Kynslóðin sem mun bylta hugmyndum um aldur og eftirlaun

Kynslóð eftirstríðsáranna, þeir sem eru rúmlega fimmtugir, undibýr byltingu með því að skilgreina elli og eftirlaunaaldur uppá nýtt, segir Ros Altmann talsmaður breskra stjórnvalda í málefnum eldri starfsmanna, í nýlegri grein í breska blaðinu The Times. Þetta fólk vill fá fyrirtæki til að viðurkenna kosti þess að leyfa eldri starfsmönnum að hætta þáttöku á vinnumarkaði í áföngum, í stað þess að hætta bara einn daginn og síðan ekki söguna meir. Þessi breyting er tilkomin, vegna þess að fólk lifir lengur og heldur heilsu lengur, á sama tíma og blikur eru á lofti varðandi eftirlaunin. „Hefðbundnar hugmyndir um eftirlaunaaldurinn eiga ekki lengur við, sérstaklega ekki hjá þeim sem sjá fram á lág eftirlaun og margra ára aðgerðarleysi eftir að eftirlaunaaldri er náð“segir Altmann

Setja spurningamerki við eftirlaunahlutverkið

„Það er að verða bylting í þessum efnum“, segir í greininni., „ og þar er millistríðsárakynslóðin „baby boomers“ í aðalhlutverki. Fólkið sem hefur ævinlega endurskoðað allt í lífi sínu, er nú að endurskoða hlutverk sitt með tilliti til eftirlauna“, segir Ros Altmann í samtali við blaðið. Nú setur það spurningamerki við atvinnuþáttöku sína á efri árum.   „Þegar þetta fólk var ungt, var það getnaðarvarnarpillan sem barist var fyrir, frelsi til athafna, réttindi kvenna, atvinnuþáttaka kvenna og sveigjanlegur vinnutími mæðra“, segir hún. Þriðjungur Breta er nú kominn yfir fimmtugt „the superboomers“ eins og Time kallar þá, og þeir eru efnaðri, heilbrigðari og virkari en fólk á þessum aldri hefur nokkurn tíma verið. Árið 2030 verður fólk yfir sextugu orðið 20 milljónir, samkvæmt opinberum tölum í Bretlandi.

Fólki með grátt í vöngum fjölgar

Átak til að tryggja að fleira eldra fólk haldi áfram að vera á vinnumarkaðinum, kemur til af breytingum í aldursskiptingu. Gert er ráð fyrir því að á næstu 10 árum verði 700.000 færri á aldrinum 16-49 ára á vinnumarkaðinum í Bretlandi en nú er, en að fólki á aldrinum milli fimmtugs og eftirlaunaaldurs fjölgi um 3.7 milljónir.  Afleiðing þessarar fjölgunar fólks „með grátt í vöngum“ verður breytt landslag í atvinnulífi, húsnæðismálum og á þéttbýlissvæðum segja sérfræðingar.

Nýtt skeið

Ms. Altmann sem var í síðasta mánuði útnefnd talsmaður eldri starfsmanna, sagði að framundan væri nýtt tímabil með nýjum tækifærum. „Það er æviskeiðið sem tekur við þegar fólk hættir fullri atvinnuþáttöku og lagar sig smám saman að þeim breytingum sem verða á efri árum í stað þess að hætta að vinna þegar ákveðin dagsetning rennur upp. Það að fara á eftirlaun mun gerast í þrepum í stað þess að verða sérstakur viðburður. Og hún bætti við „Hvers vegna ætti fólk að vilja hætta að vinna, hætta að nota hæfileika sína og hafa mun minni fjárráð?“

Hin nýju andlit tískunnar

Þessi ummæli féllu sama dag og skýrsla var birt, sem sýnir að aldur hefur ekki lengur áhrif á áhugamál og lífsstíl þeirra sem eru orðnir rúmlega fimmtugir eða „super-boomers“. Fram kemur að þeir séu í góðu formi, virkari í hugsun, hafi frumkvæði og minni áhyggjur af því hvað öðrum finnst um þá, en fyrri kynslóðir fólks á sama aldri. Þeir eru í auknum mæli að verða andlit tísku, hönnunar og fegurðar.

 

 

Ritstjórn ágúst 14, 2014 11:29