Ein greiðsla á ári frá TR er valkostur fyrir marga

Sigurjón Skúlason, verkefnastjóri uppgjörsmála TR skrifar

 

Í hverjum mánuði fá um 70 þúsund einstaklingar greiðslur frá TR og fyrir hluta af hópnum, það er þau sem eru með lágar greiðslur getur verið hagkvæmara að fá greitt einu sinni ári. Þannig eru réttindi viðkomandi reiknuð út einu sinni á ári á grundvelli skattframtals síðasta árs og ein greiðsla berst í kjölfarið.

Ein greiðsla á ári hentar einkum þeim sem eru með grunnframfærslu frá öðrum en TR og þeim sem eru með óreglulegar og háar fjármagnstekjur.

Til að fá eina greiðslu á ári í stað mánaðarlega þarf að sækja um á Mínum síðum TR. Helstu kostir þessa fyrirkomulags eru:

  • Greiðsla lífeyris er rétt þar sem réttindin eru reiknuð eftirá og byggja á skattframtali
  • Hvorki myndast innistæða né skuld í kjölfar uppgjörs
  • Tekjuáætlun er óþörf

TR vill vekja sérstaka athygli á þessum möguleika og hefur hópur viðskiptavina okkar fengið  kynningarbréf þar sem þau eru hvött til að nýta sér hann. Með því móti viljum við stuðla að því að frávikum í greiðslum til viðskiptavina okkar fækki.

Á tr.is eru frekari upplýsingar um eina greiðslu á ári og hlekkur á umsókn vegna þessa.

 

 

 

Ritstjórn ágúst 28, 2023 18:03