Um 300.000 manns af íslenskum ættum búa í Vesturheimi

Talið er að um 300.000 manns af íslenskum ættum búi í Vesturheimi.  Um 200 þúsund í Kanada og um 100 þúsund í Bandaríkjunum. Þetta slagar hátt upp í mannfjölda Íslands eins og hann er í dag. Margir Íslendingar þekkja sögur af ættingjum sem fluttu vestur, en tímabil vesturferðanna stóð sem hæst á árunum 1870-1914. Stefán Halldórsson félagsfræðingur er þeirra á meðal, en ömmusystir hans flutti til Kanada árið 1901. Hann hefur farið og hitt skyldfólk sitt þar vestra. „Þeir sem maður hittir á samkomum í svona ferð eru þeir sem eru áhugasamir um íslenskan uppruna sinn, en hinir sem hafa ekki áhugann mæta auðvitað ekki“.

Glaðir að hitta fólk frá gamla landinu

„Þetta fólk er einstaklega viðkunnanlegt og elskulegt, við trúum því náttúrulega að það séu íslensku genin“, segir Stefán og hlær. „Það er sérkennilegt að hitta Vestur-Íslendinga af því þeir eru svo glaðir að hitta fólkið frá gamla landinu. En saga íslenskra forfeðra þeirra nær svo langt aftur, bara rétt eins og saga okkar forfeðra frá sama tíma. Forfeðurnir eru þannig alveg eins fjarlægir þeim og okkur“.  Hann segir að þetta sé öðruvísi en á íslenskum ættarmótum. Þar hittist fólk  sem á sameiginlegar minningar um fólk og staði, en íslenskir og vestur-íslenskir frændur eigi engar sameiginlegar minningar og muni ekki eftir sama fólkinu.

Hvar eru Vestur-Íslendingarnir nú?

Stefán verður með námskeið um Vestur-Íslendinga hjá Endurmenntun Háskóla Íslands 9. mars, ásamt Almari Grímssyni sem hefur haft samskipti við Vestur-Íslendinga um áratuga skeið og verið fararstjóri í tugum ferða til Kanada.  Á námskeiðinu, sem stendur einungs eitt kvöld, verður farið yfir upphaf vesturferðanna, orsakir þeirra og umfang, landnám Íslendinga vestra og Íslendingabyggðir þar. Stefán segist munu kynna vestur-íslenskan ættfræðigrunn á námskeiðinu, Icelandic Roots. Þá verður farið yfir hvar Íslendingabyggðir eru núna, þjóðræknisfélög, helstu hátíðir og viðburði Vestur-Íslendinga, auk ýmissa hagnýtra atriða fyrir þá sem vilja til dæmis fara í ferðir á slóðir Vestur-Íslendinga.

Hér fyrir neðan er mynd frá Winnipeg eins og borgin lítur út í dag, rúmlega hundrað árum eftir að hópar Íslendinga flykktust þangað til búsetu, en margir settust einmitt að í þessari borg. Þar búa um 700.000 manns.

Ritstjórn mars 6, 2022 14:29