Í gönguferð að Fjallabaki – í skólastofu EHÍ

Þrjú mánudagskvöld í lok febrúar og byrjun mars verður áhugafólki um gönguferðir á hálendi Íslands boðið að slást með í för um valdar gönguleiðir að Fjallabaki. Sumarferðalag að vetrarlagi, í skólastofu Endurmenntunar Háskóla Íslands.

„Ég vil nú eiginlega ekki kalla þetta námskeið,“ segir leiðsögumaðurinn, Jónas Guðmundsson. „Frekar að þátttakendur komi með mér í smá ferðalag að Fjallabaki þótt við sitjum öll í skólastofu. Sumarferðalag að vetrarlagi, þar sem við lifum okkur inn í náttúruna, jarðfræðina, söguna og sögurnar á fjöllum,“ segir hann. Að sínu viti sé það ótvírætt að námskeiðið/ferðalagið eigi að höfða til allra aldurshópa; hann vonist því til að þátttakendur verði á ýmsum aldri.

Áherslan á að njóta, fræðast og hafa gaman

Í námskeiðskynningu segir: „Hvort sem þú ætlar þér að ganga á hálendinu, ferðast í huganum, ert vanur göngumaður eða byrjandi nýtist námskeiðið þér.“

Jónas Guðmundsson

Á námskeiðinu/ferðalaginu er fjallað um perlur í náttúrunni, hvernig sagan og sögurnar tengjast gönguleiðunum og „auðvitað er engin gönguleið án jarðfræði“. Fjöldi mynda af vettvangi auðveldar þátttakendum að lifa sig inn í ferðalagið um þessar heillandi slóðir íslenskra óbyggða.

Jónas leggur áherslu á að það sé eins með þetta ferðalag og aðrar gönguferðir: Áherslan sé lögð á að njóta, fræðast og hafa gaman.

Jónas Guðmundsson er gönguleiðsögumaður og ferðamálafræðingur. Hann hefur leiðsagt víða um land og starfað við skála- og landvörslu og hjá Landsbjörgu. Hann hefur um árabil skrifað allnokkuð um gönguleiðir og er höfundur bókarinnar Gönguleiðir á hálendinu sem kom út hjá Sölku í fyrra og seldist vel. Jónas segir námskeiðið að hluta til byggt á bókinni, en ítarlegar sé farið í margt sem tekið er fyrir á námskeiðinu.

Finna má frekari upplýsingar um námskeiðið á vef EHÍ.

Ritstjórn febrúar 16, 2022 07:00