt og skemmtilegt og við það var dansaður sérstakur dans, algert stuðlag. Guðrún Ólafsdóttir viðskiptafræðingur og áhugamanneskja um Kpop heldur námskeið um þetta „gleðipopp“ hjá Endurmenntun Háskóla Íslands þann 10.febrúar. Hún segir að mikið vatn hafi runnið til sjávar frá því Gangnam Style sló í gegn.

„Það hefur svo margt gerst og þessi tegund tónlistar er nú af þvílíkri stærðargráðu í alþjóðlegum tónlistariðnaði, að það er með ólíkindum. Hún er að koma hingað núna og það hefði verið undarlegt ef hún hefði ekki komið. Hljómsveitirnar hafa lengi haldið tónleika í Asíu og Bandaríkjunum og eru nú einnig farnar að troða upp á  tónleikum í Evrópu.“

Á námskeiðinu í Endurmenntun ætlar Guðrún að fara yfir uppruna þessarar tónlistar, einkenni hennar, útbreiðslu og fleira. Eitt af því sem einkennir tónlistina er að fyrir hvert lag er saminn dans, stundum býsna flókinn. Ýmsar hljómsveitir eða hópar í Kpoppinu eru orðnar mjög vinsælar. Stærsti og vinsælasti hópurinn er BTS, en fleiri hafa fylgt í kjölfarið og náð miklum vinsældum. Yfirleitt er sungið á kóresku í þessum lögum en það hefur þó færst í vöxt að hóparnir syngi á ensku. Guðrún segist undrandi á því hversu litla spilun þessi tónlist hafi fengið á íslenskum útvarpsstöðvum og spyr sig hvort það sé vegna tungumálsins. Sjálf hefur hún sótt tvenna Kpopptónleika erlendis ásamt dóttur sinni. En hvað finnst henni svona heillandi við Kpoppið?

„Það er svo mikil gleði og léttleiki í kóresku lögunum og textarnir uppbyggilegir. Og það er ekki bara fólk frá Kóreu sem stundar þessa tegund tónlistar. Íslendingar og Svíar hafa til dæmis samið lög fyrir kóresku sveitirnar. Þessi tónlist hefur líka sterk tengsl við kvikmyndagerðina sem blómstrar í Suður-Kóreu“, segir hún.

 

 

Ritstjórn janúar 30, 2022 14:46