Kóríanderkryddaðar lambagrillsteikur

Nú er það grill þótt við höfum verið búin að kynna viðtal við Albert Eiríksson. Hann verður í viðtali næsta föstudag um lífið og tilveruna og gefur uppskriftir þar sem berin eru nýtt. Nú er það hins vegar grilluppskrift enda nokkuð eftir af grilltímanum. Lambakjöt á grillið er uppáhald margra. Flestar þjóðir eiga uppskriftir þar sem lambakjöt er í fyrirrúmi og meðlætið er mismunandi. Nú er mikill uppskerutími og grænmetið flæðir í verslanir eða úr görðum. Hér er uppskrift að grilluðum lambagrillsteikum fyrir fjóra.

800 g framhryggjarfillet

1/2-1 knippi króríanderlauf, söxuð

1 dl olía

1/2 dl þunnt hunang

2 msk. sojasósa

2 msk. Grand Marnier eða brandí

2-3 hvítlauksrif, söxuð

nýmalaður pipar

salt

2 dl þurrt hvítvín

Skerið kjötið í 8-10 jafnstóra bita. Setjið allt nema salt og hvítvín í skál og hrærið vel saman. Setjið kjötið út í og veltið því upp úr leginum. Látið standa í kæli í nokkrar klukkustundir og hrærið í öðru hverju. Takið kjötið úr leginum og saltið það og látið standa við stofuhita á meðan grillið er hitað vel. Grillið kjötið síðan við góðan hita í 5-8 mínútur á hvorri hlið, eða eftir smekk. Setjið afganginn af leginum í pott og bætið hvítvíninu saman við. Hitið að suðu og látið sjóða í 2-3 mínútur. Smakkið sósuna og bragðbætið með pipar og salti eftir smekk og berið fram með kjötinu. Með þessu er mjög gott að bera steiktar nýjar kartöflur og salat blandað mangóaldini, kasjúhnetum, smátt sneiddu rauðu chilialdini eða papriku og söxðum kryddjurtum eftir smekk.

 

Ritstjórn ágúst 28, 2020 11:43