Bíó fyrir bí

Inga Dagný Eydal

Inga Dagný Eydal hjúkrunarfræðingur skrifar

Við mamma fórum saman í bíó í gær en það gerum við þegar sérstaklega spennandi konumyndir koma í bíó. Með konumyndum meina ég dramatískar myndir um ástir og örlög og ekki er verra ef þær gerast í gamla daga og skarta fallegum fötum og fallegu fólki. Þannig var einmitt myndin sem við sáum í gær en það var nýjasta bíómyndin um húsbændur og þjónustufólk á setrinu Downton Abbey. Salurinn í Borgarbíó var ekki þétt setinn en að mestu var þar fólk á miðjum aldri og eldra, vinkonur, systur, mæðgur og hjón,-flestir með silfurlitað hár. Í salnum var hlegið, klappað og grátið svolítið líka,- greinilegt að fólkið að Downton Abbey eru heimilisvinir víðar en hjá mér og mömmu.

Það rifjast alltaf upp fyrir mér þegar ég er komin í bíó hversu góð skemmtun það er og ég spyr mig eiginlega í hvert skipti af hverju ég fari ekki oftar. Þrátt fyrir allar heimsins efnisveitur og þann urmul af dagskrá sem við getum valið til að horfa á heima, þá er ekkert eins og að sökkva ofan í sætið sitt í bíó með stóran poka af poppi og ískalda kók og bíða eftir að ljósin slökkni og að myndin taki við. Ég á orðið erfiðara með að halda athygli á heilli bíómynd hér heima en í bíó lætur athyglisbresturinn undan og ég næ að detta inn í söguþráðinn og hrífast með.

Bíóferðin í gær var hins vegar svolítið tregablandin því nú er hún Snorrabúð stekkur og Borgarbíó lokar og hættir, eftir samfelldan rekstur frá árinu 1956. Já, það eru 66 ár síðan templarar á Akureyri veittu bæjarbúum val um tvö kvikmyndahús og vígðu Borgarbíó, fyrst sem sal í norðurenda Hótels Varðborgar og síðar í nýju húsi sem byggt var undir starfsemi bíósins. Mér finnst öll mín æska og uppvöxtur vera samofin bíóferðum og þótt bíóin hafi verið tvö á Akureyri þá fór ég reyndar mun oftar í Borgarbíó. Ég sé anddyrið á gamla bíóinu fyrir mér eins og ég hafi verið þar í gær, litlu miðasölukompuna og sælgætissöluna með Vallash og Jollý Kóla til drykkjar og lakkrísrörum, Lindubuffum, Akrakaramellum, og allskonar góðgæti til að nasla á, en ekki poppi. Sá siður kom ekki fyrr en síðar og í hvorugu bíóanna voru poppvélar fyrr en þá miklu síðar. Í sælgætis og miðasölunni unnu konur en dyraverðirnir voru karlmenn. Ekki veit ég á hverju þessi kynjaskipting var byggð en svona var þetta þá. Þetta fólk hafði reyndar ótrúlegt langlundargeð gagnvart unglingum sem ýmist voru of feimnir og uppburðarlitlir til að tjá sig skýrt eða voru með læti, hrindingar og flissköst fram úr hófi. Svo ekki sé nú minnst á lætin sem urðu þegar myndirnar byrjuðu og við brutum saman bíómiðana, gerðum á þá lítið gat og blístruðum í gegnum gatið með ótrúlegum hávaða.

Það var hægt að hringja í bíó og panta miða sem auðvitað voru númeraðir og símanúmerið í Borgarbíó var lengi greipt í huga mér. Svo voru seld prentuð prógrömm svona eins og lengst af tíðkuðust í leikhúsum og ég man að pabbi og mamma söfnuðu slíkum prógrömmum. Þau voru reyndar dugleg að fara í bíó, fóru ekki á aðra skemmtistaði nema til vinnu og við fórum með í bíó strax og við höfðum aldur til. Þar lærði ég snemma að meta dans- og söngvamyndir og svo urðum við eiginlega alætur á bíómyndir. Eða því sem næst. Það var auðvitað mikið sport að reyna að komast inn á myndir sem voru bannaðar börnum en það tókst ekki alltaf. Ég man að við systur fórum á svo svæsna hryllingsmynd eitt skiptið að við sváfum á gólfinu hjá pabba og mömmu þá nóttina, vorum þó komnar á menntaskólaaldur. Ég hafði reyndar alltaf gaman af hryllingsmyndum og beitti öllum brögðum til að lokka Örnu vinkonu mína með mér á slíkar myndir. Hún var ekki hrifin af þeim og ef ég hafði vélað hana með mér á fölskum forsendum endaði hún oftar en ekki með því að bíða bara frammi, en ég þraukaði samt með henni að sjá „Vin indíánanna” tvisvar sinnum því þar var svo mikið af hestum sem vöktu með henni mikinn áhuga,    en mér síður. Ekki þar fyrir að myndin skipti ekki alltaf öllu máli heldur samkomustaðurinn,- það var ofurspennandi að mæta í bíó og sjá hverjir væru þar fyrir, hverjir voru þar saman og hvaða draumaprinsar voru hugsanlega staðsettir á næstu bekkjum. Það var svo spennandi að við létum okkur hafa það að fara í „hálfleik” í bíó þegar það var orðið full kostnaðarsamt að mæta á hverja sýninguna af annarri. Í hléinu, eins og það var nú líklega kallað annars staðar, fór nefnilega stór hópur bíógesta út að reykja. Stóðu þá allir í einum hnapp og reyktu hver upp í annan því þeir sem ráfuðu í burtu gátu átt á hættu að komast ekki aftur inn. Slík var þvagan að bíósjúkar unglingsstelpur gátu auðveldlega blandað sér í hópinn, laumast í salinn án þess að dyraverðirnir sæju það og horft á seinni hluta myndarinnar. Þá gat verið snúið að reyna að geta upp á því hvað hafði átt sér stað fram að hléi en oft held ég að við höfum misst af inntakinu með því að horfa á hálfar bíómyndir. Það gerði ekkert til, að „fara í hálfleik í bíó” var íþrótt og dægrastytting hjá kynslóð sem átti ekki tölvur og bjó ekki að sjónvarpsdagskrá fyrir unglinga.

En Borgarbíó er á leið með að verða minningin ein og nú er eitt bíó á Akureyri,- enn þá. Við stöðvum ekki hjól tímans og breytingar eiga sér stað án afláts. Fæstar þeirra hreyfa mikið við mér en lokun Borgarbíós fyllir mig svolítið af fortíðarþrá og nostalgíu. Takk fyrir allar bíóferðirnar, allt frá þrjúbíó í sparikápu með Guðnýju systur og upp í Downton Abbey, – þetta voru góðar stundir!

Inga Dagný Eydal maí 23, 2022 07:00