Allir eiga að hafa rétt til að vinna óháð aldri

Lítið var fjallað um málefni eldra fólks í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi á þriðjudagskvöld. Þingmenn og ráðherrar lögðu áherslu á að það þyrfti að styrkja innviðina, án þess að fara nákvæmlega út hvernig, allir voru sammála um að það þyrfti að setja meira fjármagn í heilbrigðisþjónustu og styrkja hana. Þá voru loftslagsmál ofarlega í hugum margra og nokkrir stjórnarandstöðuþingmenn bentu  á að misskipting í samfélaginu væri að aukast.

Gott lífeyriskerfi hjálpar til

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra sagði að gott lífeyriskerfi gerði þjóðina betur í stakk búna að takast á við áskoranir í heilbrigðismálum. „Ríkisstjórnin hefur með stefnuyfirlýsingu sinni gert heilbrigðismál að forgangsverkefni. Hluti af því verkefni er að móta skýrari stefnu um hvernig við stýrum síaukinni eftirspurn og hvert skútan skuli sigla. Þjóðin eldist og tækninni fleygir fram. Verðmætasköpun þjóðarbúsins, sem standa verður undir heilbrigðisútgjöldum, eykst hægar en getan til að vinna á sjúkdómum. Áskoranir í heilbrigðisþjónustu eru margar. Við leysum þær ekki allar með nýju fjármagni. Til þess er fjármagnið af of skornum skammti. En góð efnahagslega staða Íslands og gott lífeyriskerfi gera okkur samt sem áður betur í stakk búin en flestar aðrar þjóðir til að takast á við þennan vanda,“ sagði Bjarni.

Vinna óháð aldri

Bendikt Jóhannesson

Bendikt Jóhannesson fjármálaráðherra sagði að allir ættu að fá að vinna óháð aldri. „Allir sem hafa vilja og getu til þess að vinna eiga að hafa rétt til þess, óháð aldri. Hið opinbera og fyrirtæki á almennum markaði hafa sett sér reglur um að enginn skuli vinna eftir ákveðinn fjölda afmælisdaga. Þjóðfélagið tapar með þessu miklum mannauði og fjölda vinnufúsra handa á sama tíma og víða er skortur á vinnuafli,“ sagði Benedikt.

Styrkja heimaþjónustu og hjúkrunarheimili

Óttar Proppé

Óttar Proppé heilbrigðisráðherra sagði að það þyrfit að samhæfa heilbrigðisþjónustuna og styrkja heimaþjónustu og hjúkrunarheimili. „Eitt meginstefið í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum er samhæfð, örugg og aðgengileg heilbrigðisþjónusta. Þrátt fyrir að heilbrigðisþjónustan á Íslandi sé að mörgu leyti mjög góð þá þarf að samhæfa hana enn betur og líta á alla þætti hennar sem hluta af sömu heild. Áform nýrrar ríkisstjórnar miða að því að tengja betur þjónustu heilsugæslu, sjúkrahúsa, heimaþjónustu og hjúkrunarheimila. Með því að styrkja heilsugæsluna, heimaþjónustu og hjúkrunarheimili, svokallaða grunnþjónustu, verður dregið úr þörf fólks til að sækja dýrari og flóknari þjónustu,“ sagði Óttar.

Lausnir fyrir alla

Björn Leví Gunnarsson

Björn Leví Gunnarsson Pírati sagði að hans flokkur hefði lausnir í málefnum aldraðra. „Píratar eru með lausnir í heilbrigðismálum, umhverfismálum, húsnæðismálum, menntamálum, málefnum aldraðra, málefnum öryrkja og auðlindamálum, lausnir sem henta fólki. Lausnir sem við búum til saman og tökum ábyrgð á saman. Píratar vilja að eignarhald fyrirtækja sé gagnsætt og aðgengilegt af því að hagsmunatengsl og skattundanskot eru vandamál,“ sagði Björn Leví.

Ritstjórn janúar 25, 2017 11:53