Kúlan í maganum

Inga Dagný Eydal.

Inga Dagný Eydal hjúkrunarfræðingur skrifar:

 

Ég lærði nýverið af 5 ára barnabarni að „kúla í maganum“ er notað til að lýsa kvíða. Börn eru oftast fremur hlutbundin í hugsun og eiga kannski erfitt með að koma því í orð hvernig þeim líður en þau skilja vel hvernig það getur verið að hafa slíka kúlu í maganum. Við fullorðnu þekkjum líka kúluna mætavel, hnútinn í maganum sem myndast þegar við erum spennt, full streitu eða kvíðin. Og auðvitað er það ekki bara einhver huglæg upplifun, heilinn er beintengdur líkamanum og kvíðinn veldur líkamlegum breytingum, mjög gjarnan á meltingarfærin þar sem við finnum vel fyrir þeim.

Góðu fréttirnar eru þær að nú er að vaxa úr grasi kynslóð sem lærir um tilfinningar strax frá upphafi. Þau læra að tilfinningar eru nauðsynlegar og að allir hafa þær. Þau læra að setja nöfn á tilfinningarnar sínar, skoða þær og horfast í augu við þær. Þannig læra þau ekki einungis að gangast við sjálfum sér og vinna með erfiðar tilfinningar, þau verða einnig í minni hættu á að sjúkdómsgera tilfinningar og gera það á einhvern hátt óeðlilegt að finna t.d. til kvíða.

Og af hverju skiptir þetta máli? Höfum við kynslóðirnar sem nú erum fullorðin, mín kynslóð og kynslóð foreldra minna ekki skilað okkar, án þess að hafa lært um tilfinningar? Þarf eitthvað að vera að tala um tilfinningar, er það ekki bara vesen sem engu skilar?

Vissulega höfum við skilað okkar framlagi, við höfum unnið dagvinnu, unnið vaktavinnu og yfirvinnu, staðið okkar plikt, komið upp börnunum okkar og eignast eigið húsnæði. Langflest. Einhverjir brotnuðu undan álagi lífsins eins og gengur, einhverjir voru „tilfinningasamir“ og jafnvel „móðursjúkir“ og „taugaveiklaðir“ og það þótti skrítið og engan veginn eftirsóknarvert. Karlmennska og æðruleysi fólst í því að bíta á jaxlinn og ræða ekki sársauka og hjartasár, – í mesta lagi að eitt tár rynni niður steinrunnin andlit.

Misskilningurinn er reyndar sá að við erum öll jafn tilfinningasöm og taugaveikluð, við finnum öll fyrir kvíðanum, depurð, gleði, afbrýðissemi, reiði, og öllum hinum tilfinningunum. Og höfum við aldrei lært að skilja þær, þessar undarlegu kenndir sem brjótast fram þegar síst skyldi, þá höfum við heldur engar forsendur til að hafa á þeim stjórn og til að geta beint þeim í skynsamlegan farveg. Við berjum þær niður eins lengi og við getum og þegar þær brjótast svo fram í stormum tilverunnar, taka þær óhikað af okkur stjórnina. Sorg sem aldrei var rædd verður að kvíða og kúlan í maganum verður að grjóti. Þannig grær aldrei um heilt og alltof margir fara þannig á mis við heilmikið af hamingju og vellíðan.

Það er nefnilega þannig að tilfinningar eru hluti af þeirri heild sem er manneskja, þær eiga upptök sín í heilastarfsemi og taugaboðum og eru okkur öllum lífsnauðsynlegar. Þegar við viðurkennum það, þá sjáum við líka mikilvægi þess að læra um tilfinningarnar, alveg á sama hátt og við lærum um blóðrásina, lungun og það hvernig börnin verða til. Við getum ekki lært um þessa hluti nema að mega ræða um þá, velta upp hugmyndum og spyrja spurninga.

Þetta fær kynslóðin sem nú er að vaxa upp að gera og þetta getum við sannarlega líka gert. Það er aldrei of seint að skoða eigin tilfinningar, gangast við þeim og læra á þær. Láta af dómhörku í eigin garð en taka í staðinn upp sáttartilburði við sjálfan sig. Það er til fullt af fagfólki sem getur aðstoðað við þetta og það er líka til mikið af góðum og vitrum vinum sem eiga eyra til að hlusta og öxl til að gráta á.

Ég allavega mæli með þjóðarátaki til að vinna með „kúlur í maga“ og láta þær ekki stjórna ekki of miklu í tilverunni. Þá geta þessi 5 ára áreiðanlega kennt okkur heilmikið.

 

Inga Dagný Eydal mars 15, 2021 08:00