Tónlistarkonurnar og gleðigjafarnir Sigríður Eir Zophoníasardóttir og Vala Höskuldsdóttir, í hljómsveitinni Evu, mæta eldhressar í leikhúskaffi á Borgarbókasafninu Grófinni miðvikudaginn 3. desember kl. 17:00.
Þar munu Sigríður og Vala spjalla um hinn bráðfyndna söngleik Kosmískt skítamix sem þær hafa sýnt undanfarið við frábærar undirtektir í Tjarnarbíó.Lagasmíðar og listsköpun, örmögnun og kvíði – allar erfiðustu tilfinningar sem manneskja getur upplifað – og ferlið að baki sýningunni verða á meðal þess sem þær stöllur ætla að ræða. Að svo búnu munu þær flytja nokkur vel valin lög fyrir gesti og gangandi.
Hljómsveitin Eva er þekkt fyrir töfrandi og líflega framkomu sem kemur áheyrendum sífellt á óvart, kitlar hláturstaugarnar og snertir hjörtun um leið.
Leikhúskaffi í Grófinni er samstarfsverkefni Borgarbókasafnsins og Tjarnarbíós, og skemmtileg viðburðaröð fyrir öll sem hafa áhuga á leikhúsi, menningu og listum.
Ljósmyndir: Björgvin Sigurðsson
Nánari upplýsingar á heimasíðu Borgarbókasafnsins:







